Hiking Haven

Útivistarsvæði við Elliðavatn

Markaðsstofa Kópavogs hefur fengið syrk úr nýsköpunarsjónum SÓLEY, sjóði Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir nýsköpun og sjálfbærni í ferðaþjónustu. Styrkurinn er veittur vegna verkefnisins „Hiking Haven – Gönguleiðir og kort“. Verkefnið felst í að kynna svæðið í kringum Elliðavatn sem eitt sameiginlegt útivistarsvæði fyrir íbúa höfuðborgarinnar og ferðamenn.

Svæðið í kringum Elliðavatn, sem innfelur Heiðmerkursvæðið ásamt landsvæði Kópavogs í kringum Elliðavatni og út frá Guðmundarlundi, hefur verið skilgreint sem útivistarparadís undir heitinu „Hiking Haven“ á vefsvæðinu www.visitreykjavik.is, sem er sameiginlegt vefsvæði ferðaþjónustunnar á höfuborgarsvæðinu og er rekið af Höfuðborgarstofu. Þar segir m.a. „You don’t have to travel far to experience wild Icelandic nature. Visit Hiking Haven, the “Central Park” of Reykjavík.“

Í dag virkar svæðið ekki sem ein heild þar sem gönguleiðir á landsvæði Kópavogs eru ómerktar og slitna við bæjarmörk. Til að gera eitt sameiginlegt útivstarsvæði þarf að samtengja gönguleiðir yfir bæjarmörk og hafa samræmdar merkingar á öllu svæðinu.

Verkefnið sem Markaðsstofa Kóapvogs hefur hlotið styrk frá SSH til að vinna að, felst m.a. í að:

  1. Samtengja göngustíga við Elliðavatn yfir bæjarfélagamörk þannig að mögulegt verði að ganga í kringum vatnið með góðu móti.
  2. Merkja gönguleiðir og bílastæði á landsvæði Kópavogs með sama hætti og þegar er gert í Heiðmörk.
  3. Útbúa eitt heildstætt kort af útivistarsvæði sem innifelur Heiðmörk og útivistarsvæðið í Kópavogi í kringum Elliðavatn og út frá Guðmundarlundi.
  4. Hvetja íbúa og ferðamenn til að nýta sér útivistarperluna með áherslu á gönguleiðir í einstöku umhverfi og fallegri náttúru.
Gunar Einasson, stjórnarformaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH), veitir Birni Jónssyni hjá Markaðsstofu Kópavogs styrkinn

Í Heiðmörk hefur undanfarin ár verið unnið skipulega að gerð göngustíga og merkingu gönguleiða. Útbúið hefur verið kort af svæðinu með mörgum merktum gönguleiðum og bílastæðum sem tengjast þeim. Þetta kort nær yfir svæði sem tilheyrir Reykjavík og Garðabæ en aðliggjandi útivistarsvæði sem tilheyra Kópavogi eru ómerkt og eru ekki sýnd á kortinu. Á landsvæði Kópavogs eru víða góðir göngustígar og reiðstígar og því ekki þörf á miklum framkvæmdum, heldur þarf fyrst og fremst að skoða skipulega þá stíga sem þegar eru fyrir hendi og velja bestu gönguleiðir til að merkja. Til lengri tíma þarf þó að horfa til þess að göngufært verði í kringum Elliðavatn á stígum sem liggja niður við vatnið, þar sem núverandi stígakerfi liggur á nokkrum stöðum nokkuð langt frá vatninu sjálfu.

Stjórn Markaðsstofu Kópavogs hefur þá framtíðarsýn að „Hiking Haven“ svæðið verði vel þekkt útivistarsvæði og að ferðamenn og íbúar höfuðborgarsvæðisins geti gengið um allt svæðið á góðum göngustígum og vel merktum gönguleiðum. Til að gera svæðið sem aðgengilegast verði útbúið gagnvirkt kort af svæðinu þar sem notendur geta skoðað gönguleiðir í mynd, valið spennandi leiðir áður en lagt er af stað og síðan fengið góðar leiðbeiningar í rauntíma á meðan á ferð stendur. Guðmundarlundur og hið frábæra starf sem þar hefur verið unnið verði leiðarljós fyrir frekari uppbyggingu á svæðinu. Með uppbyggingu fleiri áningarstaða, úti líkamsræktaraðstöðu og jafnvel baðaðstöðu við vatnið mun notagildi og verðmæti svæðisins aukast.

Stefnt er að því að verkefnið verði unnið í nánu samstarfi við Kópavogsbæ, Skógræktarfélag Kópavogs, Skógrækt Reykjavíkur, Höfuðborgarstofu og Garðabæ og að það verði unnið á árinu 2021 með meginþunga yfir sumartímann.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar