Menntaráð Kópavogs er skipað af bæjarstjórn og skal fjalla um framtíðarsýn, gildi og markmið í grunnskólum bæjarfélagsins og hafa eftirlit með að stefnu fyrir málaflokkinn sé fylgt. Í Kópavogi eru 10 grunnskólar með tæplega 5.000 nemendur og liðlega 500 starfsmenn. Útgjöld bæjarfélagsins til þeirra tæplega 12 milljarðar króna. Það er mikið í húfi að vel takist til um skólahaldið, að læra af reynslunni og nýta vel allar upplýsingar sem teknar eru saman um stöðuna og árangur, hvað gengur vel og hvað síður.
Tilgangur PISA er að meta hvort nemendur sem eru við það að ljúka skólaskyldunámi hafi öðlast þá þekkingu og færni sem þeir þurfa í áframhaldandi námi eða starfi. PISA leggur sérstaka áherslu á að meta hvort nemendur geti yfirfært það sem þeir læra í skóla yfir á ný verkefni og nýjar aðstæður. PISA er því könnun sem getur veitt mikilvægar og eftirsóknarverðar upplýsingar fyrir aðila sem bera ábyrgð á rekstri grunnskóla á Íslandi.
PISA könnunin fer fram í ríkjum sem eiga aðild að OECD og er framkvæmt með reglulegu millibili. Það bíður því upp á áhugaverðan og gagnlegan samanburð á milli landa og yfir tíma í einstökum ríkjum. Niðurstöður PISA 2022 fyrir íslenska nemendur sýna neikvæða þróun og slæma stöðu gagnvart löndum sem við berum okkur saman við. Staðan fyrir Ísland sem heild er óásættanleg.
Í þeim upplýsingum sem kynntar eru um PISA könnunina á Íslandi er hvorki hægt að greina á milli einstakra skóla né sveitarfélaga. Hjá fleiri ríkjum sem taka þátt í PISA er „fíngreining“ niður á skóla og sveitarfélög möguleg. Það virðist því vera ákvörðun stjórnvalda hér á landi að niðurstöður eru birtar með þeim hætti að þær nýtast hvorki við mat á stöðunni í einstaka grunnskólum né bæjarfélögum.
Menntaráði ber að fylgjast rekstri og gæðum grunnskóla bæjarfélagsins. Ráðið hefur ekki aðgang að gögnum sem sýna PISA könnunina sérstaklega fyrir 10 grunnskóla bæjarfélagsins. Þess vegna nýtast gögnin ekki sem skyldi til að stuðla framþróun og hugsanlegum umbótum.
Það er af framangreindum ástæðum sem ég hef í tvígang lagt tillögu fyrir Menntaráð Kópavogs, að það kalli eftir sundurgreinanlegum niðurstöðum úr PISA-könnuninni svo við vitum hvernig skólarnir okkar í Kópavogi standa. Meirihlutinn í Menntaráði hefur því miður ekki fallist á þá tillögu og virðist því ekki hafa hug á að upplýsa málið og nýta til gagns fyrir komandi kynslóðir nemenda. Er það ábyrg afstaða?
Tryggvi Felixson
Höfundur situr í menntaráði Kópavogs fyrir hönd Vina Kópavogs.