Íþróttakona Kópavogs árið 2023 er Thelma Aðalsteinsdóttir fimleikakona úr Gerplu, en hún var útnefnd á Íþróttahátíð Kópavogs sl. fimmtudag í Salnum.
Thelma átti sitt besta keppnisár frá upphafi 2023. Hún varð Íslandsmeistari í fjölþraut kvenna og bikarmeistari með liði sínu Gerplu. Thelma varð Norðurevrópumeist- ari á tvíslá auk þess að vinna sér inn keppnisrétt á Heimsmeistaramótinu. Á HM gerði hún sér lítið fyrir og náði sínum hæðstu stigum í fjölþraut á alþjóðlegu móti og var eingöngu 0,8 stigum frá því að vinna sér inn sæti á Ólympíuleikunum. Thelma stefnir ótrauð á að vinna sér inn sæti á leikunum í París 2024. Á heims-bikarmóti í Szombathely í Ungverjalandi gerði Thelma sér lítið fyrir og komst í úrslit á stökki og var fyrsti varamaður inn í úrslit á jafnvægisslá. Í úrslitunum á stökki hafnaði Thelma í 7. sæti. Í lok árs var Thelma valin fimleikakona ársins hjá Fimleika- sambandi Íslands.
Thelma, sem er 23 ára, hefur einu sinni áður verið tilnefnd sem íþróttakona Kópavogs, en það var árið 2022 svo hún segist sannarlega vera afsakplega stolt af því að vera útnefnd fyrir árið 2023.
Og þetta var risastórt ár hjá þér, vannst til fjölda verðlauna og náðir frábærum árangri. Má segja að þetta hafi verið þitt besta keppnisár og hvað stóð upp úr hjá þér á árinu? ,,Þetta var klárlega besta keppnisárið mitt hingað til. Ég mundi segja að HM stæði upp úr og að verða Norður-Evrópumeistari á tvíslá,” segir Thelma.
Þú varðst Norður-Evrópumeistari á tvíslá eins og þú nefnir, en þú sagðir í viðtali eftir mótið að það hefði í raun komið þér á óvart að þú hafir átt möguleika á að vinna? ,,Já, ég meiddist á föstudagsæfingunni fyrir mótið í ökklanum og það leit ekki vel út. Ég átti að keppa á laugardagsmorgni og þegar ég vaknaði gat ég varla stigið í fótinn. Það var bara vont að tilla tánni í gólfið svo að ég átti ekki von á miklu fyrir þennan keppnisdag og vissi ekki einu sinni hvort að ég gæti keppt. Þegar við komum í höllina teipuðum við ökklann vel, ég tók verkjatöflur og þá náði ég allavega að ganga og hlaupa áfram. Ég prófaði svo áhöldin í upphitun-inni og þar gat ég gert eitthvað, en við þurftum að breyta æfingum á stökki, slá og gólfi þannig að ég gat ekki keppt með mitt besta stökk, ekki með mína bestu slá og þar með var ég með léttara gólf líka.Í lok dags var ég mjög ánægð með sjálfamig, að hafa gert öll áhöld þrátt fyrir mistök hér og þar. Ég var bara sjúklega ánægð að hafa geta keppt, það var svo gaman,” segir hún og brosir og heldur áfram: ,,Í lok dags, þegar öll löndin voru búin að keppa, þá sáum við að ég var þriðja inn í úrslitin á tvíslá og þau voru daginn eftir. Við tókum svo sömu rútínuna næsta morgun og teipuðum ökklann, ég fór upp á tvíslána og sýndi mínar æfingar. Ég var bara mjög ánægð enn og aftur fyrir að geta gert æfingarnar þrátt fyrir þessi leiðinlegu meiðsli. Mér var svo tilkynnt að ég væri efst og það kom mér mjög á óvart, en á sama tíma var ég eðlilega mjög ánægð,” segir Thelma.
Tvöfalt streit afstökk af tvíslá
Og þú framkvæmdir eitthvað rosalega erfitt og krefjandi stökk á tvíslánni á mótinu? ,,Ég var búin að vera æfa tvöfalt streit í afstökk af tvíslá. Við ákváðum að prófa það á þessu móti og það gekk mjög vel. Lenti bæði á laugardeginum og sunnudeginum. Það hjálpaði klárlega til með að vinna vegna þess að það hækkar erfið- leikann á æfingunni um 0.2.”
En ekki hristir þú svona heljarstökk fram úr erminni bara á mótinu þegar þú veist hvað þú þarft að hækka erfiðleika- stigið til að sigra – þetta hlýtur að vera nokkuð vel æft eða hvað? ,,Nei alls ekki. Við vorum búin að æfa þetta fyrir mótið og ég gerði þetta líka í undankeppninni. En ég hafði ekki hugmynd um að ég gæti unnið þetta svo ég var bara að gera mína æfingu, sem ég var búin að vera að æfa síðustu vikur.”
Ég fékk ekkert að velja
En hvernig byrjaði þetta allt saman, hvenær fórstu að æfa fimleika og af hverju urðu þeir fyrir valinu? ,,Ég byrjaði að æfa fimleika þegar ég var 4 ára. Ég fékk ekkert að velja,” segir hún hlæjandi. ,,Ég var því sett í fimleika og mér fannst það bara gaman og hef ekki hætt síðan. Ég hef aldrei prófað aðrar íþróttir. En pabbi hafði verið í fimleikum þegar hann var yngri og mamma aðeins líka svo þar kom tengingin við fimleikana.”
Íþróttakona Kópavogs 2023! Thelma Aðalsteinsdóttir, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Sverrir Kári Karlsson, formaður íþróttaráðs Kópavogs.
í tæpa sjö klukkutíma á dag
Fimleikar eru rosalega krefjandi íþrótt bæði líkamlega og tæknilega og það þarf mikinn styrk. Það hlýtur að fara mikill tími í æfingar og hvernig æfir maður fimleika? ,,Ég æfi tvisvar á dag, oftast tvær klukkustundir um morguninn og svo fjóra og hálfa klukkustund seinni part dags og því fylgir aukalega sjúkraþjálfun og endurheimtsæfingar heima. Ég geri styrktaræfingar og sjúkraþjálfunaræfingar fyrir veikleika mína t.d. bak og ökkla og síðan á seinni æfingunni eru öll áhöldin og styrktaræfingar/þrek. Þær eru ekki beint fjöl-breyttar, fimleikar eru eiginlega endurtekningar á sömu æfingunum aftur og aftur til að gera þær fullkomnari og fullkomnari.”
En svo er hægt að hafa styrkinn og tæknina upp á tíu, en andlegi þátturinn hlýtur líka að koma sterkt inn, er það ekki? ,,Jú, það reynir mjög mikið á andlegu hliðina og mikilvægt að vera sterkur í hausnum. Halda haus á mótum sérstaklega svo að maður sé ekki að missa sig úr stressi.”
Óttast alveg hluti
Verður maður ekki að vera algjörlega óttalaus í áhaldafimleikum, í öllum þessum stökkum og snúningum þar sem lítið þarf út af að bregða til að klúðra málum? ,,Ég hef alveg ótta við eitthvað og það er allt í lagi – við vinnum bara að því og erum að vinna í kringum það. En það er mikill kostur að þora að gera hluti ef maður ætlar að ná langt í fimleikum.
Tvísláin í uppáhaldi
En þetta eru nokkrar greinar í áhalda- fimleikum, er einhver grein hjá þér í uppáhaldi, sem þú einbeitir þér helst að? ,,Stökk, tvíslá, slá og gólf. En tvíslá er í uppáhaldi hjá mér. Ég get eiginlega ekki einbeitt mér eingöngu að einu áhaldi því ég keppi á öllum, þannig að ég æfi öll áhöldin jafnt,” segir hún.
Liggur á gaddadýnu í einn klukkutíma á dag
En svona aðeins að Thelmu sjálfri, ertu í einhverju námi/vinnu með fimleikun- um og hvernig er svona týpískur dagur hjá þér? ,,Ég er í Lyfjafræði í Háskóla Íslands á öðru ári. Með því er ég að vinna eina helgi í mánuði í sundlauginni í Salalaug,” segir hún og heldur áfram: ,,Týpískur dagur hjá mér er að vakna og fá mér morg- unmat, fara á morgunæfingu. Eftir hana fæ ég mér eitthvað smá að borða og svo fer ég oftast til sjúkraþjálfara tvisvar í viku, oftast í kringum hádegisbil. Eftir það fer ég heim og leggst á gaddadýnu í klukkustund fyrir bakið á mér. Á meðan ég ligg á dýnunni er ég að læra eða eitthvað í tölvunni til að nýta tímann. Svo fæ ég mér hádegismat og slaka aðeins á fyrir seinni æfinguna. Stundum tek ég mér ,,power-nap” í 15 mín fyrir seinni æfinguna. Svo fer ég á seinni æfinguna, síðan í sundlaugina eða heim í heita pottinn, svo borða ég og fer síðan að sofa. Reyni oftast að fara sofa fyrir kl. 11.”
Hvað með önnur áhugamál, getur þú eitthvað ræktað þau eða eiga fimleikarnir allan þinn hug? ,,Ég hef mjög gaman að fara í fjallgöngur og á hestbak eða skíði, en ég er ekki mikið að gera það á keppnistímabilinu því ég gæti meiðst. Ég næ þó stundum að fara í fjallgöngur um helgar með fjölskyldunni.”
Klárar í það minnsta eitt ár í viðbót Þú ert 23 ára gömul, hversu lengi stefnir þú á að vera í áhaldafimleikum og ertu eitthvað farin að horfa á að fara í hópfimleikana? ,,Ég stefni á að klára allavega þetta ár svo veit ég ekki hvað ég geri. En það er spurning hvort ég eigi að reyna halda mér í þessu til 2028 og stefna að ÓL28 í LA en við sjáum til hvernig það fer.”
Dílar við aðstæðurnar á hverjum tíma fyrir sig
En þetta var stórt ár hjá þér, hvernig verður svo árið 2024, margt framundan og stefnir þú enn hærra á þessu ári? ,,Það sem er framundan er Bikarmót, Íslandsmót, Norðurlandamót, Heimsbikarmót og Evrópumót. Svo sjáum við bara til hvernig þetta ár fer. Ég get eiginlega ekki sagt um það þar sem ég er oftast með hugafarið “go with the flow” og ég meira svona díla við það þegar ég er í aðstæðunum. Svo árið fer bara eins og það fer,” segir íþróttakona Kópavogs að lokum.
Forsíðumynd: Thelma með fjölskyldunni á hátíðinni. F.v. Fjóla Valdís Árnadóttir (mamma), Thelma, Aðalsteinn Finnbogason (pabbi) og Freyja Aðalsteinsdóttir (systir).