Megum við sitja hjá í samræmdri móttöku flóttafólks?

Fyrir nákvæmlega ári síðan sendi ég fyrrverandi bæjarstjóra sjálfstæðismanna í Kópavogi tölvupóst og spurði hann hvort Kópavogsbær hefði ekki skráð sig á lista yfir sveitarfélög sem ætluðu að taka þátt í samræmdri móttöku flóttafólks frá Úkraínu. Ég þurfti að ítreka póstinn en fékk svar þann 4. apríl 2022 um að það stæði til. Þá var liðið á annan mánuð frá því að stríðið í Úkraínu hófst og fjöldi flóttamanna streymdi til landsins sökum þess. Í lok febrúar s.l. voru flóttamenn frá Úkraínu orðnir 2.600 talsins. Það er 22,5% af heildarfjölgun íbúa í Íslandi árið 2022. Einhvers staðar þarf að koma þessu fólki fyrir og nægur var húsnæðisskorturinn fyrir. Við gerum vissulega ráð fyrir að stríðinu í Úkraínu ljúki fyrr en síðar og margir vonuðust eflaust til að því yrði lokið nú rúmu ári síðar. Samræmd móttaka flóttafólks snýst um að veita neyðaraðstoð og í tilfelli Úkraínu má gera ráð fyrir að stærsti hópurinn sé þegar kominn til landsins. Þess vegna þurfti að bregðast við strax í upphafi.

Hver er staðan

Nú ári eftir að ég lagði fram ósk mína um að Kópavogsbær stæði sína plikt og tæki þátt í þessu samfélagslega verkefni hefur enn ekki verið skrifað undir samning við ríkið um þátttöku. Á sama tíma hafa öll stærri og mörg smærri sveitarfélög skrifað undir slíkan samning og taka á móti fólki í samvinnu við ríkið. Það má ýmislegt setja út á þann samning sem sveitarfélögum er boðið upp á en hann má þó ekki standa í vegi fyrir því að við leggjum hönd á plóg. Með slíkum samningi fá sveitarfélög greidda meðgjöf með hverjum flóttamanni frá ríkinu. Sveitarfélögin þurfa að bjóða upp á alla þá þjónustu sem sveitarfélögum ber að veita og fá með samningi hjálp til að standa undir auknu álagi. Nú hefur Vinnumálastofnun tekið við því hlutverki að finna flóttafólki húsnæði. Þeim tekst með sínum ráðum að finna húsnæði sem virðumst ekki geta fundið og þangað flytur fólk sem sveitarfélögin þurfa að taka við. Í okkar tilfelli án þess að fá greiðslu frá ríkinu þar sem enginn samningur er til staðar.

Þrátt fyrir stöðugar ítrekanir mínar og fyrirspurnir um málið hefur ekkert gerst enn. Það er með ólíkindum að næst stærsta sveitarfélag landsins bíði enn eftir því að ná betri samningi við ríkið um svo mikilvæga og aðkallandi þjónustu sem móttaka flóttafólks er.

Ég segi eins og einn bæjarbúa sem sendi bæjarstjórn bréf um málið – Ég skammast mín fyrir að bærinn minn skuli ekki vera búinn að ganga frá þessu fyrir langa löngu.

Bergljót Kristinsdóttir oddviti Samfylkingarinnar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar