Það eru spennandi tímar framundan hjá íþróttafélaginu HK, en undirbúningur er hafinn að uppbyggingu keppnisvallar og stúku fyrir utan Kórinn, en undanfarin ár hefur HK leikið heimaleiki sína í knattspyrnu innanhúss í Kórnum. Á vormánuðum verða svo lóðir boðnar út í Vatnsendahvarfi, en reiknað er með 500 íbúðum í hverfinu svo iðkendum HK á eftir að fjölga mikið á komandi árum.
Starfshópur um fyrirhugaða uppbyggingu við Kórinn var settur á laggirnir í fyrra sem skoðaði mismunandi sviðsmyndir fyrir svæðið.
Árnína Steinunn Kristjánsdóttir tók við formennsku í aðalstjórn HK í byrjun september á síðasta ári, en hún hafði áður verið varaformaður félagsins. Kópavogspósturinn heyrði hljóðið í henni og byrjaði á því að spyrja hvort starfshópurinn væri búinn að skila af sér skýrslu varðandi uppbyggingu við Kórinn og hvar málið væri statt? ,,Já, starfshópurinn hefur skilað af sér tillögum og við gerum ráð fyrir að hönnun stúkunn-ar ásamt upphituðum keppnisvelli lögðum gervigrasi með flóðlýsingu (sem hentar liðum í Bestu deildinni) hefjist núna fljótlega á þessu ári,” segir Árnína.
Ánægjulegt að sjá að bærinn vilji forgangsraða fjármagni í uppbyggingu íþróttamannvirkja
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, sagði í viðtali við Kópavogspóstinn í byrjun desember í fyrra að áformað væri að framkvæmdir gætu hafist í ár og þeim lyki árið 2027. Er það enn tímaramminn? ,,Já, við bindum miklar vonir við að allar tímaáætlanir standist. Bæjarstjórinn hefur lýst því yfir að framkvæmdir á keppnissvæði HK hefjist á árinu, nú síðast á bæjarstjórnarfundi í nóvember þegar fjárhagsáætlun bæjarins var samþykkt. Það er ánægjulegt að sjá að bærinn vilji forgangsraða fjármagni í uppbyggingu íþróttamannvirkja enda hefur þessi meirihluti gefið það út að Kópavogur er og ætlar að vera áfram leiðandi í íþrótta- og æskulýðsmálum.”
Bygging stúkunnar er gríðarlega mikilvæg okkar starfi
En er félagið búið að bíða lengi eftir þessari uppbyggingu og hvaða þýðingu hefur þetta fyrir HK og kannski helst knattspyrnudeildina? ,,Bygging stúkunnar er gríðarlega mikilvæg okkar starfi. Við höfum beðið eftir þessari stúku lengi þó að það fari ekki illa um okkur á heimaleikjum okkar inn í Kórnum enda er það ein glæsilegasta aðstaða á landinu hvað varðar knatthús. En stúka sem þessi mun klárlega lyfta starfinu okkar enda er krafa um að leikir meistaraflokkanna séu spilaðir úti eins og hjá öðrum félögum og líklegt að iðkendafjöldi aukist á næstu árum með frekari uppbyggingu hverfisins og þá veitir ekki af auka velli.”
Sérstök áhersla lögð fjölnota íþróttamannvirki
Og það á s.s. að reisa stúku við keppnisvöllinn. Hvernig mannvirki verður það, eingöngu stúka eða verður einhver önnur aðstaða líka í byggingunni? ,,Það verður reist stúka, en í undirbúningsvinnunni hefur verið lögð sérstök áhersla fjölnota mannvirki m.a. með því að bæta félagsaðstöðu HK auk hugsanlegrar samnýtingar við aðra starfsemi á vegum bæjarins. Það hefur hins vegar ekki verið tekin endanleg ákvörðun hvaða aðstaða verður þar en það er verið að skoða valkosti. Nýlega reist stúka Fram í Úlfarsárdal er vel heppnuð og hægt væri að horfa að einhverju leyti til hennar í þessari framkvæmd.”
Yfir 2500 iðkendur í HK
HK er ungt félag, stofnað árið 1970, en starfið hjá ykkur er mjög blómlegt? ,,Já, í dag erum við með 6 deildir, handbolta, fótbolta, blak, bandý, borðtennis og dans og að auki rekum við öflugan hlaupahóp, sem og íþróttaskóla. Iðkendurnir eru yfir 2500, flestir í fótboltanum en allar deildirnar halda úti öflugu starfi, t.d. hafa dansarar á vegum HK unnið marga titla, bæði hér og erlendis. Þá má geta þess að handboltadeildin okkar, sem telur um 700 iðkendur, er sú stærsta á landinu og er í vandræðum með æfingatíma. Þá er Blakdeild HK langstærsta og elsta blakdeild landsins og er einnig í vandræðum með æfingatíma eins og handboltinn. Meistaraflokkar blakdeildar HK hafa líka unnið fjöldan allan af titlum bæði Íslands-, bikar- og deildarmeistarar ásamt því að vinna meistarar meistaranna í nokkur skipti.”
HK tryggði sér titilinn, meistarar meistaranna í blaki kvenna í upphafi tímabils
Og hvernig er staðan á þessum deildum, fer iðkendum fjölgandi með árunum eða stendur í stað? ,,Iðkendafjöldinn hefur sveiflast miðað við íbúaþróun í hverfinu. Við sjáum t.d. að sum hverfi eru að “eldast”, þ.e. börnin eru komin á þann aldur að þau eru hætt að æfa skipulega með HK en fjölskyldan býr enn í hverfinu. Einnig eru enn leifar af gömlu hverfisskiptingunni í iðkendaskiptingu milli liðanna í Kópavogi sem tekur tíma að breytast. Við teljum þó alltaf tækifæri til að fjölga iðkendum en við rekum íþróttaskóla á sunnudögum þar sem við kynnum starfsemi HK fyrir unga iðkendur okkar á aldrinum 1-4.”
En hverju breytti það fyrir HK þegar öll aðstaða félagsins fluttist upp í Kór og Versali og Breiðablik tók yfir Fagralund? ,,Það skipti miklu máli fyrir félagið, árið 2013 þegar hverfisskiptingin var gerð, að fá þessa glæsilegu aðstöðu sem Kórinn er sem og að fá Versali og Versalavellina, en samkvæmt hverfisskiptingunni þá eru Versalir og Salaskóli hluti af „HK hverfinu“. Salavöllur er nýttur af knattspyrnudeild HK á sumrin fyrir æfingar, mótsleiki og gaman að segja frá því að haldið var flott mót fyrir yngstu iðkendur í 8. flokki þar í sumar. Starfsemi okkar er þó á fleiri stöðum en í Kórnum og Versölum, svo sem Digranesi og Fagralundi, Kársnesskóla og Linda- skóla. Knatthúsið gerir okkur kleift að halda úti æfingum í hvaða veðri sem er, svo erum við með tvöfaldan handboltasal sem eykur gæði æfinga, að auki er þar einnig góð aðstaða fyrir áhorfendur.”
Þú hefur aðeins minnst á aðstöðumál félagsins, er HK í góðum málum hvað það varðar? ,,Aðstaðan sem við höfum er góð, en engu að síður þurfum við að gæta vel að því að viðhald og þróun aðstöðunnar sé í samræmi við framþróun, nýtingu og stækkun félagsins. Því verður t.d. að horfa til þess að álagið á gervigrasinu í Kórnum er gríðarlegt og því mikilvægt að fylgjast vel með ástandi þess og viðhaldi. T.a.m. þá er ekki vökvunarkerfi í Kórnum og því er grasið ennþá vökvað einungis fyrir keppnisleiki af traktor sem keyrir inn í Kórinn og vökvar þannig grasið. Nú hefur einnig verið stofnaður gagnfræðiskóli sem starfræktur er í Kórnum, Kóraskóli, og eykur það notagildi en jafnframt álag á Kórnum. Þá er einnig misjöfn aðstaða milli deilda. Þar má t.d. nefna að dansdeildin okkar getur ekki æft allar tegundir dansa þar sem húsnæðið er ekki hentugt en vonir standa til að úr því verði bætt.”
Lúxusvandamál ef við sprengjum utan af okkur aðstöðuna
Svo á að fara að úhluta íbúðalóðum í Vatnsendahvarfi í vor og uppbygging fer að hefjast þar. Deiliskipulagið gerir ráð fyrir 500 íbúðum í hverfinu. Hvaða áhrif mun þetta hafa HK og eruð þið farin að undirbúa ykkur undir þessa fjölgun? ,,Við lítum mjög jákvæðum augum á þessa uppbyggingu í hverfinu okkar og hlökkum til að taka á móti iðkendum. Við teljum okkur hafa bolmagn til að taka móti fleiri iðkendum en tíminn verður að leiða í ljós hvernig aldursdreifingin verður hér í hverfinu öllu þegar þetta tiltekna hverfi verður klárt. Ætli við munum ekki líta á það sem lúxusvandamál ef við sprengjum utan af okkur aðstöðuna.”
Finnum vel fyrir auknum kröfum
Samfélagið hefur breyst mikið á undanförnum árum, t.d. meiri kröfur um betri aðstöðu, menntaða þjálfara sem kosta félögin meira og fleira. Hverjar eru helstu áskoranir í starfi HK til lengri tíma? ,,Við finnum vel fyrir því að miklar kröfur eru gerðar til okkar sem íþróttafélags, bæði af foreldrum og iðkendum. Við bregðumst við því með að hugsa vel um aðstöðuna okkar og ráða til okkar samkeppnishæfa þjálfara. Við lítum ekki bara á okkur sem íþróttafélag heldur líka æskulýðsstarfsemi. Kórinn er t.d. alltaf opinn fyrir okkar iðkendum sé húsið ekki í fullri notkun. En helstu áskoranir okkar, og ég tel allra íþróttafélaga, er að reka meistaraflokka í öllum deildum. Barna- og unglingastarfið okkar er að mestu leyti haldið uppi af æfingagjöldum. Slíkt á ekki við um meistaraflokkanna þar sem við þurfum að reiða okkur á styrki og öfluga samstarfsaðila. Slíkt getur verið þungt í rekstri en að sama skapi verður að hafa í huga að meistaraflokkarnir okkar skila miklu til félagsins, bæði í formi fyrirmynda fyrir unga iðkendur og leikmenn sem og aukinni stemmningu í hverfinu! Einnig viljum við auðvitað að meistaraflokkar okkar séu samsettir að mestu leyti af uppöldum HK-ingum.”
Sjálfboðaliðar eru í raun lífæð allra íþróttafélaga
Og gegna sjálfboðaliðar enn mikilvægu hlutverki í starfi HK og gengi þetta aldrei upp án þeirra? ,,Íþróttafélög almennt væru ekki burðug ef ekki nyti við allir þessir öflugu sjálfboðaliðar. Hér má nefna að allar stjórnir og ráð HK eru mönnuð af sjálfboðaliðum. Þetta er ekki lítið og kostnaður við að halda úti rekstri íþrótta- félaga án allra þessa sjálfboðaliða yrði sennilega ansi hár, ef varla gerlegt. Þá eru ótaldir þeir sjálfboðaliðar sem koma að rekstri móta og sinna almennt öðrum störfum fyrir HK. Sjálfboðaliðar eru í raun lífæð allra íþróttafélaga. Það er alltaf þörf fyrir fleiri öfluga sjálfboðaliða og vil ég hvetja fólk til að bjóða sig fram núna á komandi aðalfundum deildanna eða hafa samband við deildirnar því hægt er að vera öflugur sjálfboðaliði án þess sitja í stjórn deildar sé ekki vilji fyrir því.”
Ánægð með þann stuðning sem Kópavogsbær sýnir íþróttafélögunum í bænum
En hversu mikilvægt er það fyrir sveitarfélög að hafa öflugt íþróttastarf og finnið þið fyrir góðum stuðningi frá bæjaryfirvöldum í Kópavogi bæði hvað aðstöðumál varðar og fjárhagsstuðning? ,,Eins og ég kom að hér áðan þá hefur þessi meirihluti bæjarstjórnar gefið það út að Kópavogur sé og ætli að vera áfram leiðandi í íþrótta- og æskulýðsmálum. Við finnum vel fyrir því og erum ánægð með þann stuðning sem Kópavogsbær sýnir almennt íþróttafélögunum hér í bænum.”
HK hefur gríðarleg tækifæri sem félag
En hvert stefnir HK á komandi árum – hvernig félag viljið þið vera? ,,HK hefur gríðarleg tækifæri sem félag, með mikinn iðkendafjölda, góða aðstöðu og öfluga þjálfara. Svo stefna HK er klárlega að vera í fremstu röð íþróttafélaga á landinu þegar kemur að þeim íþróttum sem stundaðar eru innan HK. Við erum komin á þann stað að geta sótt þangað. Við viljum vera þannig félag að okkar iðkendur finni fyrir okkar gildum – Gleði, virðing og metnaður.”
Afreksstarfið er gríðarlega mikilvægt og miklar væntingar eru gerðar til iðkenda
Og hvað með afreksstarfið, hvar standið þið þar og stefnið þið á að gera HK eitt af stóru félögunum í landinu þegar kemur að árangri? ,,Afreksstarfið er gríðarlega mikilvægt og miklar væntingar eru gerðar til okkar iðkenda. Auðvitað stefnum við að því að gera HK eitt af stóru félögunum í landinu. Við þurfum og eigum að hugsa stórt fyrir okkar félag, iðkendur og félagsmenn. Eins og ég kom inn á áðan þá horfum við til þess að í framtíðinni verði meistaraflokkar okkar samsettir að mestu leyti af uppöldum HK-ingum. Þá skiptir líka miklu máli fyrir félagið að við séum ávallt í efstu deild. Því fylgir auðvitað meira fjármagn, það eykur aðsókn á okkar heimaleiki og síðast, en ekki síst, þá hefur það góð og hvetjandi áhrif á okkar yngri iðkendur.”
HK er besta lið í heimi
Og svona að lokum, þú tókst við formennsku í september í fyrra og varst þar áður varaformaður félagsins. Hvað er það sem dró þig inn í þetta, af hverju er þú tilbúin að fórna tíma þínum fyrir félagið? ,,Ég kom í þetta starf auðvitað sem foreldri. Sonur minn fór á sínar fyrstu æfingar haustið 2014, bað um HK galla eftir fyrstu æfingu og eftir aðra æfingu kom hann heim og sagði að HK væri besta lið í heimi, Ómar Ingi (nú þjálfari meistaraflokks karla í fótbolta) hefði sagt það. Þar með var tóninn sleginn og hjartað mitt slær fyrir HK þó ég verði nú alltaf Keflvíkingur,” segir hún brosandi og heldur áfram: ,,Við fjölskyldan fundum það eftir að við fluttum í hverfið 2014 að HK og Kórinn voru hjartað í hverfinu og því var auðvelt að ganga þar inn sem sjálfboðaliði þó að vinnan geti verið mikil og ströng á köflum. En það er allt þess virði. Svona starfsemi skiptir miklu, sérstaklega fyrir svona nýtt hverfi sem Vatnsendinn er, en fæstir sem búa hér eru uppaldir HK-ingar en HK hefur engu að síðar sameinað fólk hér í hverfinu. Þó hverfi HK sé ungt á ýmsa mælikvarða þá býr gríðarlegur kraftur í íbúum þess og endurspeglast í öflugu starfi í HK,” segir formaður HK að lokum.