Þau tíðkast nú hin breiðu spjótin í Kópavogi

Sunnudaginn 11. júni n.k kl 13.00 boðar Sögufélag Kópavogs til íbúafundar í Safnaðarheimili Kópavogskirkju undir yfirskriftinni: HVERS VIRÐI ER SAGA OKKAR OG NÁTTÚRA?

Tilefnið er dapurleg ákvörðun bæjaryfirvalda í Kópavogi þess efnis að leggja skuli niður Héraðsskjalasafn Kópavogs og alla vísindalega starfsemi Náttúrufræðistofu Kópavogs. Báðar þessar nytsömu en fámennu stofnanir hafa gegnt mjög mikilvægu hlutverki í bæjarfélaginu. Héraðsskjalasafnið m.a við lögboðna skjalavörslu, öflun gagna frá Kópavogsbúum sem nauðsyn og akkur er í því að varðveita, rannsóknir á sögu bæjarfélagsins og fræðslu til bæjarbúa og annarra sem áhuga hafa á sögu Kópavogs. Náttúrufræðistofan m.a við sýningarhald náttúrugripa, fræðslu til skóla og almennings ,vísinda- og náttúrufræðirannsóknir sem gagnast bæði bæjarfélaginu og þjóðinni allri. Rétt er benda á að hluti af kostnaði við Náttúrufræðistofuna er sjálfsaflafé vegna verkefna sem stofan hefur annast fyrir ýmsa aðila. Ómetanlegri þekkingu og reynslu í þessum málaflokkum er kastað á glæ að illa rökstuddu og lítt athugðu máli.

Starfsemi safnanna er sögð dúlluverkefni sem þetta næststærsta bæjarfélag landsins telur sig ekki hafa ráð á né þörf fyrir. Fylgja eigi í blindni fordæmi Reykjavíkur og illa unninni skýrslu ráðgjafafélagsins KPMG sem hefur aðallega starfað á sviði fjármálaráðgjafar en virðist því miður hafa afar litla þekkingu þegar kemur að mati á menningu, fræðslu og vísindastarfi.

síst í ljósi þess að í Áttavitanum til árangurs sem er heitið á nýlegum málefnasáttmála stjórnmálaflokkanna sem mynda meirihlutann hér í Kópavogi er oft og ítarlega bent á þann staðfasta ásetning að hafa aukið samtal og samráð við bæjarbúa. Jafnframt því að hlusta á og taka tillit til þeirra sjónarmiða. Ennfremur er þar talið lykilhlutverk bæjaryfirvalda að stuðla að fjölbreyttu menningarstarfi í bænum og búa til fallegan bæjarbrag sem eykur ímynd og hróður Kópavogs. Því miður hefur margur stjórnmálamaðurinn ekki gert sér grein fyrir því að það er ekki nóg að setja orð á blað, það verður að fylgja þeim eftir í verki.

En það myndi sannarlega styrkja ímynd og hróður Kópavogskaupstaðar ef stjórnmálamenn okkar og bæjarbúar stæðu saman að því að stöðva það menningar- og þekkingarhrun sem Reykjavík höfuðborgin okkar virðist hafa komið af stað. Þannig mætti hugsanlega koma í veg fyrir að minni sveitarfélög fylgi þeim stærri út í foraðið og leggi niður söfn og fræðasetur með ómetanlegu tjóni fyrir íbúa þar og þjóðina alla.

Slík samstaða væri í anda baráttunnar fyrir betra mannlífi líkt og gerðist þegar landshornalýðurinn á Hálsunum (les þáverandi íbúar á Kópavogssvæðinu) reis upp gegn ofríki og ósanngjörnu hreppsnefndavaldinu á Seltjarnarnesi og stofnaði hér sjálfstæðan hrepp, Kópavogshrepp.

Með Kópavogskveðju
Frímann Ingi Helgason
Stjórnarmaður í Sögufélagi Kópavogs

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar