Af hverju foreldrarölt?

Grunnstoð
Grunnstoð er samráðsvettvangur Garðabæjar og foreldrafélaganna í grunnskólum bæjarins. Grunnstoð á í samstarfi við Heimili og skóla, sem eru landssamtök foreldra. Grunnstoð gegnir veigamiklu hlutverki sem hagsmunahópur foreldra grunnskólabarna í Garðabæ og er málsvari þeirra. Í Garðabæ eru tæplega 2600 nemendur í átta grunnskólum. Tveir fulltrúar frá hverju foreldrafélagi starfa í Grunnstoð en auk þess skipar Grunnstoð fulltrúa úr sínum röðum í skólanefnd grunnskóla Garðabæjar. Tilgangur Grunnstoða er að efla rödd foreldra og sameina krafta þeirra til góðra verka í skólamálum, á faglegan og málefnalegan hátt.

Foreldrarölt
Undanfarin ár hefur Grunnstoð haldið úti foreldrarölti. Við teljum að foreldraröltið sé mikilvægur hlekkur í samvinnu foreldra sem stuðlar að tryggara umhverfi fyrir börn og unglinga í bæjarfélaginu. Tilgangur foreldraröltsins er að mynda tengsl og koma á auknu samtali á milli foreldra í Garðabæ en það hefur mikilvægt forvarnagildi að foreldrar þekkist og tali saman. Þá er sýnileiki fullorðinna ein besta forvörnin gegn óæskilegum hópamyndunum og getur minnkað líkurnar á að börnin okkar lendi í aðstæðum sem þau ráða ekki við. Við höfum haft að leiðarljósi að með virku foreldrarölti er hægt að koma börnum og unglingum til aðstoðar sé þess þörf. Hlutverk þeirra sem fara í foreldraröltið er meðal annars að skima eftir börnum og unglingum sem eru úti eftir að lögbundinn útivistartími er liðinn. Foreldrar hafa ekki inngripsvald og mikilvægt er að ganga ekki inn í aðstæður með offorsi eða stjórnun heldur tala með hlýju og umhyggju að leiðarljósi við börn og unglinga sem mögulega eru höfð afskipti af. Foreldraröltið á þannig að snúast um að vera til staðar, hlusta og leiðbeina.

Foreldrarölt hefur verið skipulagt í kringum daga þar sem börn eru almennt mikið á ferðinni. Gengið hefur verið á fyrirfram ákveðna staði í bæjarfélaginu þar sem vitað er til að hópar barna geti safnast saman. Samkvæmt skipulaginu ættu foreldrar úr hverjum skóla Garðabæjar að ganga tvisvar sinnum yfir skólaárið, annars vegar að hausti og hins vegar að vori. Í sumum skólum hefur myndast skemmtilegur andi í kringum þessa daga sem aukið hefur tengsl innan foreldrahópsins og stuðlað að auknu samtali þeirra á milli. Í öðrum skólum hefur hins vegar oft verið mjög erfitt að ná til foreldra og foreldrarölt verið fellt niður því ekkert foreldri sá sér fært um að taka þátt.
Við í Grunnstoð hvetjum foreldra grunnskólabarna til að taka þátt í foreldrarölti sinna skóla. Það er nefnilega líka á ábyrgð foreldra að auka öryggi barna og unglinga í bænum. Foreldraröltið er kjörið tækifæri til þess.

Vera Rut, formaður Grunnstoða.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar