Viljum vera fersk og lifandi í því sem við erum að gera

„Við erum yfirmáta spennt að leyfa fólki að prófa alla nýju réttina á matseðlinum okkar. Við höfum ákveðið að veitingahúsið 20&SJÖ sé nú spænskur og Miðjarðarhafs veitingastaður. Fjölmargir réttir af gamla seðlinum halda sér um leið og nýjungar bætast við. Komið hefur í ljós að gestirnir okkar hafa kunnað vel að meta Miðjarðarhafsréttina okkar; smáréttina, aðalréttina og ekki síst veisluhlaðborðin okkar,“ segir Hringur Helgason, framkvæmdastjóri á veitingahúsinu 20&SJÖ við Víkurhvarf 1.

Við höfum ákveðið að veitingahúsið 20&SJÖ sé nú spænskur og Miðjarðarhafs veitingastaður segir Hringur Helgason, framkvæmdastjóri á veitingahúsinu 20&SJÖ við Víkurhvarf 1

Nýi matseðillinn tók formlega gildi um síðustu helgi. „Yfirkokkurinn okkar, Helgi Sverrisson, er listamaður í eldhúsinu og alltaf að prófa sig áfram með nýja rétti. Hann er sífellt að koma með nýjar hugmyndir sem okkur finnst gott, enda viljum við gjarna sýna gestum, einkum fjölmörgum fastagestum okkar, að við séum fersk og lifandi í því sem við erum að gera,“ segir Hringur.

Meðal nýrra rétta á seðlinum má nefna humarpasta, nautasteik með chimichurri og hollandaise, rif að hætti Spánverja, krókettur og þá eru nýir eftirréttir í boði eins og crema Catalana.

Hringur segist sjálfur glaður með þessa þróun enda tengsl hans við Spán töluverð. „Ég hef búið á Spáni og alltaf kunnað afar vel að meta matargerðarlistina þar, ekki síst hráefnin og meðferð þeirra. Fyrir mig er þetta draumur og ég vona að okkar gestir verði sama sinnis.“

Sumarið nú er fyrsta tímabilið í sögu 20&SJÖ þar sem allir geta frjálst um höfuð strokið enda hinar langvinnu, og á stundum þreytandi, takmarkanir af völdum COVID að baki. „Það er ótrúlega gaman að reka veitingastað í því sem kalla má eðlilegt árferði. Við höfum sannarlega notið sumarsins hér í Víkurhvarfinu enda ekki annað hægt með þetta útsýni. Við horfum björtum augum til hausts og vetrar,“ segir Hringur.

Veisluhöld af ýmsu tagi hafa verið vaxandi í rekstri 20&SJÖ frá áramótum. „Það er rétt, við höfum lagt aukna áherslu á brúðkaup, stórafmæli, árshátíðir, fermingar og hvaðeina. Ef veislan er ekki stærri en 100 manna þá erum við málið,“ segir Hringur og bætir við: „Svo ætlum við að halda áfram að prófa okkur áfram með lifandi tónlist í haust. Við munum kynna það rækilega þegar nær dregur.“

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar