Sara Dögg Svanhildardóttir, oddviti Viðreisnar og bæjarfulltrúi í Garðabæ, mun óska eftir því að vera leyst frá störfum í bæjarstjórn á vormánuðum. Þetta kemur fram í færslu Söru Daggar á Facebook en hún tilkynnti félögum sínum í Viðreisn Garðabæjar frá ákvörðun sinni í gærkvöldi.
Sara Dögg kom fyrst inn í bæjarstjórn Garðabæjar árið 2018 sem oddviti Garðabæjarlistans, en í sveitarstjórnarkosningunum 2022 bauð hún sig fram undir merkjum Viðreisnar.
Guðlaugur Kristmundsson markaðsstjóri varabæjarfulltrúi, skipaði 2. sæti listans í síðustu kosningum og mun sjálfsagt taka sæti Söru Daggar og Rakel Steinberg Sölvadóttir, frumkvöðull mun þá verða fyrsti varabæjarfulltrúi Viðreisnar í bæjarstjórn Garðabæjar.
Hér fyrir neðan má sjá færslu Söru Daggar.
,,Í gærkvöld tilkynnti ég félögum mínum í Viðreisn í Garðabæ að ég mun óska eftir því að verða leyst frá störfum bæjarstjórnar með vorinu.
Ég hef ákveðið að láta staðar numið í pólitíkinni.
Ég er þakklát fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt af kjósendum og félögum mínum í Garðabænum. Á sama tíma er ég einstaklega þakklát fyrir þá dýrmætu reynslu sem vera mín við bæjarstjórnarborðið hefur fært mér.
Viðreisn í Garðabæ verður áfram í öruggum höndum félaga minna.
Mér hefur verið falið óendanlega spennandi verkefni í vinnulífinu mínu sem eru þess eðlis að ég kýs að einbeita mér alfarið að því.
Að fá að taka þátt í því að leiða breytingar með það að markmiði að auka tækifæri fatlaðs fólks í samfélaginu til þátttöku m.a á vinnumarkaði er ómetanlegt.
Þar er verk að vinna og ég vil nýta ástríðuna mína af öllu hjarta í þau verkefni á meðan ég fæ tækifæri til.“