Terra einingar hefur reist tvo leikskóla úr húseiningum í Garðabæ

Nýi leikskólinn í Urriðaholti, Urriðaból verður opnaður í vikunni. Urriðaból er sex deilda leikskóli sem tekur 120 börn, en leikskólinn er reistur úr húseiningum frá Terra Einingum. Aðeins liðu tæpir fimm mánuðir frá því fyrsta skóflustungan var tekin, þann 5. maí sl., þar til leikskólinn tók til starfa.

Í nóvember 2021 var einnig opnaður ungabarnaleikskóli á Vífilsstöðum, Mánahvoll, en hann er líka úr húseiningum frá Terra Einingum, þar sem Garðabær leigir eininingarhúsin af Terra Einingum og var leigusamningurinn gerður til sjö ára með kauprétti.

Fannar Örn Þorbjörnsson, er framkvæmdastjóri Terra Eininga og Garðapósturinn byrjaði á því að spyrja hvort hann sé ánægður hvernig til hefur tekist með framkvæmdir og uppsetningu leikskólanna Mánahvols og Urriðabóls? ,,Bæði þessi verkefni hafa gengið mjög vel, skipulag og samstarf við Garðabæ hefur verið frábært og það er mikilvægt í stóru og flóknu verkefni sem þessu þar sem allir hlutir þurfa að ganga upp svo tímaáætlanir standist. Mánahvoll hefur nú verið starfræktur síðan í nóvember 2021 og er mikil ánægja meðal starfsfólks og barna með húsnæðið,” segir hann.

Smíðaðar samkvæmt forskrift og þörfum Garðabæjar

En hvernig húseiningar eru þetta, eru þær framleiddar á Íslandi og uppfylla þær alla staðla sem til þarf? ,,Húseiningarnar eru framleiddar í Tékklandi hjá framleiðanda okkar þar. Hönnun þeirra er sam-starfsverkefni Terra Eininga og Garðabæjar og voru þær smíðaðar samkvæmt þeirri forskrift og þörfum Garðabæjar. Húsin koma fulltilbúin að innan sem utan. Einingunum er svo púslað saman samkvæmt skipulagi á staðnum og fullfrágengnar til notkunar. Þær uppfylla allar kröfur reglugerðar.”

Og þú segir að húseiningarnar komi tilbúnar að innan sem utan á verkstað? ,,Einingarnar koma fullbúnar á staðinn, lagnir, gólfefni, tæki og innréttingar uppsettar. Tengja þarf svo við stofnlagnir og frágang á milli eininga. Gólfhiti var síðan settur á allar deildir leikskólanna sem er gert af okkar uppsetningaraðilum.”

Leikskólinn Urriðaból

Mjög hagkvæmur og sveigjanlegur kostur

Og má ekki segja að þetta sé mjög hagkvæmur kostur fyrir sveitarfélögin, ódýrara og framkvæmdartíminn mun styttri en gengur og gerist? ,,Þetta er mjög hagkvæmur og sveigjanlegur kostur fyrir sveitarfélög og ýmsa aðra starfssemi. Með þessum einingum er svo hægt að bæta við og stækka húsnæði á seinni stigum eftir þörf krefur. Framkvæmdartíminn er einnig talsvert styttri en í hefðbundnum byggingum.”

Nú hefur Garðabær samið við ykkur um uppbyggingu á tveimur leikskólum úr húseiningum á tveimur árum. Eru fleiri sveitarfélög sem hafa fylgt Garðabæ á eftir í þessum málum? ,,Já, við höfum verið að setja upp leikskóla bæði í Reykjavík, Kópavogi, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ núna uppá síðkastið og eru enn fleiri slík verkefni á döfinni. Einnig hafa fyrirtæki verið í auknum mæli að setja upp sambærilegar einingar fyrir sína starfssemi bæði sem tímabundna stækkun húsnæðis eða framtíðarhúsnæði undir starfssemi sína.”

Hægt aðframleiða húseiningarnar algjörlega eftir þörfum hvers og eins

Hvað bjóða þessar húseiningar uppá, er hægt að hafa þær á tveimur eða fleiri hæðum og er þetta jafnvel framtíðin, leikskólar og skólar úr húseiningum? ,,Það eru litlar takmarkanir í hönnun eining-anna, það er hægt að hanna og framleiða þær algjörlega eftir þörfum hvers og eins, hvort sem það er á mörgum hæðum með innbyggðri lyftu á milli hæða, fyrir starfssemi leikskóla, skóla og skrifstofur. Einnig hefur verið talsverð eftirspurn eftir gistieiningum í ferðaþjónustunni í sumar,” segir Fannar Örn að lokum.

Forsíðumynd: Fannar Örn Þorbjörnsson framkvæmdastjóri Terra eininga

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar