Vignir Vatnar hefur unnið ótal afrek á árinu. Hann varð Norðurlandameistari U20 ára í febrúar. Kláraði stórmeistaratitilinn í mars og varð þannig sextándi stórmeistari Íslendinga. Stærsta afrekið var svo í maí þegar Vignir Vatnar varð Íslandsmeistari í skák, bestur á Íslandi. Í lok september varð hann í 13. sæti á HM U20 ára í Mexíkó og tefldi á 3ja borði með landsliði íslands á EM landsliða í Svartfjallalandi í nóvember. Vignir Vatnar er áberandi í íslensku skáklífi og er mikilvæg fyrirmynd fyrir ungmenni og börn sem æfa skák af kappi. Á árinu stofnaði hann sinn eigin skákkennslu vef ásamt því að sinna afreksþjálfun í skák hjá Skákdeild Breiðabliks.
Þú ert væntanleg ánægður með að vera útnefndur íþróttakal Kópavogs fyrir árið 2023? ,,Já, ég er gríðarlega ánægður að fá þennan heiður sérstaklega því ég bjóst engan veginn við þessu með öllu þessu heimsklassa íþróttarfólki sem býr í Kópavogi, Ég vona þetta verði til þess að skákin haldi áfram að blómstra í Kópavogi.“
Ótrúleg tilfinning og sennilega besti dagur lífs míns
Þetta var mjög stórt ár hjá þér, tryggðir þér m.a. stórmeistaratitilinn í mars sl. og fylgdir því síðan eftir með því að vinna þinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í maí sl. Er nokkuð hægt að segja annað, en að þetta hafi verið stærsta árið þitt á skákferlinum? ,,Já, það er hægt að segja að þetta sé heldur betur stærsta árið á ferlinum. Að verða Stórmeistari var náttúrulega aðal markmiðið en síðan að verða Norðurlandameistari undir 20 ára, Íslandsmeistari í kappskák og hraðskák og einnig enda í 13. sæti á HM undir 20 ára og sigur í síðustu skákinni hefði tryggt mér topp 5 í skák þar sem ég var með kol unnið tafl. Mér hefði ekki getað dreymt um betra ár en að klára stórmeistarann var alltaf hápunkturinn það er svona þegar maður er búin að vinna að þessum draumi síðan maður var 6 ára og loksins að ná því er ótrúleg tilfinning og sennilega besti dagur lífs míns,“ segir Vignir Vatnar.
Ég hefði litið út eins og fífl
Þú nefndir það reyndar eftir að þú varðst stórmeistari í mars að þú ætlaðir næst að vinna Íslandsmeistaratitilinn í maí og þú stóðst við stóru orðin, en varstu viljandi að setja smá pressu á sjálfan þig þarna? ,,Já, var smá þannig eftir að ég kláraði Stórmeistara titilinn þá vantaði mig aðra áskorun og mér fannst upplagt að segja þegar ég fór í hlaðvarps þáttinn Chess after dark að fara bara með stóru orðin og segjast ætla að vinna Íslandsmótið og sem betur fer tókst það annars hefði ég litið út eins og fífl,“ segir hann brosandi.
Aðeins 2000 stórmeistarar í allri sögunni!
En fyrir þá sem ekki vita, hvað þýðir það í raun að verða stórmeistari, hvaða árangri þurfa menn að ná til að hljóta þann titili og svo ertu komin á stórmeistaralaun? ,,Að verða Stórmeistari er að ná hæsta titlinum í skák og til þess þarftu að ná 2500 Elo stigum og standa þig eins og stórmeistari á þremur alþjóðlegum mótum. Það segir kannski smá til hversu erfitt þetta er því það eru aðeins 2000 stórmeistarar í allri sögunni! Síðan er ég kominn á stórmeistaralaunin sem ég er hrikalega þakklátur fyrir af því þetta gerir mér kleift að fókusa öllum mínum tíma á skákina og verða alvöru atvinnumaður.“
Friðrik Ólafsson mín fyrirmynd
Þú ert 16 íslenski stórmeistarinn í skák og sá yngsti, er einhver af eldri íslensku stórmeisturunum sem þú hefur fylgst vel með í gegnum tíðina og stúderaði, hálfgerð fyrirmynd eða áttu fyrirmynd í skákinni? ,,Friðrik Ólafsson fyrsti stórmeistari Íslands hefur alltaf verið fyrirmynd mín, hann var einn af allra bestu skákmönnum á sínum tíma og hefur alla tíð verið heilsteyptur maður sem kom vel fram og var algjör fyrirmynd fyrir skák á Íslandi. Hann á mikinn þátt í því að við eigum 16 stórmeistara á íslandi og afhverju Ísland er svona mikið skák land. Auðvitað koma aðrir í hugann líka eins og Helgi Ólafsson og Hjörvar Steinn en Friðrik er alltaf uppáhalds.“
Íþróttakarl Kópavogs! F.v. Vignir Vatnar Stefánsson, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Sverrir Kári Karlsson, formaður íþróttaráðs Kópavogs
Þetta er kannski bara í blóðinu
En þú varst aðeins 6 ára þegar þú byrjaðir að æfa skák, hvernig koma það til? ,,Ég byrjaði á því að horfa á pabba minn og vin hans tefla heima hjá mér og fannst þetta eitthvað rosa spennandi þannig pabbi byrjaði aðeins að kenna mér þar sem hann var og er ennþá mikill skák áhugamaður og stuttu seinna var ég farinn að segja þeim til á skákborðinu. Kannski ekki skrýtið því að lang lang afi minn varð fyrsti Íslandsmeistarinn í skák árið 1913 þannig kannski er þetta bara í blóðinu. Þegar ég byrjaði í Hörðuvallaskóla þá var enginn skákáhugi í skólanum en á einhvern ótrúlegan hátt þá byrjaði áhugi eftir að ég kom. Í skólanum komu fjórir mjög sterkir skákmenn og 3 af þeim náðu yfir 2100 stig sem er mjög gott.“
Það geta allir teflt skák
Hver er lykillnn að því að vera góður skákamaður, hvað þarf til? ,,Ég hef alltaf sagt að það geta allir orðið góðir í skák. Það er svo fallegt við skákina að það geta allir teflt, það breytir engu hversu gamall maður er eða ungur það einfaldlega geta allir teflt og með æfingu og þjálfun getur maður orðið mjög góður, en kannski til að verða Stórmeistari þá þarf maður að byrja ungur og vera með hæfileika fyrir þessu. Það er t.d. ein saga af Kínverja sem byrjaði að tefla 18 ára og hann endaði á því að verða Stórmeistari þannig kannski geta allir orðið stórmeistarar.“
Þegar maður fylgist með skák þá horfir maður á tvo skákmenn sitja í rólegheitum og færa skákmenn til skiptis, en hvernig er það, reynir þessi íþrótt á bæði andlega og jafnvel líkamlega, skiptir máli að vera vel á sig kominn? ,,Já, það skiptir miklu að vera sterkur andlega og líkamlega. Ég tefldi t.d á Evrópumóti fullorðna 2023 og tefldi síðustu skákina mína á mótinu gegn tyrknenskum stórmeistara. Við tefldum 7 tíma skák og ég enda á því að tapa ef maður væri ekki sterkur andlega þá hefði maður brotnað niður en í staðinn fór ég næsta dag á annað mót sem var líka í Serbíu og þar kláraði ég Stórmeistaratitilinn og átti frábært mót. Síðan er það líkamlegi þátturinn sem er kannski ekki alveg jafn mikilvægur og andlegi en samt mjög mikilvægur. Maður lendir stundum í því að tefla 6-7 tíma skákir og maður má aldrei missa einbeitingu því einn slæmur leikur er nóg til að tapa skákinni þannig það borgar sig að vera í formi og hafa þolið í þetta svo maður verði ekki búin á því í lok skákar og leiki af sér. Ég hef verið mjög duglegur í ræktinni og ég var í frábæru formi síðasta sumar og ég stefni á að fara í það form aftur um leið og ég losna úr gifsinu.“
Það er hægt að taka menn á taugum á ýmsa vegu
Geta skákmenn unnið skák á andlega þættinum, tekið andstæðinginn úr jafnvægi, er það þekkt taktík? ,,Já algjörlega skák er nefnilega stundum algjört sálfræði stríð og oft hægt að plata andstæðinginn á ýmsa vegu. T.d tefldi ég eina skák gegn hrikalega efnilegum ungling sem var stigalægri en ég. Ég fékk koltapað tafl en hann fattaði það ekki af því ég var bara að láta eins og ekkert væri að og á endanum bauð hann mér jafntefli með kolunna stöðu þannig það er alveg hægt að taka menn á taugum á ýmsa vegu.“
Ég er nokkuð góður í öllu en ekkert rosalega taktískur
En hvernig er með þig, manstu ótal skákir aftur í tímann og hvernig skákmaður er Vignir Vatnar, spilar þú taktískt eða bara eftir því hvernig skákin er að þróast á hverjum tíma? ,,Ég man mikið þegar kemur að skák, en myndi ekki segja að ég muni mikið af leikjum sem hafa verið tefldir en það kemur kannski meira þegar ég eldist. Ég er nokkuð góður í öllu enda þarf maður að vera það til að verða stórmeistari en ég er ekki rosalega taktískur þótt ég sé ungur. Ég er meira með þann stíl að kyrkja andstæðinginn minn hægt og rólega þangað til hann á endanum brotnar. Það skiptir engu hvort maður vinni í 100 leikjum eða 20 maður fær alltaf sama vinninginn,“ segir Vignir.
Hefur sett sér stór markmið
Þú vannst stór afrek á árinum 2023, hvað með næsta ár, á hvað stefnir þú og hver eru markmið þín fyrir komandi ár? ,,Markmið mín er að verja Íslandsmeistara titilinn minn og síðan tefla erlendis sem atvinnumaður allt árið og hækka Elo stigin mín í 2550 og síðan vonandi 2600 og einfaldlega halda áfram að bæta mig.“
Og það hefur sjálfagt breytt miklu að komast á stórmeistaralaun, getur þú alfarið einbeitt þér að skákinni núna? ,,Já það breytir öllu, núna get ég bara fókusað á skákina og vaknað og farið bara beint að stúdera og tefla skák og einbeitt mér eingöngu að bæta mig.“
Kominn með ,,Man cave“ heima hjá sér
En á Vignir Vatnar einhver önnur áhugamál sem hann stundar og hvað með frekara nám, langar þig að læra eitthvað með skákinni og er það hægt? ,,Ég hef alltaf verið mikill pool áhugamaður og hef lent í öðru sæti á pool móti þar sem margir af sterkustu spilurum landsins voru með. Síðan er ég búinn að búa til ,,man cave“ heima hjá mér sem er með pílu og borðtennis þannig ég er aðeins dottinn inn í það líka svona þegar ég þarf smá pásu frá að stúdera skák. Síðan elska ég ræktina líka og fer alltaf 5-6 sinnum í viku að lyfta og get mælt með því fyrir alla. Ég hef ekki pælt neitt að fara í skóla því ég vill hafa allan fókus á skákinni og reyna ná eins langt og ég get þar,“ segir hann.
Hvernig er í raun dagurinn hjá þér, hvenær vaknar þú og hvað fer mikið af deginum í skákíþróttina? ,,Ég vakna kl 10 og fer alltaf beint í tölvuna að tefla eða stúdera skák. Ég fer síðan yfirleitt í ræktin á milli klukkan 13 og 14, en það fer eftir hversu mikill tími fer í skák á dag. Það fer aldrei minna en 2 tímar í skákina á dag, en ég hef oft tekið daga sem eru 8-10 tímar þannig það fer bara eftir því hvort maður farið í ræktina.“
Á bara eitt taflsett
Svona að forvitni, er ekki allt morandi í skákborð heima hjá þér? ,,Ég á eitt taflsett sem ég lærði að tefla á 5 ára gamall sem ég nota ennþá daginn í dag og er í rauninni eina skákborðið mitt fyrir utan eitt ferða sett sem ég fékk á HM í Mexíkó.“
Skák er náttúrulega hörku íþrótt en ég slasaðist ekki við skákborðið
Og að lokum og eins og þú nefndir áðan þá tóku gestir í Salnum sl. fimmtudag eftir því að íþróttakarl Kópavogs, skákmaðurinn Vignir Vatnar var með spelku á hendinni. Það er varla gott fyrir skákmann, en hvaða meiðsli eru þetta, varla slasaðist þú við skákborðið? ,,Ég slasaðist á Tenerife sem betur fer ekkert alvarlegt en tveir puttar brotnuðu og þurfti að setja eitthverja stálpinna inn í þá svo þeir grói rétt. Vonandi verð ég kominn úr þessu eftir 3-4 vikur og þá getég byrjað að lyfta aftur. Það er nefnilega að gera mig bilaðan að komast ekki í ræktina. Skák er náttúrulega hörku íþrótt en betur fer slasaðist ég ekki við skákborðið,“ segir íþróttakarl Kópavogs brosandi að lokum.
Mikill skákáhugi í Hörðuvallaskóla
Það má geta þess að Vignir Vatnar verður 21 árs í febrúar nk. Kærastan hans heitir Elísabet Elín hún kann ekkert í skák, en styður hann í öllu sem hann gerir segir Vignir. Þess má geta að Vignir var í Hörðuvallaskóla og var mikill skákáhugi í skólanum eftir komu hans m.a. varð skólinn margfaldur Norðurlandameistari skólasveita á meðan hann var í skólanum. Það voru 5 nemendur í skólaliðinu. Þeir eru allir frábærir skákmenn í dag, æfa með skákdeild Breiðabliks og eru allir góðir vinir.
Forsíðumynd: Vignir Vatnar og Elísabet Elín kærasta hans þegar hann tók við viðurkenningunni sem íþróttakarl Kópavogs fyrir árið 2023