Flakk, fjármál og sitthvað fleira

„Hvað á að koma í Miðgarð?“
„Það þarf að bæta nýtinguna á eignum bæjarins og því finnst mér að það eigi að vera opið lengur í Jónshúsi“
„Ég er ánægð með ykkur og langaði bara að segja þér það“
„Hvað er að gerast með gamla nunnuklaustrið?“ 
„Það þarf að laga bílastæðamálin hérna í Sjálandinu“
„Snjómoksturinn hefur verið til fyrirmyndar“
„Við þurfum að ganga betur um grenndargámana!“
„Hver er staðan í leikskólamálum?“
 
Andinn er góður í Garðabæ og íbúar hafa svo sannarlega áhuga á sínu nærumhverfi. Það fann ég vel þegar ég fór á „flakk“ um bæinn núna í febrúar og mars.  Tilvitnanirnar hér eru einmitt úr samtölum mínum við íbúa í Ásgarði, Urriðaholtsskóla, á Dæinn kaffihúsi, í Álftaneslaug og Jónshúsi. Samtölin voru mörg og mjög fjölbreytt. Mér finnst gott og nauðsynlegt að setjast niður með íbúum og hlusta á það sem brennur á fólki. Sum mál var hægt að afgreiða strax, önnur voru eða verða skoðuð nánar og stundum þarf einfaldlega að segja nei. 
 
Það voru allnokkrir foreldrar barna á leikskólaaldri sem gáfu sér tíma til að ræða við mig, fyrir hönd barna sem þá biðu eftir leikskólaplássi. Það voru góð samtöl og mikil brýning. Góðu fréttirnar eru þær að við komum 70 börnum í dvöl núna nýverið. Staða innritunar fyrir haustið er góð og nýlega mátti sjá í fjölmiðlum að yngstu börnin á höfuðborgarsvæðinu sem fá leikskóladvöl eru börn í Garðabæ og Mosfellsbæ. Við erum að bæta upplýsingagjöf um leikskólamálefnin, enda var hún því miður ekki nægilega traust í vetur.

Verjum trausta fjárhagsstöðu

Garðabær er gott og sterkt samfélag sem hefur vaxið hratt á undanförnum árum og við finnum fyrir auknum þjónustukröfum. Traust fjárhagsstaða er undirstaða þess að Garðabær sé vel undir það búinn að mæta þjónustu við fjölgun nýrra íbúa samhliða uppbyggingu nýrra hverfa, meðal annars á Álftanesi, á Hnoðraholti og í Vetrarmýri.
 
Við birtum nýlega ársreikning Garðabæjar fyrir árið 2023 og er hann til umfjöllunar í bæjarstjórn í vikunni. Hann verður staðfestur endanlega í byrjun maí. Afkoman var jákvæð um 1,6 milljarð króna og reikningurinn endurspeglar mikla uppbyggingu í bænum. Miklar framkvæmdir, háir vextir og verðbólga og á heildina litið afar krefjandi rekstrarumhverfi einkenna ársreikninginn fyrir árið 2023. Í ljósi þess er jákvæð afkoma ánægjuefni. Við erum þó mjög meðvituð um að grunnrekstur bæjarins þarf að batna og að skuldahlutföll hafa hækkað nokkuð á því framkvæmdaskeiði sem við erum að ganga í gegnum. Viðamiklar hagræðingaraðgerðir sem komu fram í fjárhagsáætlun ársins 2024 eru því afar þýðingarmiklar og liður í því að verja traustan fjárhag bæjarins.
 
Það sem gleður mig mest er hversu áhugasamir íbúar bæjarins eru um Garðabæ um að við gerum vel og sinnum bæjarfélaginu. Fyrir vikið hlakka ég til að fara aftur á flakkið og er þakklátur fyrir að íbúar upplifa góða þjónustu í bænum okkar. Íbúar Garðabæjar fylgjast nefnilega vel með, er umhugað að við förum vel með fjármuni og eignir bæjarins og auðvitað að við séum meðvituð um mikilvægi góðrar þjónustu.

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ
 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar