Loksins, loksins – heildarsýn – skipulagsmál á Kársnesi

Það eru góð tíðindi að skipulagsráð samþykkti samhljóða í byrjun febrúar að gera rammaskipulag fyrir þróunarsvæðið á Kársnesi. Þar með er horfið frá bútasaumsstefnunni sem einkennt hefur uppbyggingu svæðisins. Fjárfestar á hverjum reit hafa fram til þessa fengið heimild til að vinna deiliskipulag. Látið hefur verið undan miklum þrýstingi á byggingarmagn. Fjölbýlishúsabyggðin er há og einsleit en heildarsýnina skortir. Við gerð skipulags eru það nefnilega ekki einstakar byggingar heldur svæðin milli þeirra, mannlífið, athafnalífið og heildarsýnin sem mestu skipta.

Verkefnislýsing Alta sem verður til grundvallar við gerð rammaskipulags ber yfirskriftina Viðsnúningur á Kársnesi. Skipulagssérfræðingar Alta telja mikil tækifæri blasa við en jafnframt að hingað til hafi heildarsýn skort. Hana þurfi að vinna með viðurkenndum aðferðum og festa síðan í sessi með lögbundinni skipulagsáætlun í rammahluta aðalskipulags Áhersla er á samráð við íbúa frá upphafi og halda á því til haga sem íbúar hafa komið á framfæri í fyrri ferlum. Í samráðinu verði skýrt á hvað íbúar geta haft áhrif og hvað ekki. Gert er ráð fyrir að rammaskipulagið nái ekki bara til þróunarsvæðisins heldur líka- til nýbyggingarsvæða á norðanverðu Kársnesi.

Í lögbundnum skipulagsáætlunum eiga efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi að vera leiðarljósið. Þær eiga líka að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma með sjálfbærri þróun í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu.

Í vinnunni framundan á að horfa til sérstöðu og umhverfisgæða svæðisins og vanda vel til skilgreindra almenningsrýma. Mikilvægt er að nýta sólrík og skjólgóð svæði til mannlífs og útvistar og láta lýðheilsumarkmið ekki sitja á hakanum. Með nýrri Fossvogsbrú og góðu skipulagi verður Kársnesið ekki bara aðlaðandi til búsetu heldur líka til alls kyns þjónustu sem vart er að finna á núverandi athafnasvæðum. Nálægð og greiðar samgöngur við ýmsa fjölmennustu vinnustaði landsins, s.s. Landspítalann, háskólana, dómstólana og stjórnsýslu ríkisins er ekki aðeins til þess fallið að laða nýja íbúa á vinnualdri til búsetu heldur líka ýmiss konar nauðsynlega þjónustustarfsemi. Augljóst er að sérfræðiþjónusta t.d. lækna og annarra heilbrigðisstétta, lögfræðinga og ýmiss konar ráðgjafa nýtur nálægðarinnar.

Ótalið er hvað Kársnesið getur lagt til ferðaþjónustunnar. SkyLagoon laðar nú þegar að sér geysilegan fjölda gesta, sem geta ásamt íbúum lagt grunn að fleiri veitingastöðum, verslunum, dægradvöl og þjónustu. Í verkefnisáætluninni kemur fram að sérstakt aðdráttarafl verði í útivistarhöfn og ylströnd og áhersla verður á að umhverfið á vestanverðu Kársnesi endurspegli sögu staðarins sem athafna- og hafnarsvæðis.

Nýverið gáfu Skipulagsstofnun og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu út leiðbeiningar um sjálfbært skipulag og vistvænar samgöngur í þéttbýli, sem sérfræðingar hafa unnið að um nokkurt skeið. Leiðbeiningarnar Mannlíf, byggð og bæjarrými má nálgast á vef Skipulagsstofnunar. Í sjálfbæru borgarskipulagi er byggð hóflega þétt, landnotkun blönduð og meirihluti göturýmis fer undir vistvæna ferðamáta, gróður og bæjarrými, sem gerir íbúum kleift að sinna daglegum þörfum fótgangandi, hjólandi og með almenningssamgöngum. Tryggja á gróðri fullnægjandi pláss við gerð deiliskipulags og hönnun byggðar, mannvirki, göturými og innigarðar mega ekki þrengja að rótarplássi.

Kjörnir fulltrúar almennings fara með skipulagsábyrgðina. Við eigum að vinna að almannahagsmunum og tryggja hag bæði núverandi íbúa og framtíðarkynslóða. Íbúðabyggð sem ofnýtir landgæði stríðir gegn sjálfbærni og hag komandi kynslóða. Áherslur Vina Kópavogs eru í fullu samræmi við það sem speglast í leiðbeiningum Skipulagsstofnunar og líka í verkefnisáætlun rammaskipulagsins. Tíminn vinnur með okkur. Ég hefði svo sannarlega kosið að rammaskipulag fyrir Kársnesið hefði verið gert áður en uppbygging hófst á þróunarsvæðinu. Vinir Kópavogs hafa verið gagnrýnir á uppbygginguna sem orðin er á forsendum fjárfesta. Því miður hefur víða verið gengið of nærri strandlengjunni. Almenningur fær því ekki notið hennar sem skyldi og ekki er nægilegt athafnarými fyrir þjónustu og mannlíf.

En batnandi mönnum er best að lifa. Ég vonast til að íbúar nýti tækifærið í fyrirhuguðu samráði til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ég bið þess að skipulagsyfirvöld taki mark á leiðsögn þeirra og annarra sem geta veitt góð ráð.

Helga Jónsdóttir,
bæjarfulltrúi og oddviti Vina Kópavogs.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar