Hefur fengið 70 milljónir hlustanir! Axel Flóvent er söngvaskáld Salarins 3. febrúar.

Einstakur hljóðheimur Axels Flóvent hefur heillað hlustendur um allan heim síðan hann kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2015 með smáskífu sinni Forest Fires en titillag skífunnar er með yfir 70 milljón hlustanir á Spotify. Lög hans hafa heyrst í fjölda sjónvarpsþátta á borð við Grey’s anatomy og Vampire diaries. Íslenskir tónlistarunnendur hafa ekki fengið mörg tækifæri til að upplifa draumkenndan hljóðheim Axels á tónleikum en hann hefur mest spilað á meginlandi Evrópu og í Bretlandi á síðustu árum.  

Þetta eru frekar persónulegir tónleikar þar sem þú ert að hleypa fólki inn í vinnuferlið þitt – hvernig tilfinning er það? ,,Já, ég er mjög spenntur að fá tækifæri til að rýna inn í ferlið meira og fá tækifæri til að tala um það sem ég vinn við á hverjum degi en það verður líka áhugavert að finna leið í frásögninni þar sem það getur verið spennandi fyrir fólk sem hefur minni áhuga á sköpunarferlinu – þetta verður einhver fín lína á milli þess fara meira inn í ferlið og láta tónleikana samt snúast um að spila tónlistina.“ 

Hvað er, ef eitthvað, mest krefjandi við að vera tónlistamaður í dag? ,,Það er kannski helst markaðsetningin. Mér finnst oft að dagar mínir snúast meira um að markaðsetja tónlistina mína heldur en að skapa meira. Ég persónulega væri til í að skapa flest alla daga en núna sér tónlistarmaðurinn um að auglýsa sig á samfélagsmiðlum og að finna áhugaverðar leiðir til að auglýsa sig sem hefur ekki alltaf verið svona mikil ábyrgð fyrir tónlistarmanninn.“ 

Ég elska hvað þessa vinna bíður upp á margt

Frá sköpun til flutnings, er einhver tímapunktur sem þú stoppar alltaf við, eða er mest spennandi, stendur upp úr í ferlinu á einhvern hátt? ,,Ég elska hvað þessa vinna bíður upp á margt en ég held að ég elska mest að vera einn í stúdíóinu mínu að skapa. Það er það sem ég dreymi um á tónleikaferðalögum. Elska tónleikana sjálfa en það er yfirleitt frekar stutt stund og endist ekki lengi og tónleikaferðalögin snúast yfirleitt meira um ferðalögin. En tengingin við aðdáendur er geggjaður rjóma með þessari köku sem það er að fá að skapa og það er engin tenging meira gefandi og tónleikar.“ 

Hvert sækir þú innblástur? Er það ólíkt eftir samstarfsaðilum? Er það ólíkt eftir listformi, þar sem þú hefur starfað þvert á miðla/listgreinar? ,,Fyrst og fremst er það alltaf tónlist. Það verður líklegast alltaf það sem skapar þessa djúpu löngun mína til að semja tónlist. En svo nota ég oft pinterest og skoða þar fallegar ljósmyndir, ljóð, málverk og samansafn af fallegri astetík til að gefa mér hugmyndir fyrir texta, og concept til að vinna með.“ 

Frumflytur óútgefna plötu í heild sinni

Við hverju má fólk búast á tónleikunum þann 3. febrúar nk? ,,Ég ætla frumflytja óútgefna plötu í heild sinni (sem kemur út í Júní) ásamt hljómsveit og einnig ætla ég að taka áhorfendur í gegnum það ferli sem ég fór í til að skapa þessa plötu og hvað ég hef lært í ferlinu fyrir næstu plötu,“ segir Axel að lokum. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar