Til hamingju með íþróttaárið

Nú þegar íþróttaárið 2023 hefur verið gert upp og árangur íþróttafólks í Kópavogi verið verðlaunaður er ekki laust við að maður fyllist stolti af því að vera Kópavogsbúi. Framúrskarandi einstaklingar og lið létu sannarlega ljós sitt skína á árinu 2023 og óska ég þeim öllum til hamingju með sinn árangur. Á topp tíu listanum þetta árið voru einstaklingar úr níu íþróttagreinum og er það til marks um hversu fjölbreytt íþróttalíf er í bænum.

Kópavogsbær hefur um langa hríð verið leiðandi bæjarfélag í stuðningi við félögin og íþróttafólk, bæði hvað varðar aðstöðu og fjármagn. Mín einlæga von er sú að við sem gefum okkar að pólitík, beri sú gæfa að skapa áfram það umhverfi og aðstöðu til íþróttaiðkunar sem hefur verið okkur svo gæfuríkt síðastliðin ár. En það er raunar einstakt hvernig starfsfólk og stjórnmálamenn bæjarins hafa með framsýni sinni og elju byggt upp umhverfi vaxtar og árangurs í íþróttalífi Kópavogs í gegnum árin. Það eru svo íþróttafélögin sem taka svo við keflinu og skapa börnunum og afreksfólki það umhverfi og íþróttauppeldi sem við getum verið stolt af. Saman erum við sterk því með sameiginlegri sýn og skynsamlegri stefnu mun Kópavogur vera áfram í fararbroddi í lýðheilsu og æskulýðsmálum.

Að lokum vil ég óska öllum Kópavogsbúum til hamingju með íþróttaárið 2023 og megi 2024 verða okkur jafn gjöfult.

Sverrir Kári Karlsson
Formaður Íþróttaráðs – f.h. Framsóknar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar