Þorpsfógetinn spenntur fyrir dagskrá Jazzþorpsins á Garðatorgi dagana 3.-5. maí

Ómar hefur staðið í skipulagningu Jazzþorpsins í raun allt frá því fyrsta hátíðin undir nafni Jazzþorpsins var haldin í maí fyrir ári síðan. Hátíðin var gríðarlega vel sótt og mikil ánægja meðal Garðbæinga og annarra gesta. Frábær tónlistardagskrá og húsgögn og smámunir frá Góða hirðinum sem mynduðu notalega stemningu er eitthvað sem gerði það að verkum að Jazzþorpið í Garðabæ er einstök hátíð í hugum fólk.

En hvernig skyldi Ómar hafa séð fyrir sér að setja Jazzþorpið upp í annað sinn? ,,Jú, þetta var skemmtileg áskorun að fá að stýra hátíðinni nú í annað sinn og ýta úr vör því skipi sem við smíðuðum í fyrra. Fyrst og fremst vil ég minnast á þessa máttarstólpa sem eru með mér í ár og voru með mér í fyrra, Ólöfu Breiðfjörð menningarfulltrúa, Kristínu Guðjónsdóttir upplifunarhönnuð og Hans Vera listasmið og ljósmyndara. Þau eru ómissandi í þessari báru sem við siglum í átt að Jazzþorpi Garðabæjar. Svo var að finna góð atriði sem myndu passa inní mynd hátíðarinnar í ár og það blessaðist allt svo vel, lukkulega. Atriðin í ár eru ekki af verri endanum, verðum með latindanssveitina Los Bomboneros, svo flytjum við flygil frá tónlistarskólanum til að geta opnað dyrnar fyrir æðislegum píanistum. Þau Sunna Gunnlaugs tríó, Píanótríó Þóris Baldurssonar, Píanótríó Kára Egilssonar og svo Magnús Jóhann og Óskar Guðjóns munu njóta þess að hafa flygil til að leika á í þorpinu. Ég ákvað að að hafa sérstakt kvöld sem hyllir fyrstu konur í swing tónlist á síðustu öld, konur sem ruddu veginn eins og Sigrúnu Jóns, Erlu Þorsteins ofl. Ragnheiður Gröndal mun leiða þetta kvöld ásamt frábærri hljómsveit. Sunnudagurinn á hátíðinni mun vera tileinkaður hinum mikla Chet Baker sem er enn þann dag í dag talinn einn fremsti jazzsöngvari og trompetleikari sem uppi hefur verið. Tómas R. mun leiða hljómsveit og söngstjörnurnar Bríet, GDRN Sigríður Thorlacius og KK syngja Chet Baker um kvöldið en dagurinn byrjar með Silvu og Steina með prógram einnig tileinkað Chet,” segir þorpsfógetinn.

Þorpið mun iða af lífi um helgina

,,Svo er það þorpið sjálft sem verður iðandi af lífi frá föstudagseftirmiðdag til sunnudagskvölds. Sérbruggaður Jazzþorpsbjór frá Móa Ölgerðarfélagi og Tíu sopar með sín flottu náttúruvín, jazzkaffi frá Te og Kaffi, myndlistarmaðurinn Kristinn Soð sér um veitingar á hátíðinni í ár og mun hann bjóða uppá frábæran mat sem sér til þess að fólk þurfi ekki að fara úr þorpinu. Kristín upplifunarhönnuður hefur verið í frábæru samstarfi við Góða hirðinn og er búin  að safna í marga mánuði gæðahúsgögnum og smáhlutum sem verða í þorpinu að sjálfsögðu til sölu, alltaf gaman að geta keypt stólinn sem maður situr í á tónleikum ef hafi verið náðugt altso,“ segir Ómar hress. 

Og Þorpsfógetinn heldur áfram að segja frá af mikilli áfergju: ,,Lucky Records verður aftur með sinn jazzplötubás einnig verður Gunnar Örn gítarsmiður með bás þar sem hann verður að vinna að spennandi hljóðfærasmíði og einnig verður Brask og Brall músikmarkaður sem verður markaður með gömlum og flottum sérvöldum hljóðfærum og aldrei að vita nema að e-r sögufræg hljóðfæri úr tónlistarsögu okkar verða þar til sýnis og sölu. Annars bara fullt af fjöri og getum við sem stöndum að þorpinu vart beðið eftir að það rísi á ný,” segir Ómar sem hefur sannarlega umbylt Jazzhátíð Garðabæjar í Jazzþorp sem er engu líkt.

Þegar dagskráin er skoðuð gæti það vel komið til greina að fólk færi ekkert heim til sín þessa fyrstu helgi í maí enda allir dagskrárliðirnir mjög áhugaverðir svo vægt sé til orða tekið.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar