Öll velkomin í sundlaugar Kópavogs!

Allt starf okkar Pírata gengur út á að auðvelda fólki að taka virkan þátt í samfélaginu. Við getum nefnilega ekki talað um raunverulegt lýðræði ef fólk þarf að yfirstíga margvíslegar hindranir á hverjum degi, bara til þess eins að vera til. Það er líka ástæðan fyrir því að við berjumst fyrir styttingu vinnuvikunnar, félagslegu réttlæti og afnámi ósanngjarnra skerðinga, því til að vera þátttakendur þarf fólk að hafa tækifæri og tíma. 

Þessi áhersla okkar birtist í ótal málum, enda í ótal horn að líta þegar aðgengi að samfélaginu er annars vegar. Nýlega barst loks svar við rúmlega ársgamalli tillögu okkar í betrihlutanum um bætt aðgengi að ókyngreindum búningsklefum í sundlaugum Kópavogs. Nú stendur að endingu til að bæta úr þessum málum, en hingað til hefur afar takmörkuð aðstaða verið til staðar fyrir fólk sem vill nota sérklefa þegar það fer í sund.

Þegar ég spurðist fyrir í sundlaugunum síðasta sumar var mér tjáð í báðum laugum að engir einkaklefar væru til staðar, nema þeir sem voru eingöngu ætlaðir fötluðu fólki (og kirfilega merktir sem slíkir). Eftir tillöguna okkar var þó strax farið að bjóða fleiri hópa velkomna í þessa klefa, sem eru samt ófullnægjandi að mörgu leyti – til dæmis er ekki hægt að læsa almennilega að sér. Nú liggur hins vegar fyrir greining og áætlun um breytingar þar sem læsingarbúnaði verður komið fyrir, auk þess sem settur verður upp ljósabúnaður sem segir til um hvort klefarnir séu lausir eða uppteknir, bæði í anddyri og úti við laugarsvæðið.

Klefar sem gagnast fleirum

Þessir kynhlutlausu klefar henta fjölbreyttum hópi fólks; eins og kynsegin fólki, fólki sem af trúar- eða menningarlegum ástæðum kýs að berhátta sig ekki innan um aðra, foreldra með börn sem eru orðin of gömul til fylgja þeim í kynjuðu klefana en vilja ekki fara ein, auk þess sem aðstaða er til staðar fyrir hreyfihamlaða sem geta þá jafnvel haft með sér aðstoðarfólk af öðru kyni.

Í þessu samhengi er vert að árétta að transfólk er auðvitað eftir sem áður velkomið í karla- og kvennaklefana, óháð því hvar það er statt í sínu kynleiðréttingarferli. Lög um kynrænt sjálfræði kveða enda á um það að einstaklingar geti sjálfir skilgreint kyn sitt og tryggja að þeir hafi réttindi í takt við það.

Ég spurðist fyrir um stöðu fræðslu til starfsfólks sundstaðanna um málefni transfólks, eins og Píratar hafa lagt áherslu á í Reykjavík. Mér var tjáð að þörf væri á átaki í þeim efnum og að til standi að ráðast í það. Því miður er það ennþá raunin að transfólk á í sérstakri hættu á að verða fyrir áreiti í búningsklefum. Fræðsla er lykillinn að því að öll upplifi sig velkomin og örugg þar.

Ég fagna þessari mikilvægu breytingu Kópavogs í sundlaugunum okkar. Nú er enn ein litla hindrunin frá, í átt að aðgengilegra samfélagi fyrir okkur öll!

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir
Bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar