Laugardaginn 26. apríl lýkur Barnamenningarhátíð í Garðabæ með dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Mörg hundruð grunnskólabörn taka þátt í viðburðum í Hönnunarsafni Íslands, Bókasafni Garðabæjar, Minjagarðinum á Hofsstöðum og á Garðatorgi á skólatíma dagana 22. – 24. auk 25. apríl en fjölskyldum er boðið að upplifa saman í lok hátíðarinnar.
Dagskráin hefst klukkan 12 á Bókasafninu með inngangi að draugafræðum þar sem þjóðfræðingurinn Björk Bjarnadóttir segir hræðilegar, áhugaverðar og fyndnar draugasögur. Að lokum geta áhugasamir gert sitt eigið Salómons innsigli sem er sterk vörn gegn draugum. Þá er tilvalið að skoða sýninguna „Forsetinn minn“ sem sýnir verk 5 ára barna úr Barnaskóla Hjallastefnunnar í Garðabæ og úr Sjálandsskóla.
Klukkan 13 hefst Eldblómasmiðja í Hönnunarsafninu þar sem fjölskyldur geta ræktað sín eigin þykjó-blóm úr silkipappír, ullargarni og öðrum efnivið. Innblástur er fenginn úr blómategundum sem eiga það sameiginlegt að hafa verið umbreytt í flugelda. Leiðbeinendur eru Sigga Soffía eigandi Eldblóma og Sigga Sunna eigandi Þykjó en þær leiddu einmitt smiðjur fyrir alla 4. bekkinga í Garðabæ sem gerðu dásamleg blóm á sýninguna „Blómahaf“ sem er opnunarsýning Barnamenningarhátíðar í Garðabæ og liður í HönnunarMars.
Í Minjagarðinum á Hofsstöðum tekur þjóðfræðingurinn Dagrún Ósk Jónsdóttir á móti gestum klukkan 14. Í sameiningu kíkja gestir inn í fortíðina með þjóðsögum til dæmis um Þjóðbrók, spjalli um landnámsfólkið sem bjó einmitt á Hofsstöðum í Garðabæ og margmiðlunarsjónaukar hjálpa gestum að uppgötva daglegt líf á Hofsstöðum.
Dagskránni lýkur með Danspartýi sem fer með þátttakendur um allan heim í gegnum tónlist og hreyfingar en það eru þau Friðrik Agni og Anna Claessen sem leiða danspartýið sem fer fram á Garðatorgi, við hlið apóteksins, og hefst klukkan 15.
Þeir sem koma á lokadag Barnamenningarhátíðar á hjólum geta látið Dr. Bæk ástandsskoða hjólin sín og prufað hjólaþrautir á Garðatorgi 7, fyrir framan Bókasafn Garðabæjar en Dr. Bæk er á staðnum frá kl. 11-13.
Allir viðburðirnir eru ókeypis og öll hjartanlega velkomin að fagna barnamenningu á Barnamenningarhátíð í Garðabæ.