Kom upp í hendurnar á mér

Helga Jónsdóttir eigandi hárgreiðslustofunnar Madonnu fagnar 44 ára afmæli stofunnar með því að bjóða viðskiptavinum 20% afslátt í klippingu til 20. október

Hágreiðslustofan Madonna á Garðatorgi fagnar þann 1. október nk. 44 ára afmæli, en fyrsti viðskiptavinur stofunnar steig inn fyrir hurðagættina árið 1977.

Stofnandi og eigandi stofunnar er Garðbæingur Helga Jónsdóttir.

Lét bara vaða

Garðapósturinn spurði Helgu hvernig það hafi komið til að hún opnaði eigin hárgreiðslu-stofu fyrir 44 árum? ,,Þetta kom eiginlega upp í hendurnar á mér,“ segir Helga. ,,Ég var búin að sjá um tvær stofur í Reykjavík fyrir kollega mína sem voru í barnseignarfríi. Þeir treystu mér fyrir þessu verkefni, kornungri og eiginlega beint eftir sveinsprófið, sem gekk bara ljómandi vel. Þá var ég komin með smá reynslu, lét bara vaða og sé ekki eftir því,” segir hún.

Stelpurnar á Hárgreiðslustofunni Madonnu í dag. Efsti frá vinstri er Helga og þá Brynja. Í neðri röð frá vinstri er Tinna, Guðný og Rakel.

Voru margar hárgreiðslustofur starfandi í Garðabæ á þessum tíma? ,,Mig minnir að það hafi bara verið ein stofa.”

Konur mættu í hverri viku í greiðslu/blástur

Hvað hefur nú breyst á þessum 44 árum, mikil þróun eða ertu enn að nota sömu skær-inn og í upphafi? ,,Það hefur heldur betur margt breyst, til dæmis áttu konur tíma í greiðslu/blástur ætíð í hverri viku, oft á sama tíma og sama vikudegi. Margar konur voru þá heimavinnandi með börn og buru. Stofan var oft eins og félagsmiðstöð,” segir Helga er hún hugsar til baka og heldur svo áfram: ,,En í dag er meira um að konur komi í klippingu og litun 4-6 vikna fresti. Það eru um 40% viðskiptavina á stofunni karlkyns sem er mjög ánæjulegt. Þetta breyttist eftir að rakarar og hárgreiðslukonur sameinuðust. Það má segja að við séum með alla flóruna í dag, dömur, herra og börn. Og jú, það þarf víst að skipta um skæri reglulega,” segir hún brosandi.

Það er talað og skrafað

En hvernig er þetta með hárgreiðslustofur og kjaftasögurnar, kemst maður að öllum helstu kjaftasögunum á hárgreiðslustofunum og reynast þær alltaf sannar? ,,Jújú, það er talað og skrafað, en það er nú lítið um kjaftasögur enda er ég ekki mikið fyrir þær.”

Léttur andi svífur yfir stofunni

Og það er alltaf góð og jákvæð stemmning á Madonnu? ,,Jú, við erum ætíð í stuði, léttur andi svífur yfir stofunni og ég tala nú ekki um að við eigum ákaflega skemmtilega viðskiptavini og gott starfsfólk. Það gaman að vakna á morgnana og alltaf tilhlökkun að mæta í vinnuna.”
Fer hártískan í endalausa hringi eða eru reglulega að koma inn einhverjar nýjungar? ,,Hér áður fyrr voru meiri breytingar frekar en síðari ár.”

Hvað er nú inn í dag þegar kemur að dömu- og herraklippingum, hafa fyrirmyndir og áhrifavaldar áhrif á hártískuna á hverjum tíma? ,,Samfélagsmiðlarnir eru miklir áhrifavaldar í dag og einnig má nefna íþróttafólk, tónlistafólk og leikara.”

Og hver er svo ávallt mesti annatími ársins? ,,Lang mesti annatími er aðventan, þegar þorrinn gengur í garð og fram í september.”

En hvað gerir svo Helga fyrir utan hárgreiðslustofuna – eitthvað líf fyrir utan stofuna og áhugamál? ,,Félagmál, ferðalög, útivera, hreyfing, handavinna og fjölskyldan er mín aðal áhugamál. Ég hef síðan sótt hárgreiðslunámskeið og ráðstefnur erlendis til að sækja nýjar línur og strauma í faginu.”

20% afmælisafsláttur

Og á að gera eitthvað sérstak í tilefni afmælisins? ,,Ég ætla bjóða öllum viðskiptavinum 20% afslátt af klippingum til 20. október,” segir Helga að lokum.

Á forsíðumyndinni má m.a. sjá Brynju lengst til vinstri og svo Helgu.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar