Félagið er á mjög spennandi stað og hefur alla burði til að skapa sér stóran sess sem eitt afstærstu íþróttafélögum landsins, hvar sem á er litið

Í lok febrúar sl. tók Arnór Ásgeirsson við starfi íþrótta- og markaðsstjóra HK, en Arnór hefur undanfarin ár starfað fyrir Fjölni auk þess sem hann kenndi og stýrði afreksíþróttasviði við Borgarholtsskóla. Arnór hefur m.a. lokið námi í íþróttastjórnun (Sports Management) við Molde University College í Molde í Noregi.

Íþróttir hafa alla tíð verið stór hluti af lífi mínu

Kópavogspósturinn heyrði í Arnór og byrjaði á því að spyrja hann, hver maðurinn væri og hvernig það hafi kmið til að hann ákvað að taka við starfi sem íþrótta- og markaðsstjóri HK? ,,Ég er 34 ára fjölskyldufaðir, giftur dásamlegri konu og á einn tveggja ára strák. Fyrir utan fjölskylduna þá eyði ég mestum tíma mínum í íþróttir og hreyfingu og hef mikinn áhuga á heilsu og vellíðan. Þessa stundina legg ég kapp á þríþraut. Ég hef ætíð sett mér markmið og finnst það mikilvægt hvort sem er í leik eða starfi. Bakgrunnur minn er úr handbolta í Grafarvogi og í framhaldi tók við þjálfun sem spannar hátt í 15 ár, þar af 3 ár í Noregi. Að auki hef ég tekið að mér styrktarþjálfun einstaklinga og liða. Fyrir utan störf mín í Fjölni hef ég einnig verið við kennslu og stýrt afreks- íþróttasviði Borgarholtsskóla. Ég kláraði íþróttafræði frá HR og var m.a. í bekk með þekktum HK-ingum, þeim Ómari, Kalla, Stebba og Hönnu Báru. Að því námi loknu fór ég svo í framhaldsnám í íþróttastjórnun í Molde í Noregi. Eftir námið sinnti ég stöðu íþróttastjóra hjá handboltaliðinu Fjellhammer. Íþróttir hafa alla tíð verið stór hluti af lífi mínu og því finnst mér algjör forréttindi að fá að starfa innan íþróttahreyfingarinnar og sinna áhugamálinu á sama tíma.”

Þú kemur frá Fjölni eins og þú nefnir, verður ekkert erfitt að vinna fyrir HK spyr blaðamaður í léttum tóni? ,,Ég myndi ekki segja að það verði erfitt en auðvitað er alltaf breyting að fara frá uppeldisfélaginu sínu sem hefur verið stór hluti af lífi mínu. Ég tel mig búa yfir mikilli aðlögunarhæfni og horfi því spenntur og bjartsýnn á komandi tíma í vaxandi og flottu félagi sem HK er. Ég hlakka mikið til að efla #liðfólksins og sjá til þess að HK verði á toppnum hvar sem á er litið.”

Starfið er fjölbreytt og fer um víðan völl

En hverju felst starfið í raun sem þú ert að taka við, í hvaða hlutverki verður Arnór hjá HK? ,,Starfið er svo sannarlega fjölbreytt og fer um víðan völl en fyrst og fremst mun ég ramma inn íþróttaleg málefni félagsins s.s. stefnur þjálfunar, fræðslumál, faglegt starf og viðburði félagsins, ásamt því að efla miðlana og ýta undir aukna félagsvitund iðkenda, aðstandenda og starfsfólks. HK hefur alla burði til að verða enn öflugra vörumerki og staður sem fólkið í hverfinu þyrstir í að sækja og styðja við.”

Vöxtur og þróun á fullri ferð

HK er ungt og spennandi félag sem er stöðugri þróun – þannig að það eru líklega mörg tækifæri til að gera enn betur í starfinu og það er sjálfsagt í stöðugri stefnumótun? ,,Félagið er á spennandi stað í dag þar sem vöxtur og þróun eru á fullri ferð og áframhaldandi vinna við að styrkja HK-hjartað, sérstaklega eftir að félagið færði stærstan hluta starfsemi sinnar yfir í Kórinn. Það er alltaf áskorun að byggja upp félagsvitund og stækka HK-hjartað og sú vinna heldur áfram. Næstu skref er að fara í markvissa stefnumótun á innra starfi félagsins og starfsemi þess í heild sinni.”

Mikilvægt að heyra í fólkinu okkar og fá mörgulegar nýjar hugmyndir og nálganir á núverandi starf

Félagið virðist í það minnsta að vera gera vel þar sem nýleg viðhorfskönnun, sem félagið gerði á meðal foreldra og iðkenda, sýnir góða niðurstöðu – það hljóta að vera ánægjuleg tíðindi? ,,Já, að sjálfsögðu leggjum við upp úr því að fá sem bestu niðurstöður en fyrst og fremst er mikilvægt að heyra í fólkinu okkar og fá mögulega nýjar hugmyndir og nálganir á núverandi starf. Það skiptir miklu máli að félagsmenn hafi einhvern stað til að láta í ljós skoðun sína og viðhorfskannanir eru gott dæmi um slíkt.”

Stærsta áskorun HK í dag er að eflja HK-hjartað

En hver er helsta áskorunin fyrir félag eins og HK og kom fram í könnuninni hvað félagið mætti helst bæta? ,,Ég myndi segja að stærsta áskorun HK í dag eru að efla HK-hjartað, sérstaklega í Kórnum. Einnig þarf að vinna vel að tengingu milli hverfa enda nær starfsemi félagsins yfir stórt svæði. Samtalið við félagsmenn er alltaf mikilvægt og það er nauðsynlegt að finna því samtali góðan stað. Rekstur meistaraflokkanna er alltaf snúinn og harður og við viljum leggja enn meiri vinnu og áherslu á gott samstarf við samstarfs- og styrktaraðilana okkar. Eins og kom fram í viðtalinu við formann félagsins þá er mikil og stór uppbygging væntanleg á svæðinu og það þarf að undirbúa félagið vel undir þá fjölgun.”

Reynum að höfða til ákalls hverfisins

Það eru sex deildir starfandi í HK og þið eruð m.a. með bandý, borðtennis, dans og blak. Það eru ekki mörg íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu sem bjóða upp á þessar greinar í starfinu sínu – hvernig ganga þær og hefur komið til greina að fjölga deildum í félaginu? ,,Starfið er á flestum stöðum blómlegt og grasrótin er á góðum stað. Við reynum að höfða til ákalls hverfisins með því að bjóða upp á fjölbreytt íþróttastarf. Fjölgun deilda er umræða sem er alltaf til staðar og það þarf að meta markaðinn og vinna heimavinnuna vel ef fjölga skal deildum.”

Yfir 1000 iðkendur á Ákamótinu í handknattleik

Síðastliðna helgi fór fram fjölmennt handboltamót, nefnt Ákamótið. Hvernig tókst til við framkvæmdina? ,,Ákamót HK fór fram helgina 2. – 3. mars fyrir stelpur og stráka í 7. flokki. Þetta er eitt stærsta mót sem haldið er í þessum aldursflokki þar sem hátt í 1000 iðkendur landsins koma saman og spila undir minniboltareglum. Mótið var afar vel heppnað í ár og var margt fólk sem átti leið í Kórinn þessa helgi. Mótið rúllaði vel án tafa og vandræða þökk sé góðum sjálfboðaliðum innan raða HK. Spilað var á sex völlum samtímis, vellirnir báru nöfn styrktaraðila mótsins og þökkum við þeim kærlega fyrir stuðninginn. Allir fengu verðlaunapening merktan Ákamóti HK að móti loknu.”

Framundan er að kynnast fólkinu í félaginu og skapa traust okkar á milli

Og hvað er svo framundan hjá HK og Arnóri? ,,Framundan hjá mér er að kynnast fólkinu í félaginu og skapa traust okkar á milli. Ég er gríðarlega metnaðarfullur og spenntur fyrir komandi verkefnum en geri mér á sama tíma grein fyrir því að 2024 mun að stóru leyti fara í að kortleggja hvert við viljum fara með félagið og vinna að framtíðarsýn HK. Félagið er á mjög spennandi stað og hefur alla burði til að skapa sér stóran sess sem eitt af stærstu íþróttafélögum landsins, hvar sem á er litið,” segir Arnór að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar