Vilt þú hafa áhrif á skólastarf barna þinna?

Við í Grunnstoðum vinnum nú hörðum höndum að samráðsskjali sem Grunnstoð afhendir bæjaryfirvöldum ár hvert með athugasemdum með ábendingum og úrbótum frá foreldrum hvers skóla. Grunnstoðir er samráðsvettvangur Garðabæjar og foreldrafélaga grunnskóla Garðabæjar þar sem hver skóli á tvo fulltrúa. Í Garðabæ eru tæplega 2600 nemendur í átta grunnskólum. Grunnstoðir gegna þannig veigamiklu hlutverki sem hagsmunahópur foreldra grunnskólabarna í Garðabæ og er málsvari þeirra. 

Í ár útbjuggum við ópersónugreinanlega könnun sem við báðum alla skólastjóra grunnskóla í Garðabæ um að senda frá sér til allra foreldra eða forráðafólks í þeirra skóla. Könnunin gefur foreldrum/forráðafólki grunnskólabarna í Garðabæ kost á að láta í sér heyra og koma sínum málefnum á framfæri.

Markmið könnunarinnar er að finna þá þætti sem skara framúr í hverjum skóla og hvað má bæta. Þannig getum við notað skjalið til taka það sem er gott í einum skóla og óskað eftir því að aðrir skólar taki það jafnvel upp hjá sér eða krafist úrbóta ef vandamál eru til staðar.

Við viljum hvetja alla til þess að taka stutta stund til að svara könnuninni, þannig fáum við svör frá sem breiðustum hópi forráðafólks grunnskólabarna.

Vera Rut, formaður Grunnstoðar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar