Vorið á Álftanessafni – páskaperl 1. apríl.

Laugardaginn 1.apríl verður boðið upp á páskaperl kl. 12:00-15:00 á Bókasafni Garðabæjar- Álftanessafni, en einnig verður hægt að leika sér í ljósaborði þar sem leikið er með form og liti. 

Laugardaginn 6.maí verður verkefnið Lesið fyrir hund.  Þá geta börn komið með heimalesturinn sinn eða spennandi bók sem þau eru að lesa og lesið fyrir sérþjálfaða hunda frá Vigdísi – Félagi gæludýra á Íslandi.  Nauðsynlegt er að skrá sig á þann viðburð þar sem plássið er takmarkað.  Skráning verður auglýst á heimasíðu Bókasafns Garðabæjar sem og á Facebook síðu safnsins.   

Bókasafn Garðabæjar – Álftanessafn er almenningsbókasafn sem staðsett er í Álftanesskóla. Það er opið á mánudögum til fimmtudaga kl. 14.00-18.00 og á föstudögum er opið 14.00-17.00.  Sú nýbreytni var tekin upp í vetur að hafa safnið opið fyrsta laugardag í mánuði og hafa þá eitthvað skemmtilegt í boði fyrir alla fjölskylduna.  Einnig er nóg úrval af bókum og tímaritum og heyrst hefur að auðvelt sé að nálgast nýlegar bækur á safninu.  Sama bókasafnskort gildir á Álftanesi og öðrum bókasöfnum á höfuðborgarsvæðinu.  
 
Verið velkomin í heimsókn á Álftanessafn

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar