Hóflega bjartsýn á að geta haldið fullri dagskrá og gleði á komandi vetri

Það verður boðið upp á fjölbreytta, hressandi og skemmtilega tónleika í vetur í Salnum. Til stóð að halda ferna sumarjazz tónleika núna í ágúst en vegna nýjustu sóttvarnarreglna bíða þeir betri tíma.
Kópavogspósturinn heyrði í Aino Freyju Jarvela, forstöðumanni Salarins og spurði hana nánar um dagskrána sem er framundan og almennt um tónleikahald í Salnum.

Við erum hóflega bjartsýn á að geta haldið fullri dagskrá og gleði á komandi vetri en erum þó búin að læra í þessu covid ástandi að vera við öllu búin og helst með plan-b og c segir Aino Freyja Jarvela, forstöðumaður Salarins

„Áskriftasala er hafin á Tíbrá tónleikaröðina sem verður einstaklega skemmtileg og fjölbreytt í ár. Hefðbundnir tónleikar í bland við nýsköpun og tilraunastarfsemi. Þó nokkuð verður um söngtónleika svo sem með Kristni Sigmundssyni og Eddu Erlendsdóttur sem koma í fyrsta sinn fram saman á ljóðatónleikum. Hallveig Rúnarsdóttir og Árni Heimir Ingólfsson verða einnig með söngtónleika sem og Karin Björg Torbjörnsdóttir sem hlaut Grímuna í fyrra. Svo verður boðið upp á samsuðu jazzins og óperunnar í flutningi frábærra tónlistarmanna, tónleikhúsverk um Clöru Schumann, einleikstónleika á píanó með Guðrúnu Dalíu Salómonsdóttur og margt margt fleira. Við erum einstaklega spennt fyrir komandi vetri,“ segir Aino.

Karin Björg Torbjörnsdóttir verður með söngtónleika en hún hlaut Grímuna í fyrra

Auk Tíbrá raðarinnar verður tekinn upp þráðurinn frá því í fyrra haust og 250 ára afmælis Beethovens fagnað með landsliði píanóleikara á Íslandi. Lagt var af stað með að flytja allar píanósónötur Beethovens á níu tónleikum. Aðeins náðist að halda tvenna tónleika í fyrra haust áður en lokað var vegna covid-19 og verða því síðustu sjö á dagskrá nú í lok október og nóvember. Af fingrum fram heldur sömuleiðis áfram sem og fjöldi annarra tónleika sem beðið hafa á hliðarlínunni undanfarið ár í bland við nýja tónleika sem ekki hafa verið áður á dagskrá.

„Við erum hóflega bjartsýn á að geta haldið fullri dagskrá og gleði á komandi vetri en erum þó búin að læra í þessu covid ástandi að vera við öllu búin og helst með plan-b og c. Við munum því til að mynda byrja á því að selja á Tíbrá og Beethoven tónleikana með fjarlægðartakmörkunum svo að sem minnst rask verði fyrir miðaeigendur ef hert verður á sóttvarnarreglum. Svo er hægt að selja í öll sæti ef allt gengur vel.” segir hún.

Streymisbúnaður
,,Alltaf er nóg um að vera í Salnum og ef veiran heldur áfram að hrella okkur þá hefur Salurinn komið sér upp fyrsta flokks streymisbúnaði þannig möguleiki er að selja inn á tónleika á netinu ef allt annað bregst. Þó að ekkert jafnist á við að upplifa tónleika í raunheimum meðal annarra tónleikagesta,” segir Aino. „Til stóð að halda ferna sumarjazz tónleika í forsalnum alla fimmtudaga í ágúst. Nú er orðið ljóst að vegna nýjustu fjöldatakmarkana þarf að fresta allavega fyrstu tveimur tónleikunum. Þeir bíða til betri tíma og verða þá á dagskrá í haust eða jafnvel á aðventunni – allt eftir því hvernig gengur í baráttunni við veiruna,” segir hún að lokum.

Eins og fyrr segir er áskriftasala hafin á Tíbrá tónleikaröðina en líkt og fyrri ár fæst 50% afsláttur af miðaverði ef keyptir eru miðar á tíu tónleika eða fleiri í röðinni.

Burðarmynd. Aino Freyja Jarvela, forstöðumaður Salarins

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar