Uppskeruhátíð skólagarðanna í Silfurtúni var haldin laugardaginn 10. september síðastliðinn í mildu haustveðri. Þá mættu börn og eldri borgarar, sem voru með garð í skólagörðunum í sumar, ásamt fjölskyldum sínum og unnu saman að því að stinga upp kartöflur og uppskera grænmeti úr görðunum. Á sumrin gefst eldri borgurnum kostur á að leigja sér garð, viku eftir að börnin hafa fengið úthlutaðan garð. Þetta fyrirkomulag mælist vel fyrir meðal þátttakenda og er ánægjulegt að sjá mismunandi kynslóðir vinna garðyrkjustörfin hlið við hlið í skólagörðunum.
Í skólagörðunum í sumar voru ræktaðar kartöflur, fjölmargar káltegundir, salöt og kryddjurtir. Vöxturinn fór hægt af stað enda sumarið í kaldara lagi en í blíðviðrinu dagana fyrir uppskeru tók grænmetið mikinn vaxtar-kipp, svo uppskeran var góð hjá flestum. Boðið var upp á grillaðar pylsur og kanilsnúða til að fagna góðu starfi og viðurkenningarskjöl voru veitt fyrir þátttöku í skólagörðunum í sumar.