Baráttan um hina hófsömu miðju íslenskra stjórnmála er hörð. Í gegnum tíðina hafa ýmis stjórnmálaöfl gert tilkall til miðjunnar og reynt að ná þar undirtökunum með fremur litlum árangri. Undantekningin frá því er Framsóknarflokkurinn.
Framsóknarfólk mætir til leiks í komandi sveitarstjórnarkosningum með byr í seglum. Undanfarin ár hafa verið flokknum hagfelld enda hefur forystu hans gengið vel að koma sjónarmiðum og grunngildum flokksins á framfæri við þjóðina. Átakastjórnmálin hafa hörfað og eftirspurn hefur aukist í okkar góða samfélagi eftir hófsömum lausnum í anda samvinnu og raunsæis.
B-listi Framsóknar í Kópavogi leggur þessi sjónarmið til grundvallar framboði sínu til bæjarstjórnar Kópavogs í kosningunum þann 14. maí næstkomandi. Við munum ekki leggja fram hugmyndir að töfra- eða allsherjarlausnum í þeim málaflokkum sem skipta íbúa Kópavogs mestu máli. Við vitum að háfleyg kosningaloforð eru ekki grundvöllur framfara í bænum.
Þvert á móti taka þau athyglina frá þeirri staðreynd að lykillinn að góðri stjórnun bæjarfélags eins og okkar liggur í mikilli vinnu og samstarfi þeirra sem að ferlinu koma. Þar er átt við bæjarstjórn og starfsfólk bæjars i virku samstarfi við íbúa.
Það stjórnmálafólk sem velja skal til verksins verður að hafa margt til brunns að bera eigi því að farnast vel í eins stóru og fjölþættu verkefni sem rekstur bæjarfélagsins er. Reynsla úr öðrum störfum vegur þar þungt. Líka fagþekking og innsýn inn í málefni og rekstur mismunandi málaflokka sem í deiglunni eru. Mest um vert er þó að ávallt sé til staðar sterk tenging, samvinna og samstarf við íbúana sjálfa. Að þeir einstaklingar sem í brúnni standa beri gæfu til að kunna að hlusta eftir takti samfélagsins.
Frambjóðendur B-lista Framsóknarfólks í Kópavogi hafa til brunns að bera það sem máli skiptir til að ná árangri fyrir bæjarfélagið og leiða rekstur þess næsta áfangann.
Orri Hlöðversson, oddviti Framsóknarflokksins í Kópavogi