Þessir Garpar maður!

Breiðablik gerði sér lítið fyrir og varð nýlega Íslandsmeistari í garpasundi. Langt er síðan Breiðablik hefur náð svona langt og mikil gleði í herbúðum liðsins. Breiðablik endaði mótið með 824 stig og hirtu þar af leiðandi bikarinn af ríkjandi meisturum í Sundfélagi Hafnarfjarðar, sem enduðu í öðru sæti með 788 stig. Garpasund er almennt skipað sundmönnum sem eru 25 ára og eldri, og má þar finna hóp sundmanna sem eru komnir vel yfir sjötugt.

Íslandsmeistarar! Aftasta röð séð frá vinstri: Birgir Gíslason, Magnús Konráðsson, Einar Hauksson, Guðmundur Björnsson, Peter Garajszky. Miðju röð séð frá vinstri: Elín Pálsdóttir, Iðunn Ása Óladóttir, María Fanndal Birkisdóttir, María Jónsdóttir, Ásta Þóra Ólafsdóttir, Anna Margrét Hraundal, Margrét Magnúsdóttir, Margrét Ágústsdóttir. Fremsta röð frá vinstri: Hjördís Sigurðardóttir, Elvar Níelsson, Sverrir Óskarsson og þjálfarinn sjálfur Hákon Jónsson

Eins og segir á forsíðu þá varð Breiðablik Íslandsmeistari í garpasundi. Garparnir í Breiðablik létu þó ekki staðar numið við Íslandsmeistaratitilinn því um þar síðustu helgi tóku hin fræknu þátt á Norðurlandamótinu, Nordic Open Masters, og það er óhætt að segja að þar hafi lið Breiðabliks farið á kostum. Náði liðið í 38 gull og vann einnig talsvert af silfri og bronsi, en liðið var með fjölmennasta hóp sundmanna. Breiðablik og Kópavogur eignuðust þar Norðurlandameistara í sundi í mismunandi aldursflokkum.

Þvílík snilld að landa þessu

Hákon Jónsson þjálfari liðsins var í skýjunum með árangurinn á Íslands- og norðurlandamótinu. „Við höfum áður reynt við Íslandsmeistaratitilinn en núna small allt saman og þvílík snilld að landa þessu. Við erum með frábæran hóp, góða aðstöðu í Kópavogslaug og við finnum fyrir miklum stuðning við okkur, sem auðvitað skiptir miklu máli,“ sagði Hákon þjálfari.

Samheldni og gleði skóp þessa sigra

María Jónsdóttir, sem sumir kalla mesta stuðbolta hópsins, tók fram að mikil samheldni og gleði hefði skapað þennan sigur. „Það er búin að vera svo góð stemning og við að hvetja og berja hvort annað áfram á æfingum, það var ekki hægt annað en ná bikar með svona dugnaði“.
Rétt er að nefna fyrir áhugasama að garparnir í Breiðablik æfa þrisvar sinnum í viku í Kópavogslaug og eru allir velkomnir á sundæfingar. (Myndir: sundsamband.is)

F.v. Margrét Ágústsdóttir, María Jónsdóttir, María Fanndal Birkisdóttir og Ásta Þóra Ólafsdóttir
F.v. Arnar Felix Hauksson, Elvar Níelsson, Magnús Konráðsson og Peter Garajszky
F.v. Arnar Felix Hauksson, Hákon Jónsson, Iðunn Ása Óladóttir og Elín Pálsdóttir
Hákon Jónsson þjálfari liðsins er að vonum ánægður með árangurinn sem sundgarparnir í Breiðablik hafa náð

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar