Norðurlandmót landsliða í áhaldafimleikum var haldið í Osló í Noregi dagana 5.-7. apríl. Þar náði íslenska landsliðsfólkið frábærum árangri og vann til fjölda verðlauna og þá með sanni segja að iðkendur í Gerplu hafi lagt sitt á vogaskálarnar því af 20 landsliðsmönnum Íslands þá komu 11 þeirra úr Gerplu, sem er magnað.
Íslenska kvennalandsliðið í áhaldafimleikum Norðurlandameistarar
Íslensku konurnar unnu Norðurlandameistara titil í liðakeppni og Hildur Maja Guðmundsdóttir úr Gerplu gerði sér lítið fyrir og vann Norðurlandatitlinn í fjölþraut. Thelma Aðalsteinsdóttir, einnig úr Gerplu vann silf- urverðlaun í fjölþraut, en þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem tvær íslenskar konur komast á pall í fjölþraut.
Hildur Maja skrifar nafn sitt í sögubækurnar
Ísland hefur ekki unnið Norðurlandatitil í fjölþraut síðan 2006 þegar að Sif Páls vann titilinn á heimavelli og skrifar Hildur Maja því nafn sitt í sögubækurnar með frábærri frammistöðu. En þetta er einnig í annað skiptið í sögunni sem íslenska liðið vinnur liðakeppnina, en það var einnig á heimavelli árið 2016.
Íslenska liðið skipuðu; Freyja Hannesdóttir, Hildur Maja Guðmundsdóttir, Lilja Katrín Gunnarsdóttir, Margrét Lea Kristinsdóttir og Thelma Aðalsteinsdóttir.
Karlalandsliðið var eingöngu skipað iðkendum úr Gerplu og tók bronsið
Karlalandsliðið átti einnig dag sem fer í sögubækurnar þar sem liðið vann bronsverðlaun, en Ísland hefur aldrei unnið til verðlauna í liðakeppni karla. Þess ber að geta að karlaliðið var eingöngu skipað iðkendum úr Gerplu. Valgarð Reinhardsson átti besta árangur íslensku keppendanna og varð í 4. sæti í fjölþraut.
Íslenska var skipað: Atli Snær Valgeirsson, Ágúst Ingi Davíðsson, Dagur Kári Ólafsson, Martin Bjarni Guðmundsson og Valgarð Reinhardsson.
Framtíðin björt – unglingar á verðlaunapalli
Bæði lið Íslands í unglingaflokki á NM í Olsó unnu til verðlauna í liðakeppninni. Stúlknaliðið varð í 2. sæti og drengjaliðið í 3. sæti. Þau Lúkas Ari Ragnarsson og Rakel Sara Pétursdóttir náðu besta árangi íslensku keppendanna í fjölþraut en Lúkas varð í9. sæti og Rakel Sara í 5. sæti.
Lið Íslands í drengjaflokki skipa; Ari Freyr Kristinsson, Kári Pálmason, Lúkas Ari Ragnarsson, Sólon Sverrisson og Stefán Máni Kárason.
Lið Íslands í stúlknaflokki skipa; Auður Anna Þorbjarnardóttir, Kolbrún Eva Hólmarsdóttir, Kristjana Ósk Ólafsdóttir, Rakel Sara Pétursdóttir og Sigurrós Ásta Þórisdóttir.
Gullregn í Osló – Besti árangur Íslands frá upphafi
Á sunnudeginum fór svo fram keppni í úrslitum á áhöldum og íslensku keppendurnir unnu sér sæti í úrslitum á öllum áhöldum, bæði í karla og kvenna flokki. Þeir héldu því áfram að skrifa nýja kafla í fimleikasögu landsins.
Hildur Maja fjórfaldur Norðurlandameistari
Hildur Maja úr Gerplu, gerði sér lítið fyrir og bætti tveimur titlum í safnið þegar hún sigraði bæði á stökki og á jafnvægisslá. Hún gerði sér svo lítið fyrir og krækti svo í silfur á síðasta áhaldi dagsins, gólfi, hársbreidd á eftir stöllu sinni Thelmu Aðalsteinsdóttur sem bætti Norðurlandameistaratitli á gólfi í safnið sitt, en hún varð meistari á jafnvægisslá árið 2022. Thelma keppti einnig til úrslita á tvíslá og jafnvægisslá, en hún er einmitt ríkjandi Norður- Evrópumeistari á tvíslá og var efst inn í úrslitin. Hún framkvæmdi nýja æfingu, sem vonandi mun verða nefnd eftir henni, en hún framkvæmdi æfinguna á Evrópumóti í vor. Örlítið hik eftir þessa erfiðu nýju æfingu, kostuðu Thelmu gullið, en á sama tíma var reynslan gríðarlega dýrmæt.
Valgarð Norðurlandameistari á gólfi Valgarð úr Gerplu pinnaði lendingarnar sínar á gólfinu og framkvæmdi sínar æfingar af mikilli nákvæmi og uppskar verðskulduð gullverðlaun um hálsinn. Hann var þó hvergi nærri hættur, en hann keppti til úrslita á fjórum áhöldum af sex og varð í 2. sæti á svifrá og 3. sæti á tvíslá. Magnaður dagur hjá mögnuðum fimleikamanni sem hefur farið fyrir karlalandsliðinu undanfarin ár. Liðsfélagi hans Martin Bjarni Guðmundsson var varamaður inn í úrslit á stökki, hann var svo sannarlega tilbúin þegar að kallið kom og mætti til leiks fullur sjálfstraust og vann til silfurverðlauna og var svo hársbreidd frá verðlaunapallinum á svifrá. Dagur Kári keppti til úrslita á tvíslá, en hnökrar í afstökki voru dýrkeyptir og kostuðu hann verðlaun, en reynslan fer beint í bækurnar og verður gaman að fylgjast með honum á komandi mótum.
Þessi magnaða frammistaða íslensku keppendanna vekur eftirvæntingu og spennu nú þegar stutt er í Evrópumót en Ísland sendir lið til þátttöku bæði í karla og kvennaflokki.
Unglingarnir áttu frábæran dag í úrslitum á áhöldum – framtíðin björt
Rakel Sara Pétursdóttir úr Gerplu átti frábæran sunnudag á Norðurlandamótinu. Hún gerði sér lítið fyrir og vann til verðlauna á þremur áhöldum af fjórum en hún var eini keppandi Íslands sem vann sér sæti í úrslitum á öllum áhöldum. Rakel hóf keppni á stökki þar sem hún vann til silfurverðlauna með tvö vel framkvæmd stökk. Á tvíslá fór hún í gegnum æfinguna sína og endaði í 5. sæti og náði sér í dýrmæta reynslu fyrir framtíðina. Á jafnvægislá vann hún bronsverðlaun þrátt fyrir fall, en hún var með hæstu erfiðleika einkunn dagsins á áhald- inu. Rakel kórónaði svo frábæra frammistöðu sína á NM með silfurverðlaunum á gólfi og stimplaði sig inn sem einn af sigursælustu unglingum mótsins í ár.
Kristjana Ósk í Gerplu keppti í úrslitum á jafnvægisslá og gólfi og átti góðan dag á meðal þeirra bestu.
Kári í Gerplu keppti í úrslitum á stökki og stóð sig mjög vel, framkvæmdi góð og hrein stökk og varð fyrir vikið í 4. sæti rétt á eftir bronsinu.
Árangur íslenska liðsins var ótrúlegur sem mun lifa í manna minnum og sýnir að íslenkir fimleikar eru á vegferð þar sem afrekin hrúgast inn og blæs landsliðsfólkinu baráttuanda í brjóst fyrir komandi verkefnum. Afrekin tala sínu máli og er einstakt að fylgjast með íslenska landsliðsfólkinu uppskera og um leið skapa sér stað á meðal bestu afreksmanna Íslands innan raða ÍSÍ. (Gerplufólk er feitletrað í fréttinni). Myndir: Fimleikasamband Íslands.
Forsíðumynd: Norðurlandameistarar. F.v. Margrét Lea, Thelma (Gerplu), Hildur Maja (Gerplu), Lilja Katrín (Gerplu) og Freyja.