Breiðablik er uppeldis- og afreksíþróttafélag sem var stofnað af ungum Kópavogsbúum 12.febrúar 1950 en það er 5 árum áður en bærinn fékk kaupstaðaréttindi. Það er í sjálfu sér ekki skrýtið að saga Breiðabliks og Kópavogs sé samofin því engum dylst mikilvægi íþrótta- og félagsstarfs fyrir uppbyggingu kraftmikilla og heilbrigðra samfélaga. Íþróttaiðkun og góður árangur íþróttafélaga sameinar bæjarbúa en lykill að árangri er góð aðstaða.
Frjálsíþróttadeild Breiðabliks er elsta deild félagsins og var fyrsta frjálsíþróttamót félagsins haldið stofnárið 1950 og fyrsti frjálsíþróttaþjálfarinn ráðinn til starfa árið 1958. Frá upphafi voru bæði kyn (eða öll eins og við segjum í dag) velkomin á æfingar frjálsíþróttadeildarinnar. Sé litið yfir sögu deildarinnar og bæjarins má sjá að deildin hefur alið af sér marga öfluga Kópavogsbúa. Sem dæmi má nefna að fyrsti blikinn til að vera valinn í landslið Íslands var frjálsíþróttamaðurinn Þórður Guðmundsson sem lengi kenndi við Digranesskóla og starfar nú ötullega fyrir sögufélag Kópavogs. Hann keppti fyrst fyrir Íslands hönd 1966 í millivegalengdahlaupum. Fyrsta frjálsíþróttakona Breiðabliks til að vera valin í landslið Íslands var spretthlauparinn Kristín Jónsdóttir sem var skólastjóri Kvöldskóla Kópavogs. Hún keppti á sínu fyrsta Evrópumeistaramóti í Aþenu 1969. Langhlauparinn Gunnar Snorrason sem lengi starfaði í afgreiðslu Breiðabliks sýndi í verki að frjálsar íþróttir eru fyrir alla og það þarf aldrei að hætta að æfa. Hann tók þátt í landsmótum og öðrum mótum fram eftir öllum aldri (a.m.k. til ársins 2010). Síðast en ekki síst má nefna fyrrum bæjarstjóra Sigurður Geirdal en hann starfaði mikið fyrir íþróttahreyfinguna og undir hans stjórn óx íþróttabærinn Kópavogur svo eftir var tekið.
Á áttunda áratugnum var Kópavogsvöllur tekinn í notkun en hann þótti gjörbreyta allri aðstöðu deildarinnar til batnaðar sem leiddi til þess að Breiðablik var talið besta frjálsíþróttafélag landsins. Til að mynda settu blikar 31 Íslandsmet eitt árið og voru stigahæsta liðið á landsmóti UMFÍ. Það var þó skammvinn sæla því fljótt tóku önnur félög fram úr er varðar aðstöðu til frjálsíþróttaiðkunar. Varð því svo að á 9. og fyrri hluta 10. áratugarins voru iðkendur hvattir til að leita annað til að æfa en á meðal þeirra sem kvöddu Breiðablik á þessum tíma má nefna Ólympíufarana Kristján Harðarson og Guðrúnu Arnardóttur.
Þökk sé metnaðarfullri bæjarstjórn þá var um miðjan tíunda áratuginn byrjað að byggja upp sum flottustu íþróttamannvirki landsins í Kópavogi. Greinahöfundur upplifði að þar færu fremstir í flokki Sigurður Geirdal fv. bæjarstjóri, Jón Júl fv. íþróttafulltrúi, Valdi Vald rekstrarfulltrúi á menntasviði (Valdimar Friðrik Valdimarsson), Una María fv. formaður íþróttaráðs og Ómar Stefánsson vallarstjóri á Kópavogsvelli en eflaust var fleira gott fólk þar að baki þó unglingurinn sem hafði engan áhuga á pólitík tæki ekki eftir þeim á þessum árum. Öllu þessu fólki verð ég ævinlega þakklát því það var virkilega gaman að alast upp í Kópavogi á þessum árum þegar hvert íþróttamannvirkið spratt upp af fætur öðru. Metnaðurinn var mikill og margir sjálfboðaliðar spruttu fram í kjölfarið tilbúnir að taka þátt í að gera Kópavogsbæ að flottasta íþróttabæ landsins.
Tartan var sett á hlaupabrautin á Kópavogsvelli sumarið 1996 (völlurinn þó líklega vígður vorið 1997) þrátt fyrir að aðeins örfáar hræður æfðu frjálsar með Breiðablik á þessum árum. Í kjölfarið fór iðkendum að fjölga hratt og 1998 keppti Breiðablik í fyrsta skipti undir eigin merkjum á frjálsíþróttamótum en ekki sem UMSK. Það ár voru einnig 10 einstaklingar valdir í úrvalshóp Frjálsíþróttasambandsins. Með Fífunni sem var vígð vorið 2002 kom síðan loksins innanhús æfingaaðstaða fyrir frjálsar. Árið eftir varð Breiðablik í fyrsta skipti bikarmeistarar karla í frjálsum íþróttum og 2006 átti Breiðablik 11 af 29 í landsliði Frjálsíþróttasambandsins, nær allt uppaldir blikar og Kópavogsbúar. Þarna festi Breiðablik sig í sessi sem þriðja öflugasta frjálsíþróttafélag landsins með virkilega sterka barna- og unglingaflokka. Það var gott að búa í Kópavogi í kringum aldarmótin.
Nú hefur lítið gerst í aðstöðumálum síðan á þessum seinni gullaldarárum frjálsíþróttadeildar Breiðabliks og það litla sem hefur gerst hefur í raun verið afturför. Við það að setja gervigras á Kópavogsvöll varð einn flottasti og hraðasti frjálsíþróttavöllur landsins ólöglegur til keppni og erfiður til æfingar því slysahætta af skoppandi boltum er eins og gefur að skilja þónokkur fyrir þá sem hlaupa og stökkva á vellinum á sama tíma og fram fara knattspyrnuæfingar. Þær breytingar sem gerðar voru á kastvellinum við hlið stúkunnar gerðu það að verkum að kastvöllurinn varð einnig ólöglegur. Bæjaryfirvöldum láðist að skoða reglur sem gilda um stærð kastavalla og er staðan nú sú að Íslandsmetin í kringlukasti og sleggjukasti eru úti í tjörn. Þetta setur frjálsíþróttadeildina í afar óþægilega stöðu en krefjist hún þess að þetta verði lagað verður að fylla upp í tjörnina að einhverju leyti sem er væntanlega ekki vinsælt hjá bæjarbúum en sé þetta látið standa óbreytt þá geta þeir bestu ekki æft né keppt í Kópavogi. Til að gæta sanngirnist, er þó rétt að nefna að öðru leyti er aðstaðan sem búin var til á kastvellinum til fyrirmyndar og hentar mjög vel til þjálfunar yngstu iðkenda. Þá hefur iðkendum í frjálsum og knattspyrnu fjölgað mikið síðan Fífan var opnuð en með auknum fjölda iðkenda þá verður samkeppnin um hvern fermetra meiri með tilheyrandi óþarfa árekstrum. Fífan er í raun sprungin og þörf á aukinni aðstöðu fyrir báðar íþróttagreinar.
Í dag er staðan því orðin sú að Breiðablik er orðin útungunarstöð fyrir tvö stærstu frjálsíþróttafélög landsins, ÍR og FH, sem búa í dag við bestu aðstöðu sem finnst á landinu til frjálsíþróttaæfinga. Barna- og unglingastarfið hjá frjálsíþróttadeild Breiðabliks er enn gífurlega öflug en ungmennin okkar gefast upp þegar þau fá bílpróf og skipta í félögin þar sem aðstaðan er góð. Það er því von mín að nú taki einhverjir boltann uppi á bæjarskrifstofum og byrji að byggja aftur upp íþróttaaðstöðu og íþróttamannvirki í samvinnu við íþróttafélögin í bænum. Íþróttaaðstöðu sem við Kópavogsbúar getum verið stolt af því eins og sagan hefur sýnt að með bættri aðstöðu koma fleiri iðkendur og betri árangur, þetta á við um allar íþróttagreinar.
Aðalheiður María Vigfúsdóttir
Höfundur er Kópavogsbúi sem hefur æft og þjálfað frjálsar hjá Breiðablik, setið í aðalstjórn Breiðabliks, starfað á Kópavogsvelli, æft fimleika með Gerplu og er móðir iðkanda í bæði frjálsum og knattspyrnu hjá Breiðablik.