Samkór Kópavogs með tónleika í Hjallakirkju

Samkór Kópavogs hefur nú hafið upp raust sína af fullum krafti eftir ládeyðu undanfarin ár vegna covid faraldursins. Kórfélagar og söngstjóri koma nú tvíelfd að söngstarfinu enda allir spenntir að hefja starfið á nýjan leik.

Kórinn mun halda sínu fyrstu tónleika um langt skeið n.k. sunnudagskvöld 25. september í Hjallakirkju í Kópavogi. Tónleikarnir hefjast kl. 20. Yfirskrift tónleikanna er Kærleikans tíð. Efnisskráin er fjölbreytt og við allra hæfi. Orgel- og píanóleikari á tónleikunum er Lenka Mátéóva.

Samkór Kópavogs hefur starfað í Kópavogi frá árinu 1966 eða í heil 56 ár. Jan Morávek, hinn tékknesk ættaði tónlistarmaður sem setti ríkilega svip sinn á íslenskt tónlistarlíf upp úr miðri liðinni öld, var fyrsti söngstjóri kórsins en hann ásamt nokkrum sönglöðum Kópavogsbúum stóðu að stofnun hans. Kórinn hefur verið mikilvægt innlegg í menningarlífi bæjarins fyrr og síðar. Hann hefur alla tíð hlotið árlegan menningarstyrkt frá Kópavogsbæ sem ber að þakka.

Söngstjóri kórsins frá árinu 2013 er Friðrik S. Kristinsson. Friðrik hefur mikla og farsæla reynslu sem söngstjóri. Hann er einnig söngstjóri Karlakórs Reykjavíkur og hefur verið það um langt árabil.

Kórfélagar eru nú um 50 talsins, söngfólk á öllum aldri. Kórinn hefur farið í fjölda söngferða bæði innanlands og utan. Nú síðast, haustið 2019, var farið til Skotlands þar sem kórinn hélt tónleika í St. Giles dómkirkjunni í Edinborg og í St. Mary´s dómkirkjunni í Glasgow.

Samkór Kópavogs er rótgróinn kór þar sem jafnan ríkir góður félags- og söngandi. Núverandi formaður kórsins er Steinunn Tryggvadóttir.

Samkór Kópavogs í St.Mary´s cathedral Glasgow

Kórinn getur ávallt bætt við sig nýju söngfólki. Áhugasömum er bent á að hafa samband með því að senda tölvupóst á [email protected] eða hafa samband við formann í síma 864-7821. Einnig má hafa samband við söngstjóra, [email protected]

Samkór Kópavogs hlakkar til að sjá sem flesta, Kópavogsbúa sem aðra, á tónleikunum í Hjallakirkju á sunnudagskvöldið kl. 20.

Miðar eru seldar hjá kófélögum og við innganginn. Miðaverð er aðeins kr. 2.000. Frítt er fyrir börn 12 ára og yngri.

Forsíðumynd: Samkór Kópavogs í St. Giles dómkirkjunni í Edinborg

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar