Vil getað brosað og hlegið af lífinu til að koma mér í gott skap

Garðbæingurinn okkar 2023 er Páll Ásgrímur Jónsson, eða Páló eins og hann er alltaf kallaður. Páll fékk fjölmargar tilnefningar frá bæjarbúum Garðabæjar og dómnefnd útnefndi hann í Sveinatungu sl. föstudag.

Garðapósturinn heyrði í Garðbæingnum okkar.

Fullt af yndislegu fólki í bænum

Palli, þú ert í raun að skrifa sögu Garðabæjar því þú ert sá fyrsti sem er útnefndur ,,Garðbæingurinn okkar“. Ertu ekki bara nokkuð stoltur af því? ,,Ég er gífurlega stoltur og þakklátur fyrir að hafa verið útnefndur Garðbæingurinn okkar þar sem það er fullt af yndislegu fólki í bænum sem er að gera góða hluti á sínum sviðum og á stórt hrós og heiður skilinn fyrir það sem þau eru að gera. Heiðurinn er virkilega mikill og ég vil þakka fólki sem kaus mig,” segir Páló.

En hver er Palli eða Páló eins og þú ert kallaður? ,,Ég er fæddur 5.mars 1981 og byrjaði í Hofsstaðaskóla (þar sem Vídalínskirkja er núna) áður en ég fór í Flataskóla, Garðaskóla. Eftir Garðaskóla tók við eitt ár í MK og eftir það var ég um tíma í FG og FÁ. Ég æfði fótbolta og handbolta í yngri flokkum Stjörnunnar en hætti áður en kom að meistaraflokki. Ég hef búið alla mína tíð í Garðabæ þar sem mér hefur liðið vel. Ég hóf störf hjá Icewear sl. mánudag, var þar áður að vinna á Gylfaflöt sem er dagheimili fyrir fötluð ungmenni og hjá Reykjavíkurborg á velferðarsviði.”

Myndin er tekin eftir tónleika þar sem bróðir Páló söng. Jón, faðir Páló tók myndina af móðir hans og barnahópnum hennar.

Ég lít á lífið sem keðju þar sem við eigum öll að reyna að hjálpa öllum að líða sem best

Það segir í umsögninni að þú sért alltaf jákvæður, mikill gleðigjafi og með gott hjartalag. Þú nefndir það við mig þegar að þú ferð alltaf yfir þessa hluti þegar þú vaknar á morgnana. ,,Það er mér gífurlega mikilvægt að huga að andlegri heilsu þar sem ég á mun auðveldara með að sýna öðru fólki góðu hliðarnar þegar mér líður vel og ég nota margar aðferðir til þess. Ég hlusta m.a. á ,,podcöst” og ýmiskonar tónlist til að koma mér í gang þegar ég er ekki uppá mitt besta. Jákastið lætur mér alltaf líða vel þar sem ég hlusta á sögur einstaklinga úr ólíkum áttum og hvað er í gangi í þeirra lífi. Það er fullt af fólki sem hefur haft jákvæð áhrif á mig og ég er afar þakklátur því fólki. Ef ég næ að hafa jákvæð áhrif á samfélagið og fólkið sem ég umgengst þá lít ég á það sem stóran persónulegan sigur. Ég lít á lífið sem keðju þar sem við eigum öll að reyna að hjálpa öllum að líða sem best og vera stolt af okkur sjálfum. Jákvæðni snýst ekki endilega um fullkomnun heldur að vera stoltur af sjálfum sér og gera gott úr því sem maður hefur. Ég tek daglega inn kvíða og þunglyndistöflur sem ég hef tekið síðan 2020 og hjálpa töflurnar við að halda mér í jafnvægi.”

Og finnst þér aðrir koma vel fram við þig ef þú kemur vel fram við það? ,,Ég upplifi góða hluti langoftast og jákvæðni frá samfélaginu í minn garð. Vissulega er ég alls ekki fullkominn en ég vil reyna mitt allra besta til að gera gott úr því sem ég hef. Ég heilsa fólki mikið með faðmlagi og ég lít á það sem væntumhyggju og velvild í garð næstu manneskju. Það mikilvægasta er að njóta þess sem fólk gerir ekki hvað það gerir.”

Og þú notar samfélagsmiðlana á skemmtilegan hátt til að gleðja fólk, hvað ertu að gera þar? ,,Ég nota samfélagsmiðla til að segja frá mínu lífi, það sem ég er að díla við dags daglega, ég nota samfélagsmiðla líka til að hvetja sjálfan mig til góðra hluta, til að sjá spaugilegu hliðar lífsins og hika ekki við að gera grín að sjálfum mér þegar ég tel það eiga við. Vil getað brosað og hlegið að lífinu til að koma mér í gott skap. Ef það tekst að hafa jákvæð og skemmtileg áhrif á annað fólk í leiðinni þá er það frábært. Ef ég geng síðan of langt í mínum samskipt-um þá er ég tilbúinn að leysa úr málunum og biðjast afsökunar.”

Með Stjörnustákunum í körfunni þegar Páló varð fertugur

Stjarnan hefur gefið mér rosalega mikið

Heyrðu, svo ertu líka mikill Stjörnumaður og er tíður gestur á leikjum félagsins. Reynir þú að fara á eins marga leiki og þú getur hjá Stjörnunni? ,,Stjarnan hefur gefið mér rosalega mikið. Ég mæti á leiki til að styðja félagið, sýna mig og sjá annað fólk. Ég hef kynnst mörgu frábæru fólki í tengslum við félagið og hefur myndast góður félagsskapur út frá því. Ég reyni að fara á sem allra flesta leiki í fótboltanum og reyni líka að mæta sem oftast á leiki í körfuboltanum og handboltanum. Systursonur minn er í meistaraflokki Stjörnunnar í handboltanum og ég fyllist miklu stolti gagnvart honum. Þótt ég mæti oftast á fótboltaleiki þá er ég tilbúinn að sýna stuðning minn gagnvart öllum íþróttum innan félagsins.”

Og svo ert þú sjálfur að hreyfa þig með hlaupahópi Stjörnunnar? ,,Ég hef verið meðlimur í Hlaupahópi Stjörnunnar síðan 2020 og er það félagsskapur sem hefur reynst mér afar vel. Þegar ég byrjaði þá var mér afar vel tekið og þegar nýtt fólk hefur komið inn hef ég verið tilbúinn að gera það sem ég get til að láta nýliðum líða vel sem hluti af hópnum eins og ég upplifað svo sterkt. Það er misjafnt hversu mörg mæta hverju sinni en kjarninn er samheldinn og styðjum við hvert annað til góðra hluta. Ég hef sjálfur oftast tekið 2-3 hlaup í viku og er misjafnt hverju sinni hversu langt er hlaupið.”

Páló með Sigurði Guðmundssyni, formanni Stjörnunnar, þegar hann var útnefndur Garðbæingurinn okkar sl. föstudag

Ef ég næ að hafa jákvæð áhrif á Almar þá er það yndislegt

Ég veit að bæjarstjórinn í Garðabæ, Almar Guðmundsson, er einnig með í hlaupahópnum með þér og mér skilst að þú leyfir honum yfirleitt að vinna þig? ,,Við hvetjum hvorn annan til góðra hluta, en ég get ekki sagt að ég líti á hlaupin sem keppni. Ef ég næ að hafa jákvæð áhrif á Almar hvort sem er í hlaupum eða á öðrum sviðum þá er það yndislegt,” segir hann brosandi.

Og svo vildi það svo til að það þurfti að fresta hátíðinni, Garðbæingurinn okkar, um eina viku þar sem þú varst staddur erlendis að fylgjast með íslenska landsliðinu í handbolta. Var það ekki mögnuð stemmning og hefur þú farið töluvert erlendis að fylgjast með íþróttaviðburðum? ,,Að fara á stórmót er virkilega skemmtilegt. Þetta var í þriðja skiptið sem ég fór til útlanda á stórmót í handbolta, fór 2010 þegar Ísland spilaði í Linz Austurríki og svo 2019 á HM þegar Ísland spilaði í Munchen í riðlakeppninni eins og núna á EM. Í tvö fyrri skiptin fór ég einn út þar sem yngri bróðir minn býr í Salzburg, Austurríki og ég var hjá honum í toppmálum og fór þaðan á leikina í góðum félagsskap. Ég fór á fyrsta leik Íslands á EM2016 í fótbolta karla og var það frábær upplifun. Ég hef einu sinni farið erlendis að sjá Stjörnuna í útileik í Evrópukeppni (Inter 2014) og er stefnan að fara oftar á næstu árum.”

Paló ásamt Andrési Magnússyni á San Siro þegar Stjarnan spilaði gegn Inter Milan í Evrópukeppninni árið 2016

Anfield og Liverpool-borg mitt annað heimili

Og svo ertu gallharður stuðningsmaður Liverpool. Ertu sáttur með stöðu liðsins í dag og af hverju byrjaðir þú að halda með Liverpool? ,,Ég ætla að njóta þess að sjá liðið í toppbaráttu, margt sem getur breyst en er á meðan það er,” segir hann og bætir við: ,,Ég fékk Liverpool-búning þegar ég var lítill og hef farið á nærri 20 sinnum á Liverpoolleiki. Mér líður alltaf eins og Anfield og Liverpool-borg sé mitt annað heimili.”

Mér þykir virkilega gott að ganga í kringum Vífilsstaðavatn til að næra líkama og sál

Hlustar á vindinn og náttúruna

Hvað með önnur áhugamál, eru íþróttirnar sem eiga hug þinn allan eða áttu önnur áhugamál sem þú stundar? ,,Ég fer mikið á tónleika og aðra menningarviðburði. Yngri bróðir minn er óperusöngvari og ég hef kynnst fullt af yndislegu fólki í gegnum hann. Þá daga sem ég hleyp ekki tek ég göngutúra. Oftast er það um Garðabæinn, ég er aldrei með neitt í eyrunum því ég vil hlusta á vindinn og náttúruna. Ef ég hitti svo vini og kunningja þegar ég er á labbinu þá er ég opinn fyrir spjalli,” segir hann brosandi.

Fötin hjálpa mér að brosa og hafa gaman að lífinu

Palli, ég verð einnig að koma aðeins inn á fatastílinn þinn, þú átt ansi mörg skemmtilegt, litrík og falleg jakkaföt m.a. blá Stjörnujakkaföt. ,,Já, fötin hjálpa mér að brosa og hafa gaman að lífinu. Ég pantaði blátt jakkafatasett en þegar ég var kominn með það til Íslands þá lét ég merkja settið og ég hef fengið mjög jákvæð viðbrögð við Stjörnujakkafötunum,” segir hann og brosir: ,,Ég byrjaði á þessu vegna þess að mér fannst svo margir klæða sig líkt en ég var líka búinn að sjá stuðningsmenn annarra íslenskra liða klæðast jakkafötum merktum þeirra liðum og ég vildi vera í mínum Stjörnufötum. Mikilvægt að geta notað sem flestar aðferðir til að líða vel,” segir hann.

Í Stjörnujakkafötunum

Mundi vilja stað ekki ósvipaðan Salnum eða Bæjarbíó í Garðabæ

Þér líður vel í Garðabæ og ert alltaf jákvæður og mikill gleðigjafi, en ef þú værir bæjarstjóri í einn dag, hvað mundir þú gera? ,,Ég mundi gjarnan vilja hafa aðstöðu ekki ósvipaða Salnum í Kópavogi og Bæjarbíói í Hafnarfirði þannig að það væri möguleiki að skipuleggja leiksýningar, tónleika og uppistandssýningar þar sem fólk gæti komið saman og haft gaman að. Ég veit ekki hvað á að koma þar sem ónýtt rými eru í Miðgarði, en það væri gaman að sjá t.d. pílukast koma þar inn,” segir Garðbæingurinn okkar, Páló.

Forsíðumynd: Garðbæingurinn okkar ásamt foreldrum sínum, Sigþóru Guðrúnu Oddsdóttur og Jóni Gunnari Pálssyni

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar