Sumum mönnum lánast að láta til sín taka þegar þeir sjá að þeirra er þörf

Sumum mönnum lánast að láta til sín taka þegar þeir sjá að þeirra er þörf. Þeir líta í kringum sig og kanna hvar þeir geta komið að liði og nýst þeim sem hjálpar eru þurfi. Það er menning!

Gunnar Stefánsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, kannaði á sínum tíma nýja möguleika til kennslu nemenda sinna í skólanum er í ljós kom að gamlar aðferðir skiluðu litlum árangri; nemendur lærðu lítið. Hann þróaði því ásamt Önnu Helgu Jónsdóttur, samkennara sínum, nýtt kennslu- og æfingakerfi sem þegar sannaði gildi sitt, ekki einungis á háskólastigi heldur og í grunn- og framhaldsskólum.
Augu Gunnars og annarra sem komu til starfa með honum beindust nú að auknu samstarfi með þróun kerfisins erlendis og urðu þeir þegar varir við mikinn áhuga í þróunarlöndunum svokölluðu. Þeir afréðu því að leita fyrir sér í Kenía.

Gunnar við kennslu með Smiley Tutor í fangelsinu í Naivasha

Að undirlagi Gunnars og Önnu Helgu var stofnað félagið Broskallar sem hafði að markmiði að safna fé til kaupa á spjaldtölvum sem skyldu verða verkfæri nemendanna. Stærsta hindrunin á vegi nemendanna var stærðfræði, enda fátt kennara og kennslugagna sem gátu komið að notum. Engir fara í grafgötur um að nám er eina örugga leiðin til að brjótast út úr gildru fátæktar sem ríkir víða í Kenía og víða annars staðar í Afríku.Ljóst var að

kennsluverkefnið, tutor-web, vakti athygli en afráðið var að velja eyju á Viktoríuvatni, Takawiri, og þar sannaði verkefnið ágæti sitt von bráðar hjá grunnskólabörnum. En vissulega reyndist þrautin þyngri að breiða fagnaðarerindið út, ekki síst fyrir það að aðgangur að þráðlausri netþjónustu var víðast í ólestri, eða bara fjarlægur draumur. Þó fannst skólabygging sem státaði af sólarrafhlöðu, reyndar ekki öruggri, en unnt reyndist þó að fylgjast með úrlausnum nemenda við þeim spurningum sem lagðar voru fyrir.

Smám saman komst netsamband í betra horf sem gerði allt starf auðveldara. Alltaf var markmiðið að koma nemendunum í háskólanám og þótt það sýndist fjarlægt varða það að veruleika er tímar liðu. Allt breyttist til batnaðar þegar starfsemin fluttist til bókasafnanna sem bjuggu vel að netþjónustu og aðstaða fyrir nemendur allt önnur. Þau urðu nú eins konar miðstöðvar starfsins.

Nemendur búnir að kaupa fyrir Broskalla sem þau hafa unnið sér inn með því að læra

Nú eru liðin mörg ár frá þessari tilraun en ljóst er að hún hefur sannað gildi sitt svo um munar; nú hafa um 700 börn og unglingar lokið við verkefni sín og eru stoltir eigendur spjaldtölva. Nokkrir nemendanna eru nú komnir í háskóla og sumir þeirra eru komnir til starfa við verkefnið og koma miklu í verk. Fjöldi kennara hafa fengið þjálfun á vegum verkefnisins sem nú dreifist hratt út. Tölvukunnátta nemenda hefur auk námsins opnað aðgang að alls kyns fræðslu sem fyrr lá ekki á lausu. Verkefnið hlaut nafnið Menntun í ferðatösku, Education in a suitcase.
Nú vaknaði spurning um það hvernig skyldi umbuna nemendum fyrir árangur í námi. Úr varð að stofnað var til eins konar rafmyntar, broskalla (Smileycoin). Nemendur vinna verkefni sín bókasöfnunum þar sem þeim eru lánaðar tölvur, og fá umbun, broskalla, ef vel gengur og geta þá fest kaup á spjaldtölvum og ýmsum varningi sem stundum hefur getað létt fjölskyldum þeirra lífið. Nýjar tölvur koma svo í staðinn á bókasöfnin. Broskallarnir eru nú einnig farnir að brosa breitt við nemendum Háskóla Íslands.

Það leynir sér ekki að þetta kostar mikið fé og þar hafa margir hlaupið undir bagga, til dæmis utanríkisráðuneytið á Íslandi og ekki má gleyma Hringfaranum, Kristján Gíslason, sem sást nú nýverið í sjónvarpsþáttum á ferð um Afríku á mótorhjóli, og konu hans, Ásdísi Rósu Baldursdóttur. Góðir rannsóknarstyrkir hafa fengist og góðgerðasamtök látið fé af hendi rakna. Styrktarsjóður Rótarý á Íslandi hefur hlaupið undir bagga og einnig Rótarýklúbburinn Borgir í Kópavogi. Verkefni Gunnars og félaga hafa tengst ABC og Íslensku barnahjálpinni sem Hringfarinn hefur dyggilega styrkt ásamt því að styðja verkefni Gunnars og félaga í Eþíópíu.

Það var frá upphafi ljóst að það yrði við erfiðan reip að draga er kæmi að námi stúlkna, að opna þeim leið inn á bókasöfnin. Átak í þeim efnum skilaði gleðilegum árangri og nú er svo komið að þrjátíu prósent nemenda sem vinna verkefni sín þar eru stúlkur sem án efa mun skila sér á mörgum vettvangi.

Þetta verkefni hefur farið sigurför á heimsvísu en því er ekki lokið og mun teygja sig víða, til dæmis inn í flóttamannabúðir í Kenía og víðar – og þar veitir ekki af átaki í fræðslumálum.

Ef þetta er ekki menning í sinni fegurstu mynd – hvar er hún þá?

Þórður Helgason tók saman
Rammagrein – samantekið af Önnu Stefánsdóttur

Gunnar sem er félagi í Rótarýklúbbnum Borgum, hefur ásamt Önnu Helgu, verið ötull að kynna verkefnið meðal rótarýklúbba á Íslandi. Verkefnið hlaut styrk úr Verðlauna- og styrktarsjóði íslenska Rótarýumdæmisins árið 2019 og á síðasta ári veitti Rótarýklúbburinn Görðum í Garðabæ verkefninu veglegan styrk. Rótarýklúbburinn Borgir vinnur nú að styrkumsókn í aðþjóðlegan styrkarsjóð rótarýhreyfingarinnar til að efla enn frekar kennsluverkefnið þá ekki síst til að ná til fleiri stúlka og einstæðra ungra mæðra.

Rótarýsjóðurinn er einn öflugasti styrktarsjóður heims á sviði mannúðar- og menntamála. Á hverju ári veitir sjóðurinn m.a. veglega styrki til meistaranáms í friðarfræðum við viðurkennda háskóla. Einnig veitir sjóðurinn styrki til stórra verkefna á sviði heilbrigðismála og til að draga úr fátækt í heiminum.

Nemendi í Moyale mætir með föður sínum til að taka við spjaldtölvu sem er búið að kaupa fyrir Broskalla

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar