Hann er góður drengur sem elskar Garðabæ

Páll Ásgrímur Jónsson var útnefndur Garðbæingurinn okkar í Sveinatungu sl. föstudag, en þetta er í fyrsta skipti sem Garðbæingurinn okkar er útnefndur.

154 tilnefningar bárust

Garðabær óskaði eftir tilnefningum frá bæjarbúum og 154 tilnefningar voru bornar undir dómnefnd. Páll, eða Páló eins og hann er alltaf kallaður fékk fjölmargar tilnefningar frá bæjarbúum, en í rökstuðningi dómnefndar og tilnefningum frá bæjarbúum kom m.a. fram að Páll hefði einstakt lag á því að vera jákvæður og hlýlegur.
Einnig voru fimm aðrir einstaklingar heiðraðir fyrir að setja svip sinn á bæjarbraginn í Garðabæ.

Í rökstuðningi dómnefndar og tilnefningum frá bæjarbúum kom fram að Páll hefði einstakt lag á því að vera jákvæður og hlýlegur. „Hann minnir okkur á mikilvægi þess að iðka góð samskipti, á gildi góðra samskipta og mikilvægi þess að vera góður samborgari,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.

Garðbæingurinn okkar! Páll Ásgrímur Jónsson ásamt dómnefndinni og Almari Guðmundssyni, bæjarstjóra og Sigríði Huldu Jónsdóttur, forseta bæjarstjórnar sem voru dómnefnd til halds og traust við athöfnina á föstudag. F.v. Birna Guðmundsdóttir, íþróttafræðingur, Sigríður Hulda, Páll Ásgrímur, Almar, Valgerður Eyja Eyþórsdóttir, formaður Ungmennaráðs Garðabæjar og Pétur Jóhann Sigfússon, skemmtikraftur og leikari

„Hann er góður drengur sem elskar Garðabæ. Hann er hvetjandi og duglegur að mæta á viðburði og íþróttaviðburði þar sem hann er alltaf til í samtal, heilsar flestum og er alltaf svo jákvæður. Hann er mikill gleði- gjafi og hefur fallegt og gott hjartalag. Hann nýtir samfélagsmiðla á skemmtilegan hátt til að gleðja fólk og létta lund okkar. Svo klæðir hann sig svo skemmtilega. Hann er algjörlega einstakur, lífgar upp á hversdaginn með jákvæðni sinni og gleði,“ segir í rökstuðningi dómnefndar og í tilnefningum um Pál.

Sjá viðtal við Pál í Garðapóstinum í fyrramálið og inn á vefsíðunni, kgp.is ásamt frétt af þeim einstaklingum sem voru einnig heiðraðir á hátíðinni.

Mynd: Almar bæjarstjóri útnefnir Páló sem Garðbæinginn okkar, en með honum á myndinni er Páló og Sigríður Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar