Mikilvægt að enda tímabilið á Íslandi með bikarmeistaratitli

Breiðablik mætir Þrótti í bikarúrslitaleik kvenna á Laugardalsvelli á föstudaginn, 1. október nk. Kópavogspósturinn sló á þráðinn til Vilhjálms Haraldssonar, þjálfar liðsins og spurði hann um leikinn.

Hvernig líst þér á leikinn og mótherja ykkar á föstudaginn? ,,Mér líst mjög vel á leikinn, þetta verður erfiður og spennandi leikur enda eru úrslitaleikur oftast þannig. Mótherjinn er öflugur, 3. sæti í deildinnni er flottur árangur enda er Þróttur með gott og skipulagt lið með klókan þjálfara.”

Þið lékuð við Þrótt í lokaumferð PepsíMax deilarinnar þann 12. september sl. og unnið sannfærandi 6-1 sigur. Er hægt að geta sér eitthvað til um úrslitin nk. föstudag út frá þessum stóra sigri ykkar á móti Þrótti? ,,Nei, þetta var lokaleikur mótsins þar sem úrslitin skiptu ekki öllu máli varðandi hvar liðin myndu enda í töflunni og það getur haft áhrif. Í úrslitaleik gefa öll lið allt í leikinn og ég reikna með að Þróttur komi baráttuglaðar í þennan leik og við þurfum að undirbúa okkur vel fyrir leikinn. Það skipti samt miklu máli fyrir okkur að enda mótið á góðum leik sem gefur okkur sjálfstraust.”

Þú hefur sjálfsagt reynt að lesa töluvert í leik Þróttara í þessum leik vegna úrslita-leiksins. Hvar munu helstu áherslurnar ykkar liggja, verða einhverjar breyttar áherslur í ykkar leik frá því sem hefur verið í sumar fyrir bikarúrslitaleikinn? ,,Við höfum nálgast alla leiki sumarsins út frá okkar styrkleikur en að sjálfsögðu tekið mið af andstæðingnum hverju sinni. Við munum því undirbúa okkur á mjög svipaðan hátt fyrir þennan úrslitaleik eins og aðra leiki tímabilsins.”

Leikmenn sem hafa bæði reynslu og hugarfar sigurvegarans

Og svo skiptir hugafar leikmanna og andlegi þátturinn sjálfsagt töluverðu máli í svona hreinum úrslitaleik þar sem allt er undir? ,,Já, svo sannarlega, hugarfar og reynsla nýtast vel í úrslitaleikjum og við erum með leikmenn sem hafa bæði reynslu og hugarfar sigurvegarans til að koma vel stemmdar í leik sem þennan.”

Nú lauk Íslandsmótinu 12. september sl., og það eru því tæpar þrjár vikur á milli leikja hjá ykkur. Hvernig hefur gengið að halda mannskapnum á tánum hvað æfingar varðar? ,,Það hefur gengið vel og fríið var líka kærkomið fyrir hópinn. Það hefur verið spilað mjög þétt í sumar og þegar þú ert á öllum vígstöðvum, deild, bikar og Evrópukeppni þá er álagið mikið svo hvíldin hefur verið nauðsynleg.”

Nú voru Karítas Tómasar og Agla María í landsliðsverkefnum – hefur það haft einhver áhrif á undibúning ykkar fyrir leikinn? ,,Nei, þær koma inn í þetta núna og vonandi nýtist vera þeirra í landsliðinu okkur í framhaldinu.”

Og þið eruð ákveðin að leggja allt í sölurnar til að vinna bikarinn og hvetjið bæjarbúa til að fjölmenna á leikinn? ,,Við hvetjum alla til að mæta, Blika og aðra Kópavogsbúa því þarna er tækifæri til að upplifa skemmtilegan dag og búa til miningar.”

Og eru allir leikmenn liðsins heilir og tilbúnir í slaginn? ,,Já, ég reikna með því að allir verði klárir í leikinn. Auðvitað tekur tíma að jafna sig eftir Covidsmit en leikmaður í okkar herbúðum smitaðist undir lok tímabilsins en við erum mjög bjartsýn.”

Ég er ekki alveg horfinn á braut

Verður þetta þinn síðasti leikur sem þjálfari liðsins og þú vilt sjálfsagt kveðja með bikarmeistaratitli – væri frábær endir á góðu tímabili? ,,Ég er ekki alveg horfinn á braut,” segir hann brosandi. ,,Ég reikna með að vera í meistaradeildinni þangað til annað kemur í ljós. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að enda tímabilið hér á Íslandi með bikarmeistaratitli svo við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að gera það,” segir Vilhjálmur að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar