Handþvottur eða dauði

Upptaktur ungu tónskáldanna

Elvar Sindri Guðmundsson, 11 ára nemandi við Salaskóla, Telma Ósk Bergþórsdóttir, 15 ára nemandi við Salaskóla og Þorbjörg Gróa Eggertsdóttir, 11 ára nemandi í Kársnesskóla voru á meðal grunnskólakrakka sem áttu glæný lög á glæsilegum tónleikum sem fram fóru í Norðurljósum, Hörpu, þann 12. maí síðastliðinn þegar uppskeruhátíð Upptaktsins 2021 fór fram.

Kópavogsbær tekur þátt í fyrsta sinn

Upptakturinn hefur verið haldinn um árabil en þar geta börn í 5.- 10. bekk grunnskóla sent inn lag. Metþátttaka var í ár en 94 lög bárust í keppnina og úr þeim valdi dómnefnd 13 lög til áframhaldandi þróunar. Afraksturinn var svo fluttur af starfandi hljóðfæraleikurum á fyrrnefndum uppskerutónleikum í Hörpu en Upptakturinn er samstarfsverkefni Hörpu, LHÍ, Barnamenningarhátíðar og Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur. Upphaflega var Upptakturinn miðaður við börn í Reykjavík en sífellt fleiri sveitafélög hafa bæst við og í ár bauðst börnum í Kópavogi að taka þátt í fyrsta sinn.

Stolt ungtónskáld að loknum glæsilegum uppskerutónleikum Upptaktsins 2021

Handþvottur eða dauði

Skemmst er frá því að segja að lög krakkanna voru hvert öðru frumlegri og skemmtilegri þar sem meðal annars var sungið og spilað um köttinn sem dó og Kórónu sem drepur. Í síðastnefnda laginu stigu söngfuglar úr Kársneskór á stokk og tóku undir í kröftugu rokklagi vinkonu sinnar, Þorbjargar Gróu, 11 ára, um öll leiðindin í kringum kórónaveiruna þar sem skólar og sundlaugar eru lokaðar, ekkert við að vera og maður þarf alltaf að vera að þvo sér um hendurnar!

Þess má geta að tónleikarnir voru teknir upp af RÚV og verða á dagskrá Rásar 1, 24. maí (annan í hvítasunnu) kl. 16. Ungu tónskáldunum eru færðar innilegar hamingjuóskir með frábæra tónleika.

Mynd! Kóróna drepur eftir Þorbjörgu Gróu, 11 ára í Kársnesskóla, var á meðal laga sem frumflutt voru á Upptaktstónleikum.

Börn úr Kársneskórnum ásamt kammersveit við frumflutning lagsins Kóróna drepur eftir Þorbjörgu Gróu, 11 ára. Forsíðumyndin er af börnun úr Kársneskórnum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar