Tregi og fegurð í Salnum

Miðvikudaginn 21. September verður boðið upp á hádegistónleika í Salnum á dagskrá viðburðaraðarinnar Menning á miðvikudögum.

Á tónleikunum verður jazzplatan More Than You Know flutt en hún kom út á vínyl í sumarbyrjun 2022 og hefur hlotið frábærar viðtökur. Silva Þórðardóttir syngur, og Steingrímur Teague spilar á wurlitzer og filtdempað píanó ásamt því að raula annað slagið. Fyrir utan eitt örstutt bassaklarinettsóló – sem Jóel Pálsson leikur uppúr þurru í bláendann – koma engir aðrir flytjendur við sögu á plötunni. 

Lítið er um flugelda og bellibrögð í hljóðfæraleik, hverfandi áhersla lögð á hefðbundna sveiflu eða grúv. Í staðinn er  áherslan lögð á lögin sjálf og í því að skapa þeim bæði veglega og sérstæða umgjörð. Í öllu falli virðist útkoman ganga vel í fólk, því hlustun á efnisveitum hefur verið óvenju mikil af jazzplötu að vera, og flest laganna á alþjóðlegum jazzspilunarlistum Spotify .

En nú stendur til að flytja herlegheitin á tónleikum í Salnum kl. 12:15 miðvikudaginn 21. september og til að gera nostursömum hljóðheimi plötunnar skil á tónleikum fá þau Silva og Steingrímur til liðs við sig Daníel Friðrik Böðvarsson á hljóðgervil og gítar. Hlustendur mega eiga von á trega, fegurð, og nístandi en jafnframt notalegu hjartasári.

Tónleikarnir eru ókeypis og öll velkomin!

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar