Séreignastefnan í Garðabæ

Það geta ekki allir búið í Garðabæ. Á bæjarstjórnarfundi í febrúar fjallaði ég um rammasamning ríkis og sveitarfélaga og setti í samhengi við húsnæðisáætlun Garðabæjar sem samþykkt var á fundinum. Í rammasamningnum er lagt upp með að um 30% nýs húsnæðis verði svokallað hagkvæmt húsnæði og þar af um 5% félagslegt húsnæði. Í húsnæðisáætlun Garðabæjar til næstu 10 ára er aðeins gert ráð fyrir því að um 10% nýrrar uppbyggingar falli undir þessar skilgreiningar. Garðabæjarlistinn sat því hjá við afgreiðslu málsins.

Á máli fulltrúa Sjálfstæðisflokksins má greina að meirihlutinn er hikandi yfir félagslegum ákvæðum rammasamnings, enda eru þau í raun og veru í beinni mótsögn við þá stefnu sem rekin hefur verið í húsnæðismálum í Garðabæ undanfarna áratugi. Séreignastefnan, sem gerir ráð fyrir því að langflestir Garðbæingar kaupi sér húsnæði, er allsráðandi og stendur nú í vegi fyrir því að Garðabær taki af fullum krafti þátt í húsnæðisuppbyggingu fyrir þá hópa samfélagsins sem sannarlega þurfa öruggt heimili. 

Afleiðing séreignarstefnunnar er sú að leigumarkaðurinn í Garðabæ er fyrst og fremst borinn uppi af einstaklingum og leigufélögum sem kaupa húsnæði og leigja út til lengri eða skemmri tíma í hagnaðarskyni. Framboð af leiguhúsnæði er lítið og húsnæðisöryggi leigjenda í bænum sömuleiðis. Þetta veldur því einnig að þegar aðstæður fólks breytast, t.d. vegna hjónaskilnaðar eða uppsagnar á leigusamningi, eru húsnæðiskostir innanbæjar takmarkaðir. 

Lág- og millitekjufólk sem greiðir himinháa leigu safnar ekki fyrir útborgun í íbúð á meðan. Séreignastefnan kemur þannig í raun í veg fyrir að ákveðnir hópar fólks geti keypt eigið húsnæði, sem aftur eykur á ójöfnuð. Það er hins vegar strax raunhæfari möguleiki að safna ef fólk kemst í trygga leigu og lága, líkt og óhagnaðardrifin félög á vegum verkalýðshreyfingarinnar bjóða upp á.

Séreignastefna Sjálfstæðisflokksins býr til samfélag þar sem hver kynslóð Garðbæinga gengur í gegnum hálfgerða hreinsun. Ungt fólk sem ekki nýtur stuðnings fjölskyldu við að kaupa íbúð í bænum velur aðra staði til að búa á, þau sem þurfa að fara á leigumarkað fara annað. Sum snúa aftur í bæinn síðar, mörg gera það ekki. Séreignastefnan býr til útilokandi umhverfi og okkur í Garðabæjarlistanum finnst það ekki eftirsóknarvert.

Höfuðborgarsvæðið er eitt búsetusvæði og við teljum tímabært að Garðabær sýni aukna ábyrgð og taki þátt í áætlunum stjórnvalda og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Væri Garðabæjarlistinn við völd myndi Garðabær nú vinna að því að skrifa undir húsnæðissáttmála á grundvelli rammasamnings ríkis og sveitarfélaga um húsnæðisuppbyggingu, í nafni fjölbreytts samfélags þar sem sterk fjárhagsstaða er ekki forsenda búsetu. Það eiga allir að geta búið í Garðabæ.
 
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, oddviti Garðabæjarlistans. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar