Mjaldarnir í Vestmannaeyjum nutu góðs af verkefninu Vatnsdropinn

Vinkonurnar Friðrika Eik Zachrison Ragnars og Matthildur Daníelsdóttir tóku þátt í verkefninu Vatnsdropinn á vegum Menningarhúsanna í Kópavogi veturinn og sumarið 2023 þar sem þær söfnuðu pening fyrir hvali við Ísland. Í Vatnsdropanum var lögð áhersla á að skapa menningardagskrá með börnum fyrir börn og var unnið í samvinnu við H. C. Andersen safnið í Danmörku, Múmínsafnið í Finnlandi og Ilon´s Wonderland safnið í Eistlandi. Í þessu alþjóðlega verkefni fléttast saman myndlist, menningararfur, bókmenntir og náttúruvísindi.

Einn hluti verkefnisins var sýning sem ungir íslenskir 8-14 ára sýningarstjórar stýrðu og settu upp á Bókasafni Kópavogs sumarið 2023. Á listsýningunni Draumaeyjan okkar voru verk undir merkjum Vatnsdropans til sýnis en hópurinn vann að þeim um veturinn. Verkin unnu sýningarstjórarnir með sögur norrænu höfundanna að leiðarljósi ásamt Heimsmarkmiðum nr. 5 um Jafnrétti og nr. 11 um Sjálfbærar borgir og samfélög. Þau lásu sögur höfundanna, unnu verkefni, héldu ráðstefnu með sérfræðingum og heimsóttu listasýningar.

Hjálpið okkur að bjarga hvölunum

Vinkonurnar Friðrika og Matthildur unnu verkefni sem þær nefndu „Hjálpið okkur að bjarga hvölunum“ þar sem þær hvöttu gesti til að setja pening í bauk og styðja þannig við að halda hvölum við Ísland á lífi. Friðrika og Matthildur fóru sjálfar til Vestmannaeyja og afhentu peninginn sem safnast hafði til Sea Life Trust griðastað mjaldra í Vestmannaeyjum. „Það var ótrúlega gaman að vinna verkefnið og sjá peninginn safnast og ennþá skemmtilegra að fara síðan til Vestmannaeyja og gefa peninginn til Þóru Gísladóttur forstöðukonunnar og fá að sjá Litlu Grá og Litlu Hvít í leiðinni,“ sögðu vinkonurnar.

Þóra Gísladóttir, forstöðukona Sea Life Trust tók við peningunum frá vinkonunum Friðriku og Matthildi er þær fóru til Vestmannaeyja

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar