Hreinsunarátak í apríl og vorhreinsun lóða í maí

Árlegt hreinsunarátak Garðabæjar verður að þessu sinni dagana 24. apríl – 8. maí nk. en þá eru nágrannar, íbúasamtök, félagasamtök, íþróttafélög og skólar hvattir til að taka þátt.

Hópar geta sótt um að fá úthlutuð svæði til að hreinsa í sínu nærumhverfi og geta fengið styrk í fjáröflunarskyni eða til að halda grillveislu í lok góðrar tiltektar. Áhugasamir hópar geta haft samband við verkefnastjóra garðyrkjudeildar, s. 820 8574, [email protected].

Íbúar eru hvattir til að sýna gott fordæmi með því að taka nærumhverfi í fóstur og hlúa að því. Starfsmenn bæjarins munu hirða upp alla poka og annað eftir ruslatínslu bæjarbúa, hópa eða einstaklinga. Hægt er að nálgast poka í áhaldahúsinu við Lyngás 18 og þátttakendur eru hvattir til að flokka plast sérstaklega frá öðru rusli í glæran plastpoka. Athugið að vegna samkomutakmarkana þarf að fylgja gildandi reglum um fjölda í hóp og fjarlægð á milli þátttakenda í hreinsunarátakinu.

Stóri plokkdagurinn og Dagur umhverfisins
Hreinsunarátakið hefst eins og áður sagði laugardaginn 24. apríl nk. en þann dag er líka ,,Stóri plokkdagurinn“ sem nú er haldinn í fjórða sinn víðs vegar um land. Plokk á Íslandi er hópur einstaklinga sem reglulega fara um illa hirt svæði og taka þar upp rusl og hafa staðið að ,,Stóra plokkdeginum“ þar sem landsmenn allir eru hvattir til að taka þátt. Á vefnum plokk.is er hægt að lesa nánar um átakið og einnig er hægt að sjá Plokk á Íslandi á facebook. Sunnudaginn 25. apríl nk. er árlegur ,,Dagur umhverfisins“ og því vel við hæfi að hreinsun-arátak Garðabæjar fari af stað þessa helgi í apríl.

Kvenfélag Garðabæjar á Garðaholti
Kvenfélagskonur á Álftanesi

Vorhreinsun lóða í maí
Eins og síðustu ár eru Garðbæingar hvattir til að hreinsa lóðir sínar í sameiginlegu átaki dagana 10-21. maí. Starfsmenn bæjarins og verktakar verða á ferðinni þessa daga og hirða garðúrgang sem settur hefur verið út fyrir lóðamörk. Farið verður á milli allra hverfa bæjarins og nánari upplýsingar um hvenær verður hirt úr hvaða hverfum má sjá á vef Garðabæjar, gardabaer.is, auk þess sem það verður kynnt í Garðapóstinum í maí. Samhliða hefst götusópun í íbúðahverfum þegar vorhreinsunin stendur yfir en byrjað var að sópa aðalgötur bæjarins í apríl.

Allar nánari upplýsingar um hreinsunarátakið og vorhreinsun lóða í Garðabæ má sjá á vef bæjarins, gardabaer.is.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar