IKEA sameinar alla starfsemi sína á einn stað í Kauptúni 4

Í síðustu viku var öll starfsemi IKEA sameinuð á einn stað við Kauptún 4 í Garðabæ, en vörulager verslunar- innar hefur verið á þremur stöðum, í Kauptúni 3, í Suðurhrauni 10 og núverandi húsnæði að Kauptúni 4.

Eins og glöggir bæjarbúar hafa sjálfsagt tekið eftir hefur IKEA staðið í framkvæmdum á lóð sinni við Kauptún 4 frá síðari hluta árs 2022 við stækkun á húsnæðinu, en þar hefur nú risið nýtt 12.500 fermetra vöruhús sem hefur verið tekið að hluta til í notkun.

Garðapósturinn/Kópavogspósturinn hafði samband við Stefán Rúnar Dagsson, framkvæmdastjóra IKEA, við þetta tilefni og spurði hann út í framkvæmdirnar.

Nýja vöruhús IKEA er um 8.000 fermetrar, en alls er stækkunin um 12.500 fermetrar

Stór tímamót fyrir IKEA

Það voru ákveðin tímamót í síðustu viku þegar lager IKEA var sameinaður á einn stað í Kauptúni 4. Þetta er stórar breytingar fyrir bæði viðskiptavini og starfsfólk að lagerinn sé kominn á sama stað og verslunin? ,,Þetta eru stór tímamót fyrir okkur því þetta skref bæði einfaldar lífið hér innanhúss og einfaldar viðskiptavinum okkar að nálgast vörur af lager hjá okkur. Þegar við vorum með starfsemi á þremur stöðum þýddi það flutninga á milli húsa og viðskiptavinir þurftu jafnvel að nálgast vörur sínar úr einni verslunarferð á þremur stöðum. Það er nú úr sögunni og lífið orðið einfaldara fyrir alla,” segir Stefán Rúnar.

Og svona að gamni, var nýja vöruhúsið opnað með sænskum hætti eins og þegar verslun IKEA var opnuð í Kauptúni árið 2006, með því að saga trjádrumb í sundur? ,,Formleg opnun er ekki búin. Við munum fagna þegar allt húsið er tilbúið og allt starfsfólkið komið á einn stað, en við erum enn með skrifstofur á öðrum stöðum.”

Getur sótt innréttingar og sófa í box fyrir smelltu og sæktu pantanir á netinu

En þið tókuð líka í síðustu viku í notkun nýja vöruafgreiðslu ,,smelltu og sæktu pantanir”. Um hvað erum við að ræða þar? ,,Vöruafgreiðslan var sameinuð á einn stað í staðinn fyrir afgreiðslur í Suðurhrauni og Kauptúni 3. Viðkomustaðurinn núna er því aðeins einn, Kauptún 4. Í nýju vöruafgreiðslunni eru box fyrir smelltu og sæktu pantanir af netinu. Boxin virka eins og póstboxin sem fólk þekkir orðið vel, þ.e. viðskiptavinir nálgast sjálfir vörur sínar í boxin. Þau eru af ýmsum stærðum og við getum því afgreitt bæði stóra og smáa pakka; allt frá blómavösum yfir í innréttingar og sófa.”

Í nýju vöruafgreiðslunni eru box fyrir smelltu og sæktu pantanir af netinu. ,,Boxin virka eins og póstboxin sem fólk þekkir orðið vel, þ.e. viðskiptavinir nálgast sjálfir vörur sínar í boxin. Þau eru af ýmsum stærðum og við getum því afgreitt bæði stóra og smáa pakka; allt frá blómavösum yfir í innréttingar og sófa,” segir Stefán Dagur

Stærsta verslunarhúsnæði á Íslandi

Framkvæmdum er ekki enn lokið, en það stefnir allt í þeim ljúki um mánaðamótin september/október. Þá verður IKEA í Kauptúni komið í 35.000 fermetra húsnæði. Veitir ekkert af þessu stóra húsnæði og er IKEA með þessari stækkun orðin stærsta verslun landsins? ,,Nú bara er ég ekki viss en ég reikna með því að ekki sé stærra húsnæði undir eina verslun á Íslandi.”

Fjölga vörunúmerum og bjóða upp á meiri breidd í sumum flokkum

Og eru þið að bæta við ykkur einhverjum nýjungum eða fjölga vöruúrvali með þessari stækkun? ,,Hvað vöruúrval varðar þá gerum við ráð fyrir að fjölga vörunúmerum og bjóða upp á meiri breidd í sumum flokkum, en það gerist ekki frá fyrsta degi, heldur á lengra tímabili. Það er þó alltaf eitthvað nýtt hjá okkur, við skiptum út ca. 1000 vörum á ári fyrir nýjar.”

Verslunin á leið í langþráðan sumarham

Og hvað er svo að frétta almennt af IKEA, þið eruð nýbúin að standa fyrir kokkakeppni, er eitthvað spennandi framundan hjá ykkur með hækkandi sól? ,,Sumarið nálgast og það er mikil spenna fyrir því hjá okkur. Þá fer verslunin í langþráðan sumarham og sumarvörurnar lífga upp á verslunina. Blómamarkaðurinn verður opnaður 24. apríl með vorplöntum til að byrja með og svo fara sumarblómin að sýna sig í framhaldi af því.”

Nú lækkuðu þið vöruverð í versluninni fyrir nokkrum vikum til að styðja við gerð kjarasamninga – viðskiptavinir hafa sjálfsagt tekið vel í það og hvernig hefur þetta virkað ykkar meginn? ,,Það hefur virkað vel og við sjáum að viðskiptavinir okkar hafa tekið því fagnandi, við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð.”

Reikna með að þetta sé þá komið hjá okkur en maður veit aldrei

Og svona að lokum, framkvæmdum líkur sjálfsagt í haust eins og þú nefnir, er komin frekari stækkun á teikniborðið eða látið þið gott heita í bili í það minnsta? ,,Þegar þessum breytingum er lokið verðum við komin í 35.000 fermetra og öll starfsemi komin á einn stað. Ég reikna með að þetta sé þá komið hjá okkur en maður veit aldrei hvað framtíðin leiðir í ljós,” segir hann brosandi.

Góð starfsmannaaðstaða og 2,4 milljónir viðskiptavina

Hvað starfa margir í IKEA og það fer líklega vel um þá í 35.000 fermetra húsnæði IKEA í Kauptúni? ,,Það eru 450 starfsmenn í það heila og því auðvitað þörf á rúmgóðri aðstöðu á baksvæðum. Stækkunin núna felur í sér verulega endurnýjun á starfsmannaaðstöðu sem við hlökkum mikið til að flytja inn í á næstu mánuðum,” segir Stefán að lokum, en þess má geta að 2,4 millljónir viðskiptavina heimsóttu IKEA í fyrra.

Forsíðumynd: Stefán Rúnar framkvæmdastjóri IKEA segir stór tímamót þegar lager verslunarinnar var sameinaður á einn stað í Kauptúni 4

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar