Breytingar á starfi Grunnstoðar

Grunnstoð er samstarfsverkefni á milli foreldrafélaga grunnskóla Garðabæjar og Garðabæjar og starfar í samstarfi og Heimili og skóla, sem eru landssamtök foreldra. Grunnstoð gegnir veigamiklu hlutverki sem hagsmunahópur foreldra grunnskólabarna í Garðabæ. Í bænum eru átta grunnskólar og tveir fulltrúar frá hverju foreldrafélagi eiga sæti í grunnstoð. Tilgangur Grunnstoða er að efla rödd foreldra og sameina krafta þeirra til góðra verka í skólamálum, á faglegan og málefnalegan hátt.

Á síðasta starfsári voru gerðar breytingar í Grunnstoð. Í grein í síðasta tölublaði Garðapóstsins ræddi ég mikilvægi foreldrarölts, sem fram til þessa hefur verið fyrirferðarmesta verkefni Grunnstoða. Á fundum stjórnar sl. vetur og í samtali við Garðabæ hefur verið ákveðið að færa ábyrgð á foreldraröltinu af Grunnstoð og yfir á foreldrafélög skólanna. Með nýju skipulagi vonum við í Grunnstoð að þátttaka í röltinu verði meiri og að aðilar í foreldrafélögum nái betri árangri við að virkja sitt foreldrasamfélag. Grunnstoð verður áfram styðjandi við foreldrafélög um röltið en heldur ekki á skipulagi og framkvæmd þess. Grunnstoð hefur þegar mótað sérstakar leiðbeiningar um röltið sem foreldrafélögin geta notað.

Með þessum breytingum vonumst við til þess að geta einbeitt okkur enn frekar af því sem tilgangur Grunnstoða á að snúast um. Samkvæmt stofnskjölum og starfsreglum sem settar voru er tilgangi Grunnstoða líst á þann hátt: „Tilgangur Grunnstoða er að efla rödd foreldra og sameina krafta þeirra til góðra verka í skólamálum, á faglegan og málefnalegan hátt ásamt því að reyna auka samskipti milli skóla, nemenda og foreldra, með því að gefa umsagnir um ýmis mál er varða starfsemi grunnskólanna og vera bæjaryfirvöldum til aðstoðar og ráðuneytis um skóla- og fjölskyldumál.“

Við í Grunnstoð ætlum nú að einbeita okkur að umsagnarskjali sem við afhendum stjórnendum Garðabæjar. Skjalið, sem ber vinnuheitið „Bænaskjal“, er unnið á þann hátt að fulltrúar Grunnstoða hitta fulltrúa foreldrafélaga sinna skóla, ásamt skólastjórnendum, á fundi þar sem teknar eru saman tillögur að úrbótum, bæði sértækar fyrir hvern skóla og sameiginlegar fyrir alla grunnskóla í Garðabæ. Skjalinu er skilað með athugasemdum og óskum foreldra um úrbætur í skólum bæjarins. Athugasemdir geta meðal annars snúist um að bæta þurfi lýsingu eða aðbúnað á skólalóðum, aðstöðu eða viðhald á skólahúsnæði eða bætt öryggi við skólana sjálfa. Ekki er síður mikilvægt að Grunnstoð komi að ábendingum um innra starf skólanna, hvort sem um ræðir hugmyndir að nýjungum eða eitthvað sem betur má fara. Vinna við skjalið hefst í janúar og áætlað er að því verði skilað í maí. Öllum er frjálst að senda inn tillögur að efni á tölvupóstfangið [email protected]

Vera Rut, formaður Grunnstoða í Garðabæ.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar