Streita og börn

Ég hef verið að skoða áfallafræði síðustu sex árin og  og ekki síst verið að skoða hvernig áföll og streita í barnæsku getur mótað okkur á fullorðinsaldri og langar til að setja fram litla hugleiðingu. Ég er nýr leikskólastjór í Garðabæ í skóla þar sem dvelja um 80 börn dag hvern og hópur fólks sem þau annast.  Það er svo margt sem við getum gert með nærverunni einni saman og með því að vera meðvituð og vakandi og stuðlað þannig að sem bestum þroska og velferð barna.

Fyrstu árin hafa börn litlar sem engar varnir þegar kemur að streituvaldandi aðstæðum og því afar berskjölduð fyrir áföllum og streitu í allri sinni mynd. Það er hægt að skilgreina áfall á margskonar hátt og ég ætla að nota þessa skilgreiningu í dag: Áfall er vanhæfni til að dvelja með því sem á sér stað, skilja það og og ná utan um reynsluna. Reynslan  hefur áhrif á taugaerfið sem getur mögulega farið úr jafnvægi við minnsta áreiti í framhaldinu.

Áfall er alltaf einstök reynsla fyrir hvern og einn og háð varnaleysi hverju sinni. Ungbarn er til dæmis mjög berskjaldað ef það er skilið eftir í fimm klukkustundir og getur jafnvel upplifað að það sé í lífshættu. Slík upplifun getur valdið miklu áfalli og lifað með barninu í langan tíma á eftir. Það er mögulegt að bergmál reynslunnar, innri óttinn, verði til staðar á fullorðinsárum og einstaklingurinn áttar sig ekki á hvar óttinn er sprottinn, því vitrænar minningar eru ekki til.

Fimm ára barn, sem skilið er eftir, getur hinsvegar bjargað sér um mat og drykk og hefur því fleiri verkfæri til að dvelja með þeirri upplifum að vera eitt í einhvern tíma.  Það er því ekki líklegt að slík reynsla hafi mjög neikvæðar langtíma afleiðingar. Allt er þetta háð þeim verkfærum sem til staðar eru hverju sinni.

Það er mjög auðvelt fyrir fullorðinn einstakling, með öll sín vitrænu verkfæri og þroska að sjá ekki alltaf hvaða reynsla barna getur í raun valdið andlegum skaða. Það sem getur skipt sköpum er að börnin hafi meðvitaðan fullorðinn einstakling til aðstoðar í aðstæðum. Það getur því verið mjög dýrmætt fyrir foreldra og fólk sem starfar með ungum börnum að átta sig á að þegar taugakerfi barna er ekki í jafnvægi, þurfa þau annað taugakerfi í jafnvægi til aðstoðar til að skapa öryggi og vellíðan aftur.   Við þurfum að tryggja að öll börn fyrstu árin hafi  meðvitað fólk  í kringum sig sem annast þau og að þau séu í umhverfu sem ekki er streituvaldandi á nokkurn hátt.  Vöndum okkur.
 
Ragnhildur Birna Hauksdóttir, 
leikskólastjóri Bæjarbóls

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar