Sársaukinn má ekki vinna

Arnar Pétursson frjálsíþróttamaður var kjörinn íþróttakarl Kópavogs fyrir árið 2021, en Arnar og Tinna Sif Teitsdóttir, íþróttakona Kópavogs 2021 voru valin úr hópi 46 íþróttamanna sem fengu viðurkenningu íþróttaráðs á íþróttahátíð Kópavogs, sem haldin var í Salnum í janúar, eftir tilnefningar frá íþróttafélögunum í bænum.

Annað árið í röð ertu valinn Íþróttakarl Kópavogs, þetta fer að komast upp í vana hjá þér eða hvað? ,,Þetta er þvílíkur heiður sem maður tekur aldrei sem gefnum hlut. Í rauninni hugsa ég lítið um að stefna á svona verðlaun, miklu frekar að gera eins vel og ég get á hverjum degi og þá gerast góðir hlutir í kjölfarið,” segir Arnar.

Það gekk eiginlega allt upp

Þú náðir þeim ótrúlega árangri árið 2020 að vinna sex Íslandsmeistaratitla, en jafn magnað og það er, þá vannstu hvorki fleiri né færri en níu Íslandsmeistaratitla í fyrra. Má segja að árið 2021 hafi verið mun betra en árið 2020? ,,Það gekk eiginlega allt upp hjá mér árið 2021 en það sem skipti mestu máli var að vera alveg laus við meiðsli. Ég hef reyndar aldrei verið að kljást við meiðsli allan minn feril en aðalmarkmiðið fyrir hvert ár er að haldast heill og taka jöfnum framförum. Þetta næst eingöngu með mikilli skynsemi og réttri nálgun við æfingar.”

Varstu að bæta þig almennt í öllum þessum hlaupum og í hvaða hlaupum varstu Ís-landsmeistari í? ,,Ég ákvað að halda mig meira heima heldur en venjulega en var því miður óheppin að fá ekki heilögu ferninguna í hlaupum, það er gott form, gott veður, góð braut og góð keppni. Ég hinsvegar bætti mig í 800m og tók mínar allra bestu æfingar á ferlinum þannig ég veit að formið var mjög gott en veðrið var ekki að vinna með í þetta skiptið. Titlarnir komu í 1500m innanhús, 3000m innanhús, 5km götuhlaupi, 5000m á braut, 3000m hindrunarhlaupi, 10km götuhlaupi, 10.000m á braut, maraþoni og víðavangshlaupi.”

Þú hefur orðið samtals 45 sinnum Íslandsmeistari á þínum langa ferli, hvenær hófst hann og brennur þú enn jafn mikið fyrir hlaupin og þú gerðir þegar þú byrjaðir? ,,Já, ég vil meina að ég byrji fyrir alvöru 21 árs þegar ég hætti alveg í körfunni en árið áður var ég fyrirliði meistaraflokks Breiðabliks í körfubolta. Ég var einmitt að rifja það upp í ár þegar fyrsta Íslandsmót ársins fór fram að maður var með alveg jafn mikinn fiðring og í fyrsta skipti. Ég hef alltaf verið mikill keppnismaður og með mikið keppnisskap sem virðist ekkert vera að dvína en sem komið er. Síðan er líka bara svo peppandi að sjá aukinn áhuga á hlaupunum allt í kring.”

Sársaukinn má ekki vinna

Þessi árangur krefst sjálfagt mikilla æfinga og andlegs styrkleika – eða hver er stóri þátturinn í þessum árangri? ,,Það er oft þannig að því lengra sem þú kemst í hverri íþrótta-grein, því stærri sess skipar andlegi þátturinn. Í hlaupum og úthaldsgreinum er þetta jafnvel ennþá mikilvægara því það kemur svo oft upp í hausinn að hægja bara á sér og leyfa sársaukanum að vinna. Líka krefst það mikils andlegs aga að einfaldlega nenna út í rólega skokkið. Ef ég myndi setja hlutfall á þetta væri það 70% andlegt og þar kemur líka stuðningur frá fólkinu í kringum mig gríðarlega sterkur inn en það eru 100% líkur á að ég gæti ekki gert það sem ég geri í dag án þeirra.”

Vill þekkja vísindin á bak við allar æfingar

Hvernig er æfingum háttað hjá þér – hafa þær verið eins í gegnum öll þessi ár eða breytir þú reglulega um aðferðir? ,,Ég æfi 7-13 sinnum í viku en oftast í kringum 9-11 sinnum og reyni að hafa einn alveg hvíldardag á 10-14 daga fresti. Ég er mjög passasamur hvaða aðferðum ég beiti í minni þjálfun og þjálfun annarra og finnst ég alltaf verða að þekkja vísindin á bakvið allar æfingar. Svo er mikilvægt að vera meðvitaður um hvar maður er staddur á ferlinum upp á hvaða aðferðir eru hagkvæmastar til að ná sem mestum árangri. Í fyrra æfði ég til að mynda með aðeins færri kílómetrum á viku en áður en var að sama skapi að taka mun hraðari æfingar. Mér finnst síðan ótrúlega skemmtilegt að þjálfa aðra þar sem ég yfirfæri það sem bestu hlauparar í heiminum gera á æfingar sem henta öllum getustigum. Þjálfunin er því bæði smá list og vísindi blandað saman.”

Þú ert orðinn 30 ára, en sagðir í viðtali við Kópavogspóstinn í fyrra að það sé mjög algengt að maraþonhlauparar séu að toppa 36-39 ára, þú ert bara rétt að byrja í þessu eða hvað? ,,Já, ég lít á þetta eins og ég sé rétt núna búinn að leggja grunninn að árangri næstu ára. Líkaminn er klár í að æfa undir miklu álagi án þess að brotna en þetta hef ég gert með því að auka æfingamagnið mjög hægt yfir árin. Fyrir mér snýst þetta um að toppa í maraþoni 36-37 ára þannig að það eru virkilega spennandi tímar framundan.”

Verður pabbi í byrjun mars

Og á hvað er stefnan sett á árinu og kannski því næsta eitthvað spennandi framundan? ,,Í rauninni er markmiðið fyrir næsta ár að haldast áfram heill og taka framförum. Ég er ekki að setja of miklar pressu á mig varðandi tíma eða ákveðin hlaup akkúrat núna en utan vallar er stærsta markmiðið að verða eins góður pabbi og ég get orðið, en ég og Sara Björk sem er einmitt líka mikil Kópavogsbúi eigum von á barni í byrjun mars.”

En áttu þér einhver önnur áhugamál, einhver tíma til að gera eitthvað annað? ,,Já, ég var náttúrulega í fótbolta og körfubolta til tvítugs og varð Íslandsmeistari í yngri flokkum með Blikum í báðum greinum og fylgist vel með þarna. Annars finnst mér mjög gaman að skrifa og svo starfa ég í hlutastarfi hjá Driftline sem var stofnað af tveimur vísindamönnunum sem hafa fundið upp fyrstu vísindalegu mælieininguna á þoli. Þar sem þú þarft bara hjartsláttargögn hef ég notað þetta mikið við mínar æfingar.”

90% nokkuð pottþétt og 10% frjálst

Og svona að lokum, smá forvitni, hvernig er mataræðinu háttað hjá svona miklum afreksmanni, hvernig er morgunmaturinn, hádegismaturinn og kvöldmaturinn, mikill agi þar? ,,Ég passa upp á að hafa 90% nokkuð pottþétt og 10% frjálst, svo tek ég fæðubótarefni frá NOW til að tryggja að allt sé eins og það á að vera.
Hinn lykillinn er að passa upp á að borða nóg, það hefur lítið upp á sig að vera illa nærður áður en þú tekur erfiða gæðaæfingu. Klassískur morgunmatur er eiginlega alltaf eins, tvær ristaðar brauðsneiðar með avókadó, smjöri og sultu með smá salti yfir. Drekk svo frekar te en kaffi. Fæ mér stórt vatnsglas og vítamín. Eftir það tek ég vanalega æfingu ef þetta er gæðaæfing en stundum tek ég rólegar æfingar á fastandi maga fyrir morgunmat. Hádegismaturinn er oft frek-ar léttur og alls ekki með rauðu kjöti því ég vil vera ferskur fyrir seinni æfingu dagsins. Kvöldmaturinn er allskonar, uppáhaldsmaturinn minn er líklega pizza og svo samlokurnar frá Lemon, í rauninni bara eitthvað sem hefur mikið af kolvetnum. Bestu kvöldin eru svo þegar það er fjölskyldumatur, en bæði tengdó og svo pabbi og mamma eru frábærir kokkar. Ætli maturinn þeirra hafi ekki haft ansi mikið að segja um hversu langt maður hefur náð hingað til,” segir þessi mikli keppnismaður brosandi að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar