Bæjarfulltrúar Garðabæjar voru mættir í gulum vestum með ruslapoka til að taka til í Vinagarði og hleyptu þannig af stokkunum Hreinsunarátaki Garðabæjar 2024. Hreinsunarátak Garðabæjar er árviss viðburður þar sem nágrannar, íbúasamtök, félagasamtök, íþróttafélög og skólar eru hvattir til að taka þátt í að hreinsa til í umhverfinu.
Í ár hófst hreinsunarátakið 22 apríl, á degi jarðarinnar, en það stendur til 8. maí nk. þegar vorhreinsun lóða hefst.
Bæjarfulltrúar Garðabæjar hefja átakið árlega, í fyrra heimsóttu þau lóðina í kring um íþróttahúsið og sundlaugina á Álftanesi en í ár var það Urriðaholt og þá sérstaklega Vinagarður.
Hreinsunarátakið er áminning um að við þurfum öll að taka þátt í að gera bæinn okkar snyrtilegan, það gerist aðeins með samstilltu átaki.
Garðbæingar hafa verið duglegir að taka til hendinni, en vert er að benda á að stóri plokkdagurinn fer fram sunnudaginn 28. apríl og íbúar Urriðaholts halda sinn árvissa hreinsunar og plokkdag laugardaginn 27. apríl. Tökum öll þátt í að halda bænum okkar snyrtilegum!
Forsíðumynd. Bæjarfulltrúar og bæjarstjóri plokka í Vinagarði! F.v. Stella Stefánsdóttir, Björg Fenger, Almar Guðmundsson og Ingvar Arnarson ásamt syni sínum, Vilhjálmi Geir.