Það er mikilvægt að vekja athygli á því sem vel er gert í bæjarfélaginu okkar og verkefnið Virkni og vellíðan er svo sannarlega eitt af því sem heppnast hefur verulega vel. Þetta frumkvöðlaverkefni, sem er sniðið að þörfum eldri Kópavogsbúa, hefur sannað sig sem mikilvægur þáttur í að stuðla að heilbrigðum og virkum lífsstíl eldra fólks. Verkefnið byrjaði sem tilraunaverkefni árið 2020 og hófst sem samstarf þriggja íþróttafélaga í Kópavogi, Breiðablik, HK og Gerplu. Virkni og vellíðan hefur stækkað og þróast síðan þá og er núna fjármagnað af Kópavogsbæ og komið í varanlega starfsemi.
Verkefninu stjórna tveir íþróttafræðingar sem eru starfsmenn Kópavogsbæjar og tilheyra menntasviði bæjarins. Þær Fríða Karen Gunnarsdóttir og Eva Katrín Friðgeirsdóttir hafa þróað verkefnið, gert viðhorfskannanir og um þessar mundir er verið að vinna úr rannsókn sem gerð var á verkefninu í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Í dag eru um 400 einstaklingar þátttakendur í Virkni og vellíðan og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt. Í allri nálgun verkefnastjóranna er gagnkvæm virðing, gleði og stuðningur leiðarljósið sem notendahópurinn kann svo vel að meta.
Helstu markmið Virkni og vellíðan eru:
● Að bæta líkamlega, félagslega og andlega heilsu þátttakenda og stuðla þar með að auknu heilbrigði bæjarbúa í Kópavogi. Félagsleg einangrun eldra fólks hefur verið vaxandi áhyggjuefni. Hreyfing og sérstaklega í hópum, getur aukið félagslega virkni og dregið úr einangrun. Á æfingunum er lögð áhersla á styrk, þol, liðleika og jafnvægisæfingar ásamt því að þjálfarar gæta þess að það sé gaman. Æfingarnar eru persónumiðaðar og miðað er við að í hverjum hópi séu um 20 – 24 þátttakendur. Hreyfing hefur einnig jákvæð áhrif á andlega heilsu, getur dregið úr kvíða og þunglyndi og bætt svefn.
● Að gefa bæjarbúum tækifæri á að stunda hreyfingu í nærumhverfi sínu. Til að auðvelda sem flestum þátttöku þá gefst fólki tækifæri til að æfa í því íþróttahúsi sem er næst heimili þeirra og um leið er verið að nýta íþróttamannvirkin fyrri hluta dags á tímum sem þau annars eru í minni notkun.
● Að auka þekkingu á mikilvægi hreyfingar og stuðla að auknu heilsulæsi. Verkefnastjórar hafa boðið uppá fræðslufyrirlestra um mikilvægi hreyfingar og helstu áhrifaþætti heilbrigðis og þess að taka upplýstar og góðar ákvarðanir um eigin heilsu. Þeir fyrirlestrar eru öllum opnir óháð þátttöku í Virkni og vellíðan.
● Að stuðla að farsælli öldrun og fjölga heilbrigðum æviárum. Við eigum það nú líklega öll sameiginlegt að við viljum gjarnan eiga gott ævikvöld. Í því felst að við verðum að viðhalda góðri líkamlegri virkni – það er því mjög mikilvægt að við tökum þátt í félagsstarfi eftir bestu getu og munum að hreyfing er einn af hornsteinum heilbrigðrar öldrunar.
Verkefnið Virkni og Vellíðan er því ekki aðeins fjárfesting í heilsu eldri borgara, heldur einnig í framtíð samfélagsins. Það sýnir fram á að með réttum stuðningi og aðstöðu geta eldri Kópavogsbúar haldið áfram að vera virkir og hamingjusamir þátttakendur í samfélaginu okkar.
Björg Baldursdóttir, formaður velferðarráðs í Kópavogi og varabæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í bæjarstjórn Kópavogs.