Hönnunarsafni Íslands fékk árið 2019 að gjöf hönnunargögn Högnu Sigurðardóttur sem var fyrsta konan í stétt arkitekta til að teikna hús á Íslandi en lengst af bjó hún og starfaði í Frakklandi. Fjölskyldu hennar þótti mikilvægt að teikningar, skjöl, bréf og ljósmyndir yrðu varðveitt í Hönnunarsafni Íslands en nú eru þær Hólmfríður Ósmann Jónsdóttir og Hrefna Björg Þor-steinsdóttir frá arkitektastofunni Arkibúllunni að vinna að því að flokka og skrá gjöfina í safneign safnsins. Gestir geta fylgst með vinnunni í rýminu Safnið á röngunni en þar eru þær stöllur að taka upp úr kössum til að skrá en síðan er safngripunum pakkað á viðeigandi hátt til varðveislu um ókomna tíð.
Högna fæddist í Vestmannaeyjum árið 1929 en stundaði nám í París og hlaut viðurkenningu fyrir besta útskriftarverkefni skólans fyrir hugmynd sýna að garðyrkjubýli í Hveragerði. Fimm einbýlishús voru reist á Íslandi á 7. áratug síðustu aldar en þekktast þessara húsa er Bakkaflöt 1 í Garðabæ sem er mjög verðmætt fyrir íslenska bygginarlistasögu en einnig var húsið valið eitt af 100 merkustu byggingum 20. Aldar í norður- og miðhluta Evróu í útgáfu alþjóðlegs yfirlitsrits um byggingarlist.
Verk Högnu verða sýnd í Hönnunarsafninu til 13. mars en fyrirhugaðir eru fyrirlestrar um verk hennar þegar samkomutakmarkanir hamla ekki.
Forsíðumynd: Hólmfríður Ósmann og Hrefna Björg