Hildur Maja, Thelma, Lilja og Valgarð Norðurlandameistarar

Iðkendur Gerplu stóðu sig frábærlega er það keppti fyrir Íslands hönd á Norðurlandamóti landsliða sem fram fór í Osló í Noregi um sl. helgi, en alls átti Gerpla 11 af 20 þátttakendum í íslenska landsliðinu.

Íslenska kvennalandsliðið varð Norðurlandameistari í liðakeppni (sjá mynd), en Gerpla átti þrjár af fimm stúlkum í liðinu, Hildi Maju Guðmundsdóttur, Lilju Katrínu Gunnarsdóttur og Thelmu Aðalsteinsdóttur.

Þá fór Hildur Maja á kostum í mótinu, en hún varð Norðurlandameistari í fjölþraut og Thelma tók silfrið, en þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem tvær íslenskar konur komast á pall í fjölþraut. Þá er ekki öll sagan sögð því Hildur Maja gerði sér lítið fyrir og bætti tveimur titlum í safnið þegar hún sigraði bæði á stökki og á jafnvægisslá. Hún krækti svo í silfur á gólfi og var hársbreidd á eftir félaga sínum Thelmu, sem bætti við öðrum gullverðlaunum á mótinu er hún varð Norðurlandameistara á gólfi. Thelma fékk svo einnig silfurverðlaun á tvíslá.

Valgarð Reinhardsson úr Gerplu uppskar svo verðskulduð gullverðlaun um hálsinn er hann varð Norðurlandameistari á gólfi. Hann var þó hvergi nærri hættur, en hann keppti til úrslita á fjórum áhöldum af sex og varð í 2. sæti á svifrá og 3. sæti á tvíslá. (Sjá nánari umfjöllun um þátttakendur Gerplu í íslenska landsliðinu í Kópavogspóstinum sem dreift verður í fyrramálið og inn á vefsíðunni; www.kgp.is).

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar