Íbúðir fyrir suma í Kópavogi

Nú stendur fyrir dyrum úthlutun lóða í 1. áfanga nýs hverfis í Vatnsendahvarfi. Þessi úthlutun nær til 184 íbúða á sex fjölbýlishúsalóðum. Megnið af seinni tveimur áföngunum verða sérbýlislóðir.

Á fundi bæjarráðs Kópavogs 21. mars s.l. var tekist á um úthlutunarreglur fyrir lóðirnar sem meirihluti sjálfstæðis- og framsóknarmanna hefur ákveðið að verði með útboðsfyrirkomulagi. Það þýðir að hæstbjóðandi fær lóðina.

Loforð Kópavogsbæjar

Með máli nr. 8 í bæjarráði – úthlutun Vatnsendahvarfs 1. áfangi, var einnig að finna svar frá bæjarlögmanni við fyrirspurn fulltrúa minnihlutans um skyldur sveitarfélagsins og ríkisins í húsnæðismálum. Þar voru tekin saman lög, skipulög, áætlanir og samningar þar sem Kópavogsbær hefur skuldbundið sig til að tryggja öllum félagshópum húsnæði á viðráðanlegu verði. Er þá fyrst og fremst horft til ódýrra íbúða sem henta fyrir fyrstukaupa lán og íbúðir sem byggðar eru af óhagnaðardrifnum aðilum, sem geta nýtt stofnframlög ríkis (18%) og sveitarfélags (12%) til að dekka 30% af byggingarkostnaði. Stórkostleg vöntun er á slíkum íbúðum í dag umfram aðrar tegundir íbúðarhúsnæðis.

Þessar skuldbindingar má m.a. finna í lögum nr. 52/2016 um almennar íbúðir, lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál, lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, svæðisskipulagi Höfuðborgarsvæðisins 2040, aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040, húsnæðisáætlun Kópavogs 2024, Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, rammasamningi ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023-2032 og stuðningi ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga í mars 2024.

Þörfin og efndirnar

Þrátt fyrir að Kópavogsbær hafi í orði kveðnu lofað að leggja sitt af mörkum til uppbyggingar almenna íbúðakerfisins hafa efndirnar látið á sér standa. Í húsnæðisáætlun Kópavogs kemur fram að 35% skattgreiðenda í Kópavogi eru undir þeim tekju- og eignamörkum sem þarf til að afla sér húsnæðis án aðstoðar. Þessi hópur fær ekki náð fyrir augum meirihluta sjálfstæðis- og framsóknarmanna í Kópavogi þegar kemur að húsnæðisuppbyggingu. Minnihluti bæjarstjórnar telur sjálfsagt að taka frá lóð í 1. áfanga úthlutunar í Vatnsendahvarfi fyrir óhagnaðardrifna uppbyggingu leiguíbúða enda hefur slík lóð aldrei verið lögð til í Kópavogi sem er eina sveitarfélagið á Höfuðborgarsvæðinu ásamt Seltjarnarnesi sem ekki tekur þátt í slíkri uppbyggingu. Óhagnaðardrifna leigufélagið Bjarg hefur staðið fyrir uppbyggingu tæplega 2.000 íbúða á Höfuðborgarsvæðinu og þéttbýliskjörnum þar í kring á síðustu árum. Fleiri félög sinna þessu hlutverki s.s. Byggingarfélag námsmanna og Félag eldri borgara. Meirihluti sjálfstæðis- og framsóknarmanna í Kópavogi undirstrikaði afstöðu sína með eftirfarandi bókun í bæjarráði 21. mars s.l. undir máli 8 um úthlutun Vatnsendahvarfs 1. áfanga: „Meiri- og minnihluta greinir á um leiðir að því marki hvernig sem flestir geti eignast þak yfir höfuðið. Eins og kemur fram í bókun minnihlutans hugnast þeim að handstýra úthlutuninni og niðurgreiða húsnæði með lóðaúthlutun til óhagnaðardrifinna leigufélaga. Ekki er gerð grein fyrir því, í bókun minnihlutans, hver áhrifin yrðu af slíkum lóðaúthlutunum á fjárhag sveitarfélagsins, en hætt við að það myndi birtast í niðurskurði á þjónustu til bæjarbúa, auknum álögum eða lántökum.“ Önnur sveitarfélög láta þetta ekki stoppa sig en það á ekki við næst fjölmennasta sveitarfélag landsins sem dregur lappirnar. Á sama tíma sópa fjárfestar til sín litlum íbúðum til útleigu á uppsprengdu verði. Er það velferðin sem meirihlutinn horfir til?

Bergljót Kristinsdóttir, höfundur er oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar