Einn rómaðasti veislu- og viðburðastaður landsins, Sjáland í Garðabæ opnar formlega með nýju sniði þann 2. maí nk. með glæsilegri uppistandssýningu þar sem Ari Eldjárn, Snjólaug og Birna Rún koma fram og skemmta á sinn einstaka hátt.
Það er Múlakaffi sem hefur tekið að sér rekstur á Sjálandi og er því allt sem tengist mat og drykk í þeirra traustu höndum en allt sem snýr að viðburðarhaldinu sjálfu og þeim uppákomum sem verða í húsinu verður í umsjá KVARTZ markaðs- og viðburðarstofu.
Stolt að bæta Sjálandi við enda einn glæsilegasti veislu- og viðburðastaður landsins með magnaðri staðsetningu
,,Við erum afar stolt af því að bæta Sjálandi við í framboð okkar á veislu- og veitingaþjónustu. Sjáland er einn glæsilegasti veislu- og viðburðastaður landsins á magnaðri staðsetningu við sjávarsíðuna”, segir Guðríður María Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Múlakaffis.
Freyðandi vinkonukvöld, matarupplifun, tónleikar o.fl.
,,Viðburðurinn fimmtudaginn 2. maí nk. er einn af mörgum viðburðum og uppákomum á Sjálandi á næstunni, en markmiðið er að fyrstu tvo fimmtudagana í hverjum mánuði verði eitthvað um að vera. Dagskráin verður fjölbreytt og vonandi mun hún höfða til sem flestra. Við erum að tala um allt frá uppistandi til Pöbb Kviss með börger og bjór. Freyðandi vinkonukvöld, matarupplifun, vínkynningar og tónleikar,” segir hún.
Getum vonandi boðið upp á fleiri opnunardaga
,,Þetta er planið eins og það lítur út núna, en ef við finnum að áhugi bæjarbúa og nágranna er fyrir hendi og við sjáum að vel er mætt á þá viðburði sem boðið verður upp á að þá bætum við í og reynum að hafa staðinn opinn oftar,” segir Lovísa Anna Pálmadóttir framkvæmdastjóri KVARTZ og bætir við: ,,Það er að sjálfsögðu markmið okkar allra að kveikja aftur líf á Sjálandi og að geta boðið upp á fleiri opnunardaga og fleiri viðburði þegar líður á.”
Hægt að bóka salinn fyrir alls kyns viðburði
Garðbæingar mega því eiga von á því að sjá aftur líf í þessu fallega húsi, en það er óhætt að segja að á Sjálandi sé einn fallegasti veislusalur landsins. Samkvæmt Guðríði verður að sjálfsögðu einnig hægt að bóka salinn fyrir alls kyns viðburði s.s. brúðkaup, afmæli eða fermingar. Þar eru tveir salir í Sjálandi, annar sem hentar stærri viðburðum og svo minni salur sem er hentugur fyrir minni og meðalstórar veislur.
Það má búast við flugeldasýningu úr eldhúsinu
Yfirkokkur Múlakaffis er listakokkurinn Eyþór Rúnarsson og hefur hann umsjónmeð matseðli og áherslum Sjálands í mat og drykk. Það má því búast við flugeldasýningu úr eldhúsinu enda er veisluþjónusta Múlakaffis rómuð fyrir bragðgæði, magnaða framsetningu og fagmennsku.
Þess má geta að miðarnir á uppistandssýningu Ara Eldjárn, Snjólaugar og Birnu Rúnar þann 2. maí nk. eru til sölu á Tix. is. Húsið opnar kl. 19 og boðið verður upp á léttar veitingar og fordrykk milli kl: 19 og 20, skemmtunin hefst svo kl. 20.