Glæða Klaustur lífi

„Nú hefjum við klaustrið aftur til vegs og virðingar. Ég er viss um að það er mikill áhugi á að taka þátt í endurbyggja húsið, varðveita ásýnd þess og að það hýsi starfsemi sem sé samfélaginu til góða,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar um fyrirhugaða markaðskönnun á samstarfsverkefni um nýtingu, viðhaldi og endurbótum á Holtsbúð 87. Húsið er betur þekkt sem „Klaustrið“ og var í eigu Sankti Jósefssystra.
 
„Húsið þarfnast þessarar þrennu ef svo má að orði komast, endurbæta það, viðhalda því og það þarf að nýta það,“ segir Almar og bætir því við að sú kvöð hvíli á húsinu samkvæmt kaupsamningi við Sankti Jósefssystur að þar verði starfsemi fyrir aldraða, önnur sambærileg starfsemi á sviði mannúðar, heilbrigðismála eða starfsemi fyrir börn og ungmenni.
 
Saga klaustursins
Húsnæðið er um 2.300 fermetrar, en Garðabær úthlutaði systrunum lóðinni við Holtsbúð á árinu 1974 og var það tekið í notkun nokkrum árum síðar. Klaustrið var heimili systranna hér á landi til ársins 1998 en í desember það ár var húsnæðið leigt Garðabæ til að starfrækja þar hjúkrunarheimili og árið 2014 eignaðist Garðabær húsið.
 
„Við viljum glæða húsið lífi og hlúa að því. Þetta er góð staðsetning til að rekja slíka starfsemi í góðri samvinnu við nágranna og næsta umhverfi. Markaðskönnun er fyrsta skrefið þar sem við auglýsum eftir áhugasömum aðilum inn í verkefnið. Síðar tekur við hefðbundin útboðsferli við val á samstarfsaðila. Reikna má með að niðurstöður liggi fyrir í haust,“ segir Almar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar