Maður fórnar miklu en það er þess virði

Tinna Sif Teitsdóttir er íþróttakona Kópavogs 2021 en hún stunda hópfimleika með Gerplu og náði m.a. þeim flotta árangri í desember sl. að veða Evrópumeistari í hópfimleikum kvenna með íslenska landsliðinu.

Tinna Sif er 19 ára gömul og hún ert væntanlega ánægð með að hljóta viðurkenninguna Íþróttakona Kópavogs árið 2021? ,,Ég er ótrúlega ánægð og þakklát fyrir að hafa verið kosin íþróttakona Kópavogs, þetta er algjör draumur,” segir Tinna Sif.

Þú varst Evrópumeistari í hópfimleikum með íslenska landsliðinu núna í desember sl. þar sem þú lékst stórt hlutverk í liðinu. Hvernig var upplifunin að taka þátt í þessu móti og standa svo uppi sem sigurvegari? ,,Þetta var fyrsta stórmótið mitt í hópfimleikum sem var mjög spennandi. Íslenska landsliðið í hópfimleikum var síðast Evrópumeistari árið 2012 og er búið að lenda í 2. sæti síðastliðin ár svo við mættum á staðinn með eitt markmið í huga og það var að koma með gullið heim sem okkur tókst. Öll stúkan var með okkur allt mótið og það var mikil stemmning og fagnaðarlæti þegar við unnum. Þetta var ólýsanleg upplifun að standa uppi sem sigurvegarar.”

Var það eitthvað sérstakt sem einkenndi íslenska liðið, góð liðsheild eða hvað skildi að ykkur og önnur landsliði í keppninni? ,,Við vissum að öll vinnan sem við vorum búnar að leggja í heima myndi skila sér á keppnisdeginum. Við ákváðum að hafa gaman og njóta þess að sýna hvað við erum búnar að æfa. Á síðasta áhaldinu í úrslitunum sleit liðsfélagi okkar hásin í stökki sem var mikilvæg manneskja í liðinu svo við vissum að það væri ekki pláss fyrir mistök. Við settum því alla krafta í lokaumferðina og lentum allar, sem skilaði okkur gullinu. Við erum búnar að æfa saman sem eitt lið í 5 mánuði 5 sinnum í viku svo við þekkjum hvor aðra mjög vel og treystum á hvor aðra sem er mikilvægur partur af liðsheildinni og aðskilur okkur kannski frá hinum.”

Meira stress að keppa í hópfimleikum

Þú varst í áhaldafimleikum áður en þú fórst í hópfimleikana, er mikill munur á þessu tvennu og hvort er meira stress að keppa í áhaldafimleikum þar sem mistökin bitna eingöngu á þér að keppa í svona liðsíþrótt þar sem mistök geta kostað liðið dýrmæt stig? ,,Það er auðvitað mun meira stressandi að keppa sem lið heldur en einstaklingur ef maður hugsar um það og svo getur maður ekki stjórnað hvernig liðsfélögunum gengur heldur bara manni sjálfum. Hins vegar hef ég ekki upplifað eins mikið stress í hópfimleikunum miðað við áhaldafimleika vegna þess að ég treysti liðinu mínu og liðið treystir mér sem er mjög gott að vita til að fara öruggur inn í keppni. Einnig að þjálfararnir treysta manni er mikið öryggi. Í áhalda er maður einn á áhaldinu og öll augun eru á þér svo það er örlítið yfirþyrmandi. Maður hugsar svo ekki um að maður geti gert mistök fyrir liðinu því þá er líklegra að það gerist, frekar treysti ég sjálfri mér og veit að ég kann allt sem ég er að fara sýna með liðinu.”

Hafði aldrei upplifað svona mikla liðsheild

Þú vannst fjölda Íslands-meistara- og bikarmeistaratitla í áhaldafimleikunum, hvenær skiptir þú yfir í hópfimleikana og hvernig kom það til? ,,Mér fannst ég vera orðin smá týnd í áhaldafimleikunum síðasta árið mitt sem var í mars 2020. Hópfimleikar voru aldrei eitthvað sem ég ætlaði í ef ég myndi hætta í áhaldafimleikum þá voru frjálsar alltaf eitthvað sem ég hafði áhuga á. Vinkona mín sem æfði hópfimleika dró mig á hópfimleikaæfingu sumarið 2020. Það var mjög erfitt fyrst vegna þess að tæknin í áhaldafimleikum og hópfimleikum er allt öðruvísi. Eftir nokkrar æfingar fannst mér þetta vera ótrúlega skemmtilegt vegna þess að ég hafði aldrei upplifað svona mikla liðsheild frá áhaldafimleikunum. Ég keppti á mínu fyrsta hópfimleikamóti 2021, komst í íslenska kvennalandsliðið og keppti á Evrópumótinu í Portúgal í desember.”

En reynslan þín úr áhaldafimleikunum nýtist þér vel í hópfimleikunum og þú ert í raun með sterk í öllum áhöldum hópfimleikanna þ.e.a.s. á dýnustökki, á trampólíni og gólf-æfingum eða ertu sterkust í einhverri einni grein umfram aðrar? ,,Ég er með góðan grunn úr áhaldafimleikunum, þ.e.a.s ég er liðug, sterk, fljót að læra og er með mikinn sprengikraft.Sterkustu áhöldin mín í áhaldafimleikum voru hestur og gólfæfingar sem nýtist vel í hópfimleikum því maður þarf mikinn kraft til að geta stokkið hátt og snúið í loftinu.”

Maður fórnar miklu en það er þess virði

En er mikil vinna og tími sem fer í æfingar – hvað ertu að eyða miklum tíma í æfingar á viku? ,,Ég æfi 4-5 sinnum í viku 3 klst á dag. Það fer mikill tími í æfingarnar og maður eyðir litlum tíma með fjölskyldunni þar sem maður fer í vinnuna frá 8 til 16 kemur heim til að græja sig fyrir æfingu, kemur heim seint eftir æfingu, nærir sig og fer að sofa. Maður fórnar miklu fyrir þessa íþrótt en það er þess virði ef maður vill ná langt.”

En hvað gerir svo Tinna annað en að stunda hópfimleika og er tími fyrir önnur áhugamál? ,,Ég er í vinnu fyrri part dagsins og fæ frí 2 sinnum í viku þar sem ég get hvílt mig og hitt vini og eytt tíma með fjölskyldunni.”

Mörg verkefni framundan

Á hvað er svo stefnan sett árið 2022 bæði hér innanlands og eru fleiri landsliðsverkefni framundan? ,,Næstu verkefni er bikarmót og Íslandsmót en svo er markmiðið að komast í lið fyrir Evrópumótið í Lúxemborg sem verður haldið í september og verja titilinn,” segir þessi öflugi afreksmaður að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar